10.03.1971
Neðri deild: 59. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 861 í B-deild Alþingistíðinda. (852)

7. mál, olíuhreinsunarstöð

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég vil aðeins þakka n. fyrir afgreiðslu á málinu. Ég get vel fellt mig við brtt. n., sem hún stendur að sameiginlega, og tei, að góðum áfanga sé náð með því að afgreiða málið þannig.

Ég vildi aðeins láta þess getið núna, að við höfum fengið í iðnrn. upplýsingar um byggingu olíuhreinsunarstöðvar, stórrar stöðvar, 4.5 millj. tonna, í einu af beztu vínhéruðum Frakklands, þar sem hafa verið gerðar sérstakar ráðstafanir í sambandi við þá litlu mengun, sem hugsanleg er frá olíuhreinsunarstöð — utan þess, að slys beri að höndum — og þar hefur verið gengið frá hlutunum þannig, að þar er ekki um neina mengunarhættu að ræða. Ég vildi láta þessa getið, en við höfum fengið nú nýlega viðbótarupplýsingar frá sendiráði okkar í París og svo aftur nú nýverið, þegar ég sat fund í Luxembourg ásamt sendiherra okkar í París, og þessi mál eru í nánari athugun í rn., en þessar upplýsingar munu að sjálfsögðu eins og aðrar ganga til stjórnar þess félags, sem stofnað yrði til þess að athuga málið nánar, og ég felli mig vel við þá till., sem fram er komin í sambandi við rannsókn á mengunarhættu frá slíku fyrirtæki, áður en endanleg ákvörðun yrði tekin um það.