19.10.1970
Neðri deild: 3. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 858 í B-deild Alþingistíðinda. (847)

7. mál, olíuhreinsunarstöð

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Hv. 6. þm. Reykv. hefur vikið að ýmsum atriðum, sem ég er alveg sammála honum um, að þurfi að íhugast einmitt í sambandi við undirbúning og framkvæmd á byggingu olíuhreinsunarstöðvar. Þetta síðasta atriði, sem hv. þm. vék að, mengunina, höfum við, sem höfum verið að undirbúa þetta mál, einmitt haft í huga og reynt að gera okkur grein fyrir, og um leið og ég er alveg sammála hv. þm. um það, að hér þarf að búa vandlega um hlutina, þá kannast ég bara alls ekki við það, að olíuhreinsunarstöðvar feli í sér mikla mengunarbættu né heldur sóðaskap. Ég hef ekki séð öllu fallegri fyrirtæki og hreinlegri og betur frá gengin heldur en tvær olíuhreinsunarstöðvar, sem ég hef sérstaklega skoðað í Finnlandi og Danmörku. Mengun frá olíuhreinsunarstöð getur stafað frá sér slysahættu, það er alveg rétt. Það geta orðið sprengingar og annað slíkt og fyrir því er auðvitað gert ráð, þegar byggðar eru olíuhreinsunarstöðvar, að gera varúðarráðstafanir í því sambandi, en að sjálfsögðu verður það eitt veigamesta atriði á hverjum tíma, hvar slíkri stöð er valinn staður og að öryggisráðstafanir séu nægilega miklar til þess að forðast mengun af slysum eða á annan hátt. En almennt held ég, að hér sé ekki um fyrirtæki að ræða, sem mikil mengun fylgir, nema, eins og ég sagði, ef sérstök slys eiga sér stað.

Það er eitt, sem ég hefði kannske átt að nefna í upphafi í sambandi við olíuhreinsunarstöð og starfrækslu hennar hér á landi og oft hefur borið á góma hjá þeim, sem unnið hafa að þessum málum, og það er hugsanlegur nýr atvinnurekstur, þ. e. samstarf við annan efnaiðnað, sem slík stöð eins og olíuhreinsunarstöð getur lagt grundvöll að. Þetta er veigamikið atriði og kynni að skapa möguleika einmitt, sem ekki væri ella fyrir hendi. Að öðru leyti skal ég ekki fjölyrða um málið meira. Ég fellst alveg á, að nefnd athugi þær aths., sem hér hafa fram komið, þó að mér hafi fundizt ástæðulaust að mikla fyrir sér þá mengunarhættu, sem af slíku fyrirtæki leiðir. Ég hef séð í blöðum, t. d. í dálkum, sem lesendur skrifa dagblöðunum, að slíkum fyrirtækjum fylgi geysileg mengunarhætta o. s. frv., en þetta er á verulegum misskilningi byggt. Um leið og ég er þeirrar skoðunar, að við eigum að gera öruggar og traustar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir mengun frá iðnfyrirtækjum, þá megum við heldur ekki ganga of langt í þessu efni. En þetta segi ég ekki vegna þess, að ég vilji ekki leggja megináherzlu frá upphafi á allar venjulegar varúðarráðstafanir. En það mátti segja, að einmitt í ræðu þm. kæmu fram ýmis atriði, sem í raun og veru benda til þess og skýra það, af hverju stungið er upp á að stofna undirbúningsfélag til byggingar og starfrækslu slíks fyrirtækis. Það er vegna þess, að það hefur verið okkar skoðun, að það sé lítið hægt að komast lengra áleiðis fyrr en föst stofnun og „juridisk“ persóna væri hér á ferðinni í formi slíks undirbúningsfélags.

Athugasemdum hv. þm. um það, að það væri eðlilegt, að Alþ. gæti á hverjum tíma og alla vega alltaf endanlega fjallað nm, hvort ætti að byggja hér olíuhreinsunarstöð eða ekki, get ég í sjálfu sér verið samþykkur, þó að ákvæði séu, eins og hann vitnaði til, í 3. gr. frv., sem hníga ekki að þessu. Það er verkefni þeirrar n., sem fær málið til meðferðar, að fjalla um þetta. Eins get ég alveg fallizt á það, að vel mætti athuga það fyrirkomulag, að þingmannanefnd hefði á hverjum tíma aðstöðu til þess að fylgjast með máli eins og þessu, hvernig sem því yrði fyrir komið.