19.11.1970
Efri deild: 19. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 824 í B-deild Alþingistíðinda. (773)

119. mál, Innheimtustofnun sveitarfélaga

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Eins og kunnugt er fæðast hér á þessu landi allmörg börn utan hjónabanda og ber þá barnsföður að greiða kostnað af uppeldi viðkomandi barns og nemur það orðið allháum upphæðum, þegar saman kemur. Hins vegar er það reynsla bæði forn og ný, að það gengur illa að innheimta þessi gjöld hjá barnsfeðrum, og þess vegna hefur það verið venja að undanförnu, að Tryggingastofnun ríkisins hefur greitt þessi meðlög til barnsmæðranna, en Tryggingastofnun hefur svo fengið endurgreiðslur frá viðkomandi sveitarfélögum. Í fyrra, nánar tiltekið 26. marz 1969, var samþ. á Alþ. svo hljóðandi tillaga:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta endurskoða núgildandi lagaákvæði um meðlagsgreiðslur í því skyni að gera reglur um þær einfaldari en þær eru nú. Verði stefnt að því, að endurskoðun þessari ljúki það tímanlega, að unnt verði að leggja fyrir næsta reglulegt Alþ. frv. til laga um þetta efni. Leitað verði samvinnu við Samband ísl. sveitarfélaga og þá aðila, er ástæða þykir til, um endurskoðun þessa.“

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er árangurinn af þeirri endurskoðun, sem farið hefur fram að verulegu leyti á vegum félmrn. og í samráði við Samband ísl. sveitarfélaga, og frá Sambandi ísl. sveitarfélaga hafa mér borizt tilmæli um, að frv. yrði nú lagt hér fram og er það gert samkv. þeirra eindregnu ósk. Meginatriði þessa frv. eru þau, að það er sett á stofn Innheimtustofnun sveitarfélaga, sem svo er kölluð, og þessi stofnun skal vera sameign allra sveitarfélaga landsins. Í stjórn Innheimtustofnunarinnar skulu vera þrír menn, einn skipaður af félmrh. og tveir kosnir af fulltrúaráði Sambands ísl. sveitarfélaga. Kjörtímabil og fleira, sem snertir kosningu þessarar stjórnar Innheimtustofnunarinnar, er svo nánar tiltekið í grg.

Í 3. gr. er svo skilgreining á hlutverki þessarar stofnunar, sem er að innheimta hjá barnsfeðrum meðlög, sem Tryggingastofnun ríkisins hefur greitt mæðrum óskilgetinna barna og fráskildum konum vegna barna þeirra. Innheimtustofnunin getur tekið að sér hvers konar innheimtur fyrir einstök sveitarfélög gegn greiðslu, einkum þó innheimtu á sveitarsjóðaskuldum manna, sem fluttir eru á brott úr sveit sinni. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga greiðir Innheimtustofnuninni það, sem á vantar, að tekjur hennar nægi til endurgreiðslu Tryggingastofnunarinnar og greiðslu reksturskostnaðar. Skal Innheimtustofnunin láta Jöfnunarsjóði í té fyrir 30. júní ár hvert reikninga stofnunarinnar fyrir næstliðið reikningsár. Innheimtustofnunin annast síðan innheimtu og meðlag hjá barnsfeðrum hvar sem er á landinu. Þetta er nokkur, og veruleg raunar, breyting á því ástandi, sem verið hefur, þar sem rekstur þessara mála hefur verið þannig að undanförnu, að Tryggingastofnunin hefur greitt barnsmeðlögin með börnunum og síðan innheimt meðlagsupphæðina hjá hreppsfélögunum, þar sem viðkomandi barnsfeður eru sveitfastir. Þetta hefur gengið misjafnlega og það er raunverulega ástæðan til þess, að frv. er flutt og ályktunin, sem ég las áðan, hefur verið gerð. Það er talið, að endurgreiðslur barnsfeðra til Tryggingastofnunar ríkisins muni hafa numið aðeins 3–5% af heildarfjárhæð útborgaðra meðlaga. Aðalinnheimta frá barnsfeðrunum sjálfum er hjá sveitarfélögunum, en hún hefur líka gengið illa. Þar sem bezt innheimtist er talið, að 60% af meðlögum hafi fengizt endurgreidd, en í flestum tilfellum hafi innheimtan numið aðeins frá 10–40% og hefur þá það, sem ekki innheimtist, lent á sveitarfélögunum og komið fram í hærri útsvörum hjá þeim.

