25.02.1971
Efri deild: 54. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 836 í B-deild Alþingistíðinda. (802)

14. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Frsm. meiri hl. (Jón Árnason):

Herra forseti. Frv. til l. um breyt. á l. nr. 77 frá 28. apríl 1962, um aflatryggingasjóð sjávarútvegsins, hefur verið til athugunar í sjútvn. Áður en hlé varð fyrir jól var frv. sent til ýmissa aðila til umsagnar og við það miðað, að umsagnir lægju fyrir, þegar þing kæmi saman að nýju að loknu þinghléi. Frv. það, sem hér um ræðir, er samið af 7 manna n., sem skipuð var af hæstv. sjútvrh. 16. júní 1965. Alls mun n. þessi því hafa haft mál þetta til athugunar um 41/2 ár, þar sem hún skilaði áliti um málið í desembermánuði 1969. Það kemur fram í aths. við frv., að n. tók þá ákvörðun þegar í upphafi að hraða ekki afgreiðslu af sinni hálfu um málið, heldur leita álits sjómannasamtaka og útgerðarmanna jafnhliða því, sem fylgzt var með þróun og starfsháttum sjóðsins á þessu tímabili. Það verður að teljast mjög mikilsvert fyrir n., að hún hafði á umræddu tímabili aðstöðu til þess að fylgjast með þróun og starfsháttum sjóðsins á tveimur ólíkum aflatímabilum, þ. e. árunum 1965 og 1966, þegar um var að ræða einstök góðæri, svo aftur á móti árin 1967 og 1968, þegar heildaraflinn nam tæplega helmingi af afla ársins 1966. Það eru að sjálfsögðu fyrst og fremst slíkar sveiflur í aflamagninu, sem hafa verður í huga og á hvern hátt þeim verður mætt, þegar samin er löggjöf um aflatryggingasjóð sjávarútvegsins. Því er ekki að leyna, að innan raða útgerðarmanna, sem segja má, að í sjálfu sér skipti mestu um þessa löggjöf, hafa verið nokkuð skiptar skoðanir um einstök ákvæði. Má þar sérstaklega benda á ágreining um ákvörðun á aflamagni á hinum einstöku bótasvæðum. Það hefur verið gildandi regla, að lögð hefur verið til grundvallar meðalveiði á hverju veiðisvæði fyrir sig um tiltekið árabil. Ég ætla, að það hafi verið venjulegast þriggja ára tímabil, sem haft hefur verið til viðmiðunar hverju sinni.

Þegar það hefur átt sér stað, að aflamagnið á einhverju bótasvæði hefur legið langt niðri t. d. 3 ár í röð, hafa þessi ákvæði laganna komið í veg fyrir, að bætur væru greiddar, þrátt fyrir það, að fyrir lægi vitneskja um það, að stórkostlegt tap væri á útgerðinni og útgerðarmenn þá ekki færir um að gera upp mannakaup eða kauptryggingu. Með frv. þessu er gerð sú breyting, að auk þess að leggja aflamagnið til grundvallar má sjóðsstjórnin einnig hafa hliðsjón af útgerðarkostnaði og hver kauptryggingin er. Segja má, að þessi rýmkun, sem hér er lagt til að gerð verði á þessu sviði, sé veigamesta breytingin frá því, sem er í gildandi lögum. Þá er þess að geta, að með tilliti til þess, að útgerð að hausti til er oft stopul og áhættusöm, en skapar oft atvinnu við sjávarsíðuna, sem annars væri ekki fyrir hendi, er sett inn nýtt heimildarákvæði varðandi haustvertíð, að þá megi hækka meðalaflann úr 75% í 80%. En með þessari breytingu er verið að reyna að vega á móti og stuðla að því, að útgerð leggist ekki niður á haustvertíðum.

Þá vil ég vekja athygli á því ákvæði 9. gr. frv., sem felur í sér heimild til handa sjóðsstjórninni að greiða bætur til báta, sem hafa fyrirvaralaust þurft að hætta veiðum á tilteknum veiðisvæðum, vegna þess að ákvörðun hefur verið tekin af hálfu þess opinbera um að friða tiltekin veiðisvæði vegna hrygningar nytjafiska. Slík tilvik geta vissulega hent og hafa átt sér stað. Við í sjútvn. vorum að velta því fyrir okkur, hvort sú upphæð, sem hér um ræðir, væri ekki of lág, þ. e. að verja megi allt að 1 millj. kr. í hverju tilfelli. Við féllum þó frá því að þessu sinni að flytja brtt. þar um og teljum rétt, að reynslan skeri úr um það, hver upphæðin skuli vera.

Í heild má segja, að ekki sé um miklar efnisbreytingar að ræða frá því, sem er í gildandi lögum um aflatryggingasjóð sjávarútvegsins. Heildarrammi laganna heldur sér að mestu leyti, en að sumu leyti eru þó einstök atriði rýmri en áður og löggjöfin í heild sveigjanlegri í framkvæmd. Eins og fram kemur í nál. með frv., náðist ekki fullt samkomulag innan n. um málið. N. flytur þó sameiginlegar brtt. á sérstöku þskj., en þær eru eins og sjá má einungis um formsatriði frv., sem nauðsynlegt var að leiðrétta. Að öðru leyti leggur meiri hl. n. til, að frv. verði samþ. óbreytt. Á þskj. nr. 391 hefur minni hl. n. flutt brtt., sem felur í sér aukið framlag til sjóðsins úr ríkissjóði. Er þar lagt til, að ríkissjóður greiði helming á móti öðrum tekjum sjóðsins í stað 1/4, eins og í frv. er. Að sjálfsögðu má um það deila, hve há upphæð eða hlutdeild af tekjum sjóðsins skuli lögð fram úr ríkissjóði. En það, sem í frv. felst, er í samræmi við afgreiðslu fjárlagafrv. fyrir yfirstandandi ár.

Það má segja, að hliðstætt við það, sem kemur fram í þessari brtt. frá minni hl. um aukið fjárframlag úr ríkissjóði til aflatryggingasjóðs, hafi komið fram í flestum umsóknum, sem n. bárust, bæði frá Landssambandi ísl. útvegsmanna og Fiskifélaginu, að þeir töldu, að þessi hluti af framlagi úr ríkissjóði þyrfti að vera hærri heldur en frv. kveður á um. En eins og er má segja, að staða aflatryggingasjóðsins sé sæmileg. Um s. l. áramót nam sjóðseign 150–160 millj. kr., en það er að sjálfsögðu fyrst og fremst að þakka góðu árferði til sjávarins s. l. tvö ár. Það, sem ég tel, að skipti miklu máli og á það legg ég höfuðáherzlu er, að bætur úr sjóðnum verði framvegis sem hingað til samkv. fyllstu heimildum laga til þeirra aðila, sem fyrir verulegum aflabresti verða. Komi hins vegar í ljós, að sjóðurinn — með þeim tekjumöguleikum, sem í frv. þessu felast, — verði ekki fær um að standa við sínar skuldbindingar á þann hátt, mun ég verða fyrsti maður til þess að samþykkja aukið framlag til sjóðsins.

Herra forseti. Ég hef þá lokið við að gera grein fyrir afgreiðslu málsins af hálfu meiri hl. n. Ég leyfi mér að vænta þess, að brtt. n., sem hún flytur á sérstöku þskj., verði samþ. — tillögur þessar eru, svo sem ég hef áður vikið að, eingöngu formsatriði — og að frv., þannig breytt, verði samþ. og því síðan vísað til 3. umr.