13.11.1970
Neðri deild: 18. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í B-deild Alþingistíðinda. (81)

101. mál, atvinnuöryggi

Frsm. 1. minni hl. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Ég hafði reiknað með því, að við þessa 3. umr. mundu engar umr. verða eða sáralitlar, sökum þess hve þrautrætt þetta mál var, bæði við 1. umr. og 2. umr. Þetta ætlar nú samt að fara á aðra leið. Hér virðast ætla að verða mjög miklar umr., og það er hæstv. viðskmrh., sem hefur riðið þar á vaðið. Það hefur komið í ljós, þrátt fyrir það að hann bæri sig allborginmannlega hér við 1. umr., að samvizkan er eitthvað óróleg, og þess vegna hefur hann talið sig létta eitthvað á henni með þeirri ræðu, sem hann hélt hér áðan. Og mig undrar það ekki neitt, þó að samvizka hæstv. viðskmrh. sé frekar óróleg um þessar mundir.

Hæstv. ráðh. hefur t. d. byrjað á því fyrir nokkru, að því hann sjálfur hefur talið í sjónvarpinu, að láta fara fram eins konar könnun á því, hverjir séu sannir jafnaðarmenn á Íslandi. Þetta er að vísu nokkuð teygjanlegt, hverjir séu sannir jafnaðarmenn, en þegar talað er um sanna jafnaðarmenn, þá er ekki ólíklegt, að menn hafi í huga jafnaðarmenn á Norðurlöndum. (Gripið fram í.) Já, því að þar eru jafnaðarmannaflokkarnir einna sterkastir, og þess vegna ekki ófróðlegt að gera samanburð á því, sem jafnaðarmannaflokkarnir á Norðurlöndum eru að gera nú einmitt í sambandi við sams konar mál og hér liggur fyrir, og það, sem hæstv. ríkisstj. er að gera.

Jafnaðarmannastjórnin í Svíþjóð fyrirskipaði fyrir nokkru verðstöðvun um nokkurra mánaða skeið. Mér er ekki kunnugt um, að þeirri verðstöðvun hafi fylgt nokkur skerðing eða nein skerðing á kjarasamningum milli atvinnurekenda og verkamanna. Ég er þvert á móti sannfærður um, að sænska jafnaðarmannastjórnin hefði aldrei grípið til verðstöðvunar, ef henni hefðu þurft að fylgja einhver ákvæði um það að skerða kjarasamninga milli atvinnurekenda og verkamanna. Danska stjórnin, sem að vísu er ekki jafnaðarmannastjórn, hefur einnig grípið til verðstöðvunar um nokkurra mánaða skeið með fullu samþykki jafnaðarmannaflokksins þar, þó að þar sé um stjórn hægri flokka að ræða, án þess að framkvæma samhliða nokkra skerðingu á kjörum launafólks. Norski verkamannaflokkurinn hefur borið fram í þinginu till. um verðstöðvun, en án þess að henni fylgi nokkur skerðing á kjörum launafólks.

