22.03.1971
Neðri deild: 66. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 849 í B-deild Alþingistíðinda. (817)

14. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Við athugun sjútvn. á frv. um aflatryggingasjóð milli umr. hefur komið í ljós, að nauðsynlegt er að gera smábreytingu á einu atriði. Vil ég leyfa mér fyrir hönd sjútvn. að bera hér fram skriflega brtt. varðandi þetta og fara þess á leit, að leitað verði afbrigða fyrir henni, þannig að hún geti komið hér til umr. og afgreiðslu. Brtt. er svo hljóðandi:

„Við 12. gr. (2. mgr. 17. gr.). Í stað orðanna „áhafnir bátanna hafi fulla atvinnu af þessum störfum eigi skemmri tíma en 5 mánuði á ári“ komi: að bátar þessir hafi verið gerðir út eigi skemmri tíma en 5 mánuði á ári.“

Þetta atriði snertir áhafnadeild aflatryggingasjóðs og greiðslu hluta af fæðiskostnaði áhafna á minni bátum. Eins og vitnað er til í brtt., stendur í lagabreytingu, sem hv. Alþ. samþykkti í fyrra, að greiðslur vegna báta af þessari stærð skuli m. a. bundnar því skilyrði, að „áhafnir bátanna hafi fulla atvinnu af þessum störfum eigi skemmri tíma en 5 mánuði á ári.“ Þetta hefur orðið til þess í framkvæmd, að menn, sem ekki hafa verið óslitið á þessum bátum, hafa ekki fengið þessar greiðslur, en það var alls ekki það, sem fyrir mönnum vakti, þegar samþykkt var að taka upp greiðslur til áhafna á þessum bátum, heldur hitt, að bátarnir hefðu verið gerðir út eigi skemmri tíma en 5 mánuði á ári. Brtt. sú, sem ég ber hér fram fyrir hönd sjútvn., miðar að því að bæta úr þessu.