12.11.1970
Neðri deild: 17. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í B-deild Alþingistíðinda. (70)

101. mál, atvinnuöryggi

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það eru sjálfsagt einhverjar töfraformúlur í þessu frv., sem hvorki hefur tekizt að skýra með texta frv. sjálfs né hinni óralöngu grg., sem því fylgir, en inntak þessarar töfraformúlu á, eftir því sem hæstv. forsrh. segir, að vera það, að tryggður er aukinn kaupmáttur með því að halda 26% hækkun launa í krónutölu móts við það, sem hefði orðið, ef launin hefðu hækkað um 40%. Þá hefði kaupmátturinn orðið minni, segir hæstv. forsrh., og það hlýtur að gerast við eitthvað af efnisatriðum frv. Hvernig gerist þetta? Er ekki hægt að fá það útskýrt, hvernig það gerist við efni þessa frv. að tryggja kaupmáttinn með 26% krónulegri launahækkun, peningalegri launahækkun, móts við 40% launahækkun. sem ella hefði orðið? Það er máttugur launaskatturinn og niðurgreiðslurnar, ef það skilar svona auknum kaupmætti. Þetta er það, sem við höfum ekki getað lesið út úr frv., og við höfum lesið frv. ofan í kjölinn, stjórn hvers verkalýðsfélags út af fyrir sig, stjórn Alþýðusambandsins út af fyrir sig, skipuð mönnum bæði úr stjórnarliði og stjórnarandstöðuliði og allir orðið sammála um, að þeim bæri að vega og meta innihald frv. öfgalaust lið fyrir lið. Og ég veit ekki annað heldur en það komi fram í okkar ályktunum, að við erum ekkert að afflytja efni frv. Við segjum nákvæmlega lið fyrir lið, hver við teljum efnisatriði frv. vera og lýsum afstöðu okkar til þeirra hvers og eins. Og þótt hæstv. ríkisstj. fáist ekki til þess að skilja það, þá er þetta einróma afstaða launþegasamtaka, innan Alþýðusambandsins og utan þess, eftir því sem vitnisburðir nú berast um. Og enginn þarna getur skilið þennan fagnaðarboðskap, sem hæstv. forsrh. og hæstv. viðskmrh. boða, anzi borubrattir, að þetta séu kjarabætur, en ekki skerðing kjara. Ég er afar hræddur um það, að það sé dálítið af misskilningi hjá þeim sjálfum.

Það er ekki auðvelt að koma fram með gyllingar í sambandi við þetta, ekki heldur með því að segja: „Svo kemur öryggi atvinnulífsins í viðbót, og það vilja a. m. k. einhverjir meta.“ Slíkt metur verkalýðsstéttin mikils, ef hún hefur einhverja tryggingu fyrir því, að það væri annað en gyllingar. Aukið atvinnuöryggi er okkur sannarlega mikils virði. En ég sé ekkert í þessu frv., sem tryggi atvinnuöryggi, þótt það heiti svo, það er í fyrirsögninni.

Ég lofaði að vera stuttorður, og það skal ég efna. Hæstv. ráðh. taldi, að ástæðan til þess, að ég las ekki allt bréf B. S. R. B., hafi verið sú, að ég fann þar ekki það, sem ég leitaði að, einhverja fordæmingu á frv. Nei, mér þótti bréfið nokkuð langt til þess að lesa það allt og vitnaði í nokkur atriði í niðurlagi þess, það, sem ég taldi vera meginefnið. En það, sem kom í ljós við lestur hæstv. forsrh. á bréfinu, eru andmæli gegn frv. Þar segir, að í frv. séu bráðabirgðaúrræði nær algerlega á kostnað launþega, nær algerlega á kostnað launþega. Það er alveg nákvæmlega hið sama og ég hef komizt að niðurstöðu um. Ég sagði, að eini ljósi díllinn á frv. væru fjölskyldubæturnar. Þessi samtök segja, að ákvæði frv. séu nær algerlega á kostnað launþega. Skilur hæstv. forsrh. þessa setningu sem kjarabætur, viðurkenningu á, að það séu kjarabætur? Nei, hann getur ekki gert það, hann getur ekki gert það. Flest öll ákvæði þessa frv. eru á kostnað launþega, segir B. S. R. B., það eru engar langtímaráðstafanir í þessu. Þetta er allt saman sama krukkið og við höfum þekkt áður, segir í næstu málsgrein, eykur aðeins á misréttið í þjóðfélaginu. Er þetta ekki nógu harður dómur um frv.? „Þetta frv. eykur á misréttið í þjóðfélaginu,“ segir þarna orðrétt, „og verður ekki til þess að afstýra verðbólgunni, sem er þjóðarböl.“ Ég held, að þetta falli nokkurn veginn í þráð við þær umr., sem hér hafa orðið, og það er ekki til neins fyrir hæstv. forsrh. að koma með þetta sem innlegg með sínum málstað eða málstað viðskmrh. Þetta er gagnstætt þeirra málstað.