Ég held, að þessi dæmi frá Norðurlöndum sýni það nokkuð glöggt, hvaða munur er á sönnum jafnaðarmönnum og þeim jafnaðarmannaflokki, sem situr nú í ríkisstj. Íslands, og það er m. a. vegna þess, að hæstv. ráðh. er eins órólegur nú og raun ber vitni um. En mér fyndist ekki óeðlilegt í framhaldi af þessu, vegna þess að fulltrúar Samtaka frjálslyndra og vinstri manna og Alþb. taka nú þátt í þessari könnun með Alþfl., hvort þeir ættu ekki að óska eftir sérstökum fundi með Alþfl. og þm. hans til að ræða þetta mál nánar og sjá það svart á hvítu, hvort þeir í þeim viðræðum gætu ekki fengið það fram með því að reyna að hafa áhrif á hæstv. viðskmrh. og hans flokksbræður, að þeir tækju nú upp sömu stefnuna og jafnaðarmannaflokkarnir á Norðurlöndum í þessum efnum, þ. e. stæðu að verðstöðvun án þess, að því væri látin fylgja skerðing á kjörum verkamanna, eins og hér er stefnt að. Mér finnst, að fyrst þessir samningar standa á annað borð, eigi nú fulltrúar Alþb. og Samtaka frjálslyndra og vinstri manna að óska eftir sérstökum fundi með Alþfl. um það, hvort hann sé nú ekki fáanlegur til þess að fylgja á þessu sviði sömu stefnu og sannir jafnaðarmenn gera á Norðurlöndum og annars staðar. Mér finnst, að það sé eiginlega skylda þeirra, fyrst yfir stendur að láta fara fram könnun á þessu. (Menntmrh.: Er hv. þm. jafnaðarmaður?) Ég var ekkert að segja um það, enda hef ég ekki verið beðinn um það eða minn flokkur að taka þátt í þessum viðræðum. En það vildi ég segja í framhaldi af þessu, að fyrst hæstv. viðskmrh. gat nú ekki talað hér eins og flokksbræður hans á Norðurlöndum eða jafnaðarmenn gera á Norðurlöndum, og ekki eins og sannur jafnaðarmaður, þá hefði hann ekki þurft að haga málflutningi sínum að verulegu leyti eins og varaforseti Bandaríkjanna væri kominn hér í ræðustól. En stór hluti af ræðu hæstv. viðskmrh. var á nákvæmlega sömu leið og þessi varaforseti hefur flutt mál sitt í Bandaríkjunum við kosningarnar þar undanfarið, því að allt það, sem hæstv. ráðh. sagði um lög og rétt, var næstum í sama anda og er í ræðum þessa ágæta manns. Hæstv. ráðh. endurtók það hvað eftir annað, að sú ríkisstj., sem nú færi með völd, væri ekki með neinar yfirlýsingar um það, að hún ætlaði að taka tillit til stéttarsamtaka og hana skipti ekki neinu máli, hvað almenningur vildi. Það, sem skipti máli hjá henni, eru lög og réttur, og eftir því bæri að fara. Þetta stingur nú að vísu talsvert í stúf við það, sem hæstv. forsrh. hefur sagt og fyrirrennari hans í því sæti, því að þeir hafa talað um það, að þeir vildu hafa sem bezta samvinnu við stéttarsamtökin. Nú kemur hins vegar hæstv. viðskmrh. og segir, að sig varði ekki neitt um þetta, sig varði bara um lög og rétt, og eftir því skuli hann fara. En þetta sýnir glöggt, hve gersamlega hæstv. viðskmrh. er búinn að gleyma sögu verkalýðshreyfingarinnar og jafnaðarmannaflokkanna. Við vitum það, hvar þessi hæstv. ráðh. hefði staðið hér í hásetaverkfalli 19l6. Jónas frá Hriflu og Ólafur Friðriksson skipulögðu það verkfall algerlega í andstöðu við lög og rétt, sem þá var. Og þess var þá krafizt í svokölluðum borgarablöðum, að lög væru látin taka gildi og þetta verkfall væri kveðið niður. Við vitum af því, sem hæstv. viðskmrh. sagði hér áðan, hvar hann mundi hafa staðið í því verkfalli, og ef hann þekkir til sögu verkalýðshreyfingarinnar eða myndi eftir henni, þá væri honum það ljóst, að verkalýðshreyfingin varð um langt skeið að sækja rétt sinn í andstöðu við lög og rétt, þó að hún fengi hann að lokum lagalega viðurkenndan. Og það er alveg víst, að ef verkalýðshreyfingin er sönn verkalýðshreyfing, ef hún verður beitt órétti og ef samningar eru brotnir á henni, jafnvel þó að það megi segja, að það sé gert með löglegum hætti, þá hlýtur svo að fara, að hún sæki rétt sinn með hinum gömlu aðferðum, til þess að láta ekki ganga á hlut sinn umfram það, sem eðlilegt er. Þetta verðum við að gera okkur ljóst, því að ef hún er ekki jafnan á verði um að vernda rétt sinn á þennan hátt, þá má hún fljótlega búast við því, að með einum eða öðrum hætti verði á honum troðið. Ég er ekki að segja með þessu, að við eigum ekki að verja lög og rétt. En við verðum jafnframt að gera okkur grein fyrir því, að þær kringumstæður geta stundum skapazt í þjóðfélaginu, þegar lögum er ranglega beitt, að þá verði að grípa til svipaðra vinnubragða og verkamenn gerðu hér í hásetaverkfalli 1916 á sínum tíma og á næstu árum eftir það, en það var að tryggja rétt sinn, jafnvel þó að þeir gætu ekki beinlínis byggt það á þeim lagagrundvelli, sem fyrir hendi kann að vera. En mér finnst rétt að láta það koma fram hér, að hæstv. forsrh. ræddi um þessi mál hér í gær með allt öðrum og skaplegri hætti en hæstv. viðskmrh. Og mér þykir það sannarlega mjög leitt, af því að ég hef nú alltaf vissar taugar frá gamalli tíð til hæstv. viðskmrh., að hann skuli haga málflutningi sínum h' úr ræðustólnum eins og hann gerði áðan, og hann minnir þar orðið meir á þann ameríska stjórnmálamann, sem ég nefndi áðan, heldur en jafnaðarmannaleiðtoga, sem hann telur sig þó vera.

