18.03.1971
Neðri deild: 64. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 848 í B-deild Alþingistíðinda. (814)

14. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki vera margorður um þetta mál. Eins og tekið var fram af hv. frsm. n., þá er þessi endurskoðun laganna búin að vera alllengi í deiglunni eða síðan á árinu 1965, að ákveðið var að skipa n. til þess að endurskoða lögin, og í frv. eru ekki neinar stórvægilegar breytingar á þeim meginreglum, sem gilda um aflatryggingasjóð og bætur úr honum. En mig langar til þess að þakka n. fyrir það, að hún hefur tekið inn í brtt. sínar ákvæði, sem, ef samþykkt verður, á að ráða nokkra bót á því óréttlæti, sem útgerðarmenn opinna vélbáta voru beittir, þar sem greitt var gjald af afla þeirra í sjóðinn, án þess að þeir nytu bóta úr áhafnadeild. Upphaflega náðu þessi ákvæði um bætur úr áhafnadeild aðeins til skráðra vélbáta, en svo var þessu í fyrra breytt þannig, að þessi ákvæði næðu til allra báta með þilfari. Þá leyfði ég mér að flytja brtt. þess efnis, að ákvæðin skyldu einnig ná til opinna vélbáta, en sú brtt. var þá felld hér í hv. d. Þess vegna vil ég nú þakka fyrir það, að nú skuli hafa verið tekið undir þessa till., þó að ég hefði að vísu kosið ákvæðin nokkuð á annan veg en þau eru.

Hv. frsm. gat um það, að nokkrar hömlur væru á því, að eigendur hinna minni báta gætu notið þessara bóta í sambandi við áhafnirnar og um ábyrgðartryggingar og sagði, að n. hefði rætt við hlutaðeigandi aðila um það, að lögin yrðu ekki mjög stranglega framkvæmd að þessu leyti. Ég vil nú skjóta því til n., hvort ekki væri réttara eða hvort nokkuð væri til fyrirstöðu að setja það beinlínis í lög, sem hv. frsm. gat um, að n. hefði rætt við Fiskifélagið um þetta mál.

Í grg. þessa frv., eins og það var lagt fyrir, eru m. a. umsagnir ýmissa aðila, sem hafa fengið þetta mál til umsagnar frá endurskoðunarnefndinni. Og ég vil spyrjast fyrir um það í því sambandi, hvort n. hafi nokkuð athugað sérstaklega þá umsögn, sem á sínum tíma kom frá fjórðungsþingi fiskideildar í Norðlendingafjórðungi um þetta mál. Ef ekki kemur svar við þessu nú, má vera að ég inni eftir þessu nánar við 3. umr.