17.03.1971
Efri deild: 66. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 865 í B-deild Alþingistíðinda. (859)

7. mál, olíuhreinsunarstöð

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég vil fagna þessu frv. Með því er gerð tilraun til þess að koma meðferð þessa olíuhreinsunarmáls í fast skipulagsform. Eins og fram kemur í fskj., sem frv. fylgir, þá hefur það lengi verið í athugun og umr., allt frá 1961. Ég er vel kunnugur meðferð þessa máls, því að ég sat í þeirri embættismannanefnd, sem fjallaði um málið frá 1961 og allt þar til iðnrn. tók það í sínar eigin hendur.

Ég verð hins vegar að viðurkenna það, að ég var ekki alls kostar ánægður með meðferð málsins, hvorki áður eða eftir að rn. fjallaði um það. Ég er ekki þannig að áfellast neinn sérstakan. Gagnrýni mín byggist fyrst og fremst á því, sem fram kemur í fskj. 1, að sóknin í málinu er eiginlega næstum því öll frá erlendum aðilum. Það eru erlendir olíumenn, sem hingað hafa leitað og farið fram á að mega byggja hér olíuhreinsunarstöð, en eins og líklegt er og raunar skiljanlegt, þá hafa þessir menn ekki ávallt hagsmuni okkar Íslendinga í huga eins og skyldi.

Það kemur fram, þegar lesið er þetta fskj., að allar þær stöðvar, sem gert var ráð fyrir að hér yrðu byggðar, eru litlar stöðvar, yfirleitt um 1 millj. tonna ársframleiðsla eða minni. Það er aðeins ein stöð, sem gert er ráð fyrir að verði stærri, þ. e. 2 millj. tonna stöð, sem hollenzka fyrirtækið Vitol gerði tilboð um að byggja hér á landi, en viðræður við það fyrirtæki féllu niður og harma ég, að ekki tókst að fá þær í gang aftur og kanna tilboð fyrirtækisins betur.

Fyrst og fremst vil ég vara mjög við því, þegar nú á að taka málið fastari tökum, að láta erlenda aðila eftir sem áður hafa forgöngu í málinu. Ég tel, að hið nýja fyrirtæki, ef sett verður á fót, eigi að byrja með því að koma á eigin athugun á olíuhreinsunarstöð hér á landi og ráða til þess óháða sérfræðinga á þessu sviði. Við Íslendingar höfum ekki sérfræðingum á að skipa í olíumálum eða málum olíuhreinsunarstöðva, sem von er. Þetta eru margslungin mál og breytingar allar í heiminum og á markaði með olíu og olíuvörur eru mjög miklar eins og stöðugt berast um fréttir í blöðum og öðrum fjölmiðlum. Það er einnig full ástæða til að ætla, að þessar breytingar, sem nú eru að gerast, geti haft veruleg áhrif á stöðu þessa lands í sambandi við olíuhreinsistöð. T. d. getur sá mikli olíufundur, sem er orðinn í Alaska og á norðurhveli jarðar almennt, m. a. við Noregsstrendur, leitt til þess, að olíuflutningar verði mjög miklir fram hjá ströndum okkar lands. Það getur að sjálfsögðu haft veruleg áhrif til breytinga á hagkvæmni og stærð olíuhreinsunarstöðvar.

Ég nefndi það í upphafi, að fyrst og fremst hefur verið rætt um litla stöð, 1 millj. tonna eða minni. Ég hef af ýmsum ástæðum verið því mjög andsnúinn, að svo lítil stöð yrði reist hér. Það er alveg rétt, eins og komið hefur fram, að litlar stöðvar hafa verið reistar, en samkvæmt þeim upplýsingum, sem ég hef bezt getað aflað mér, þá eru fæstar slíkar stöðvar hagkvæmar í rekstri lengur. Tækni hefur fleygt fram á þessu sviði og yfirleitt er það svo með miklar tækniframfarir, að þær leiða gjarnan til stærri eininga, og það mun vera staðreyndin, að svo hefur orðið á sviði olíuhreinsunar. Mér var sagt ekki alls fyrir löngu, að t. d. suður á Ítalíu mætti nú fá keypta 1 millj. tonna stöðvar fyrir mjög lítið verð, vegna þess að þær eru ekki lengur samkeppnisfærar. Þær litlu stöðvar, sem hafa verið reistar, njóta yfirleitt einhverra fríðinda í tollum eða sköttum o. þ. h., og mun það iðulega vera ein aðalástæðan fyrir því, að þær eru enn þá starfræktar.