Breytingin í þessu frv. hvað snertir barnsmæðurnar sjálfar er engin. Þær geta framvegis komið til Tryggingastofnunar ríkisins með sinn meðlagsúrskurð og fengið meðlagsupphæðina greidda þar. Breytingin á þessu kerfi, ef kalla má það kerfi, er eingöngu fólgin í því, hvernig meðlagsupphæðin er innheimt frá barnsfeðrunum sjálfum. Og það er, eins og ég hef reyndar þegar sagt, að nokkru leyti þannig, eða á að vera samkv. þessu frv. þannig, að Tryggingastofnunin sendir Innheimtustofnuninni kröfurnar, sem Tryggingastofnunin til bráðabirgða hefur greitt, og Innheimtustofnunin á síðan að innheimta hjá barnsföðurnum. Síðan er í 5. gr. frv. sagt frá, hvernig þessari innheimtu verði hagað. Þar er heimilað í fyrsta lagi að krefja kaupgreiðanda barnsföður og heimta af honum, að hann haldi eftir hluta af kaupi eða aflahlut til lúkningar meðlögunum. Það er líka heimilt að krefjast lögtaks í eigum barnsföður. Enn má krefjast þess, að lögreglan aðstoði við að hafa upp á barnsföður og færi hann á skrifstofu Innheimtustofnunarinnar, ef með þarf. Í fjórða lagi getur verið hægt að krefjast úrskurðar héraðsdómara, í Reykjavík sakadómara, um vistun barnsföður á vinnuhæli til að vinna af sér meðlagsskuld, og loks er hægt að krefjast þess, að meðlagsskuldari verði kyrrsettur, ef ástæða er til að ætla, að hann hafi í hyggju að hverfa úr landi.

Þetta er aðalefni frv. og um það þarf ég ekki annað að taka fram en það, að eins og segir hér í grg. er þarna orðið um að ræða allmiklar fúlgur, þar sem heildarmeðlagsgreiðslurnar voru komnar upp í 106 millj. kr., og 1968, en það er seinasta árið, sem fullnægjandi skýrslur ná til, var fjöldi barnsmæðra 3700 og börn á þeirra framfæri 5250. Þetta hefur alltaf verið að vaxa og nauðsynlegt að gera einhverjar ráðstafanir til þess að bæta hér úr. Það, sem kannske kann að orka nokkurs tvímælis, er svo það, að nú eiga sveitarfélögin ekki neitt á hættu beinlínis að þurfa að greiða upp í vangreidd meðlög, heldur verður það Jöfnunarsjóður sveitarfélaga, sem á að taka að sér þessar greiðslur. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga er sameign allra sveitarfélaganna og það er samdóma álit stjórnar sambandsins, að það sé sveitarfélögunum fyrir beztu að gera þetta á þennan hátt. Þó að framlagið úr Jöfnunarsjóði til sveitarfélaganna skerðist eitthvað við þetta, þá á ekki að vera svo mikill munur á því og hinu, að sveitarfélögin greiði þetta beint, en þau eiga í mörgum tilvikum miklu óhægra um vik að endurheimta meðlagið hjá barnsfeðrunum sjálfum.

Ég held, að ég þurfi ekki, herra forseti, að segja meira um þetta. Ég tel, að þetta geti orðið til mikilla bóta fyrir alla parta nema kannske barnsfeðurna, sem verða að búa við harðari kjör heldur en þeir hafa áður gert. Ég vil því leyfa mér að vænta þess, að þetta frv. fái greiða götu hér í gegnum þessa hv. d.

Ég vildi leyfa mér að leggja til, herra forseti, að að umr. lokinni verði þessu frv. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.