Ég ætla þá að víkja nokkrum orðum að þeim gr. í þessu frv., sem mest hefur verið deilt um, þ. e. 4. og 5. gr., eða þeim gr., sem fjalla um vísitöluskerðinguna. Hæstv. viðskmrh. viðurkenndi nú, að í þessum gr. fælust breytingar á gildandi kjarasamningum. Hann reyndi bara að afsaka með því, að lög væru svo oft sett, sem breyttu samningum á einn eða annan hátt. En sem sagt, það liggur hér fyrir frá hans hendi, enda getur hann ekki annað, að þessar gr. breyti verulega grundveili kjarasamninganna, sem gerðir voru á s. l. sumri. Hann vildi svo halda því fram, að raunverulega fælist ekki nein kjaraskerðing í þessum breytingum. Ég held, að fsp., sem hv. 1. þm. Vestf. lagði fyrir forsrh. í gær, leiði það alveg glögglega í ljós, hvaða kjaraskerðing felst í þessum tveimur gr. Hv. 1. þm. Vestf. spurði forsrh. að því, hvort kaupmáttur launa yrði ekki hinn sami 1. des. og hann var 1. sept. s. l. Forsrh. var það hygginn, að hann vékst undan að svara þessu og sagði, að það færi eftir þessu og þessu, sem hann vildi ekki gera nánari grein fyrir. Þetta liggur einfaldlega í því, að hinn 1. des. n. k., þegar kaupið verður greitt, verða felld niður 3 vísitölustig, sem launþegar verða alveg að taka á sig. Það er 1 vísitölustig, vegna þess að áfengi og iðgjöld trygginganna eru tekin út úr vísitölunni, 2 stigum er a. m. k. frestað til 1. sept. samkv. 5. gr. frv. Þannig eru látin vera óbætt 3 vísitölustig, sem launþegum mundu vera bætt, ef þessar gr. í frv. væru ekki samþ. Þetta held ég, að hæstv. viðskmrh. hljóti að viðurkenna, að nú 1. des. lækka launagreiðslur eða dýrtíðarbætur til launþega um sem svarar þessum 3 vísitölustigum vegna þessara tveggja gr. í frv., ef þær verða samþ., og kaupmátturinn minnkar, sem því svarar. Ég held, að það sé ekki hægt að mæla á móti þessu.

Hitt er svo algerlega út í hött, þegar hæstv. ráðh. koma upp með það, að launþegar kunni að vinna þetta upp síðar, vegna þess að það mundu verða verðhækkanir á tímabilinu, sem verði ekki ef verðstöðvunin nær tilgangi sínum. Nú veit enginn um það. En þess er líka að gæta, að þarna á móti kemur það, að samkv. gildandi reglum eða gildandi l. verður ríkið, ef það grípur til niðurborgana, að byrja þær a. m. k. einum mánuði áður en kaupgreiðsluvísitalan er reiknuð út, þannig að þetta getur haft verulega kjaraskerðingu í för með sér fyrir launþega. Ég nefni sem dæmi, að ef þær niðurgreiðslur, sem ríkisstj. fyrirhugar nú á smjöri og fleiri landbúnaðarvörum, hefðu ekki verið komnar til sögunnar fyrir 1. nóv. s. l., þá hefðu þær engin áhrif haft á kaupgreiðsluvísitöluna 1. des., þ. e. a. s. til þess að hafa áhrif á kaupgreiðsluvísitöluna 1. des. þurfti hún að vera komin til framkvæmda fyrir 1. nóv., en nú þurfa þær ekki að verða komnar til framkvæmda fyrir 30. nóv. samkv. þeim reglum, sem felast í þessum lagagr. Þetta þýðir það, að launþegar verða þarna af niðurgreiðslunum í einn mánuð eða þeim hagnaði, sem þær veita. Og það sparar ríkissjóði, að því er talið er, nokkra tugi millj. í þessum mánuði. Það er óumdeilanlegt, hvað sem hæstv. ráðh. segja, að þessum breytingum á kjarasamningunum, sem felast í frv., fylgir strax kjaraskerðing, sem nemur 3 vísitölustigum, og það er ekki hægt að halda fram með neinu móti, að þetta vinnist upp aftur, þó að það sé hægt að sýna á pappírunum einhverja útreikninga um það.

