12.11.1970
Neðri deild: 17. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í B-deild Alþingistíðinda. (74)

101. mál, atvinnuöryggi

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það er í raun og veru engu, sem ég þarf, svo að nemur, við að bæta, en aðeins er það til áréttingar í sambandi við það, sem við nú höfum verið að fjalla um, um kaupmáttinn. Ég hef haldið því fram, að með ráðstöfunum þeim, sem hér eru gerðar, muni kaupmátturinn haldast hinn sami og ella hefði verið og jafnmikill með 26.5% hærra kaupi eins og jafnvel 40% hærra kaupi næsta ár, og þessa töfraformúlu, eins og hv. 9. þm. Reykv. sagði, skilur hann ekki. Hv. 2. landsk. þm. skýrði nú töfraformúluna, að það gagnar lítið að fá kaupið hækkað, ef vöruverðið hækkar. Í sambandi við þetta segir að vísu hv. 2. landsk. þm., að verðið sé auðvitað hægt að stöðva. Ég veit það. Það verður hans svar. En spurningin er nú, hvort það er rétt metið, og ég spyr: Hvernig á smákaupmaðurinn hér í verzlun sinni í Reykjavík að reka áfram verzlun sína, sem ekki hefur verið of vel haldin, ef hann fær ekki að hækka vöru sína vegna hækkaðs kaupgjalds vegna hækkaðrar kaupgreiðslu, sem hann á að inna af hendi, og hvernig á iðnrekandinn, smár og stór, að halda áfram atvinnurekstri sínum í þessu landi, ef hann fær ekki að taka inn í verðhækkanir, sem leiða bæði af kauphækkunum og hráefnisvöruhækkunum. Og ég held, að það sé ekki rangt hjá mér, að þeim, sem sömdu um kjörin í vor og sömdu um verðlagsuppbætur, hafi verið það ljóst þá og engin hula hafi verið yfir því, að með þessu hlutu að skapast meiri eða minni víxlhækkanir milli kaupgjalds og verðlags. Þegar hv. 9. þm. Reykv. segist ekkert sjá um atvinnuöryggi í frv., þá eru það einmitt þær ráðstafanir, sem stefna að atvinnuöryggi, sem miða að því að halda kaupgjaldinu og verðlaginu niðri, þ. e. stöðugu verðlagi og jafnvægi. Það er það, sem atvinnuöryggi grundvallast á.

Varðandi fsp. hv. 1. þm. Vestf., hvort kaupmátturinn verði sami 1. des. og 1. sept., þá hef ég ekki um það neina útreikninga hérna, en það er heldur ekki hægt að gera þá fyrr en fyrir liggur það verðlag, sem verður 1. des. nákvæmlega, en þær skýrslur og grg., sem við höfum gefið, hafa verið miðaðar við mismunandi tímabil á verðstöðvunartímanum eftir tiltekinni þróun, eins og við höfum gert þeim aðilum, sem við vorum að semja við, grein fyrir, ef þróunin væri með svipuðum hætti, eins og verið hefur, og jafnvel þó að reynt yrði að hafa einhvern hemil á verðlaginu. En þetta auðvitað kemur í ljós, og það kemur fyrst og fremst í ljós og er hægt að reikna þetta dæmi, þegar það liggur fyrir, hvert verðlagið er þann 1. des. nákvæmlega miðað við það, sem það var 1. sept., ef hann vill fá samanburð á ákveðnum tilteknum dögum. Ég hef hérna í fórum mínum samanburð á lengri tímabilum, sem mundu ekki svara hans spurningu beint, af því að hann spurði bara um mismun á tveimur dögum á árinu, 1. sept. eða 1. des.