En frá sjónarmiði verkalýðshreyfingarinnar hlýtur málið að liggja þannig fyrir, að þó að hér sé um nokkra kjaraskerðingu að ræða, þá sé það ekki aðalatriðið. Aðalatriðið sé fordæmið, sem hér er verið að skapa, það fordæmi, að ríkisvaldið geti í andstöðu við verkalýðshreyfinguna breytt kjarasamningum, annað hvort lækkað grunnkaup eða skert dýrtíðarbætur. Það er að vísu rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að þetta var gert 1956, en sá var munurinn á, að það var þá gert með samþykki allra helztu forustumanna verkalýðssamtakanna. Þó að segja megi, að formlega skipti það ekki verulegu máli, þá skiptir það öllu máli siðferðilega, og það, sem skiptir mestu máli í sambandi við alla lagasetningu, er það, að hún hafi siðferðilegan grundvöll til að byggjast á, því að ef lögin hafa ekki siðferðilegan grundvöll til að byggjast á, þá eru þau oft og tíðum miklu frekar ólög heldur en lög. Og það er þennan grundvöll, sem þessa lagasetningu vantar nú, að það vantar samþykki þess aðilans, sem á að skerða kjörin hjá, til þess að gera þessa breytingu. Það vantar þann siðferðilega grundvöll, sem lögin eiga að byggjast á. Ég held, að verkalýðshreyfingin hljóti að telja þetta fordæmi svo varhugavert, að hún geri þær gagnráðstafanir, sem að gagni koma, með hvaða hætti sem verður, til þess að brjóta niður þessi ákvæði l. og hvað sem hinum formlega rétti viðkemur, þá er það víst, að hún hefur hinn siðferðilega rétt til þess að gera það. Hún hefur þar hinn sama siðferðilega rétt og hún byggði á, þegar hún fyrr á árum var að tryggja sér þá viðurkenningu, sem hún hefur nú.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að lengja meir umr. um þetta mál. Ég vil á ný endurtaka það, að mér finnst, að þm. Samtaka frjálslyndra og vinstri manna og Alþb. eigi að óska eftir sérstökum fundi með Alþfl. til þess að ganga eftir því, hvort hann sé ekki tilleiðanlegur til þess að falla frá ákvæðum þessa frv., sem ganga jafnberlega í berhögg við verkalýðshreyfinguna og þeir hafa haldið fram, og ég verð nú satt að segja, að ég sé ákaflega illa, hvernig þeir geta haldið áfram viðræðum við Alþfl. eins og þar sé um sanna jafnaðarmenn að ræða, eftir að Alþfl. stendur að lagasetningu eins og þessari, sem gengur í berhögg við verkalýðshreyfinguna. Og mér finnst, að hér þurfi að reyna að byrgja brunninn, áður en barnið er dottið ofan í, þ. e. að þeir taki upp þessar viðræður við Alþfl., áður en þetta mál er endanlega afgreitt úr þinginu, en bíði ekki eftir því, að það verði afgreitt héðan. Það er helgi framundan, og sú helgi fyndist mér, að væri vel notuð, ef þeir óskuðu eftir sameiginlegum fundi þessara þingflokka til þess að ræða um þetta mál. Ef það færi nú svo, að Alþfl. væri nú tilleiðanlegur til þess að gerast sannur jafnaðarmannaflokkur og breyta afstöðu sinni, þá finnst mér nú líklegt, að hæstv. viðskmrh. hafi þau áhrif, að hann gæti fengið málinu frestað í svona 2–3 daga, meðan þessir þrír vinstri flokkar væru að ræða nánar um þetta mál.

En um málið í heild vil ég svo að endingu segja það, að mér finnst það vera fullkomin staðfesting á því, að Sjálfstfl. hafi rétt fyrir sér, þegar hann óskaði eftir þingkosningum á síðasta hausti. Sjálfstfl. byggði það á því, að það væru fram undan miklir erfiðleikar í efnahagsmálum þjóðarinnar og það væri ólíklegt, að stjórnarliðið væri fáanlegt til þess að gera raunhæfar ráðstafanir fyrir kosningar, og þess vegna væri heppilegast að hafa kosningar strax í haust. Þær ráðstafanir, sem felast í þessu frv., styðja alveg þetta mat Sjálfstfl., því að það liggur í augum uppi og það viðurkenna allir, að hér er um hreinar bráðabirgðaráðstafanir að ræða, bráðabirgðaráðstafanir, sem alls ekki geta staðizt lengur en fram yfir næstu kosningar, og þá verður að gera það, sem Sjálfstfl. taldi, að hefði þurft að gera í haust, ef kosningar hefðu farið fram.