Lítil stöð hefur einnig fjölmarga aðra annmarka. Það hefur verið minnzt hér á mengun, og fagna ég þeirri brtt., sem fram er komin í því sambandi, og ég tek undir það, sem hæstv. forsrh. sagði, að það er orðin mjög mikil þróun í hreinsun úrgangsefna frá olíuhreinsunarstöðvum, en staðreyndin er sú, eins og hann nefndi sjálfur, þegar hann nefndi hina stóru stöð í Frakklandi, að hreinsunartæki eru þá fyrst góð og árangursrík, að stöðvarnar séu nógu stórar. Vitanlega má setja fullkomin hreinsunartæki á litla stöð, en það er æði kostnaðarsamt og ekki talið, að slík hreinsunartæki standi eins vel undir sér í sambandi við stærri olíuhreinsunarstöðvar. Því hafa þeir aðilar, sem ég hef rætt við um þessi mál, vakið athygli á einmitt þessum annmarka að koma við fullkominni hreinsun á lítilli stöð.

Annar er sá annmarki, sem fylgir lítilli stöð, að afgangsefni frá lítilli stöð eru mjög lítil og dýr, en afgangsefnin frá olíuhreinsunarstöðvum eru mörg mjög mikilvæg í iðnaði. Þetta kom mjög til umr. í sambandi við sjóefnavinnslu þá, sem hefur verið til athugunar á Reykjanesi. Þaðan gæti fengizt mikið klór og með etylum frá olíuhreinsunarstöð má framleiða plastefni og önnur efni olíuefnaiðnaðarins, en eins og hv. alþm. vita, þá er það einn mesti vaxtariðnaður undanfarinna ára.

Ég fyrir mitt leyti legg því ríka áherzlu á það, að jafnframt því, sem sjálfstæð athugun á byggingu olíuhreinsunarstöðvar er gerð, þá verði lögð mikil áherzla á að kanna, hvort hér megi ekki með einhverju móti koma upp stærri stöð. Ég á þar við stöð, sem er svona 3 millj. tonna eða meira. Ég geri mér grein fyrir því, að það þarf að flytja út verulegan hluta framleiðslu slíkrar stöðvar, en með þeim miklu flutningum, sem eru á milli landa og fara jafnvel vaxandi um N.-Atlantshafið og ég rakti áðan, tel ég miklar líkur til þess, að slíkri framleiðslu megi koma á heimsmarkað.

Ég tel satt að segja mjög vafasamt, að það sé þjóðhagslega hagkvæmt fyrir okkur Íslendinga að byggja litla stöð. Ég tel líklegt, að það þurfi að veita slíkri stöð slík kjör, að vafasamt geti orðið, að hún sé raunverulega þjóðhagslega hagkvæm með þeim breytingum á olíuflutninga- og olíuhreinsunarmálum, sem fram undan eru.

Ég sagði áðan, að þetta mál hefði verið lengi í bígerð. Í raun og veru sé ég einnig ástæðu til þess að fagna því, að svo hefur verið. Það er hætt við því, að rasað hefði verið um ráð fram, ef hinum fyrstu tilboðum hinna erlendu aðila hefði verið tekið. T. d. var iðulega á það minnzt að reisa olíuhreinsunarstöð hér inni í Vogum. Ég tel það mjög vafasamt. Það verður að gæta þess, jafnvel þótt fullkomin hreinsunartæki á úrgangsefni olíuhreinsunarstöðva séu sett upp, að þeim fylgja ávallt nokkrar hættur. Það er ávallt hætta á olíuleka, bæði frá stöðvunum sjálfum og sömuleiðis frá þeim skipum, sem flytja olíu til stöðvanna og framleiðsluna frá þeim. Það er vitanlega ljóst, að það væri enn þá verra og enn þá erfiðara að losna við slíka mengun hér inni í Vogum heldur en við opið haf, þó að á hvorugum staðnum sé það gott. Sömuleiðis er þetta sá staður hér við Reykjavík, þar sem staðviðri eru oft mest og úrgangsefni í reyk frá framleiðslustöðvum liggja jafnan yfir í lengri tíma og valda mestum skaða. Ég tel því, að það eigi að leita ítarlega að stað, þar sem mengunarhætta er sem minnst og jafnframt þar sem olíuhreinsunarstöð er í nálægð við þann annan iðnað, sem upp gæti komið. Tengsl á milli slíkra iðngreina eru afar mikilvæg, og ber að taka þau til greina þegar í upphafi. Mér sýnist, þótt ekki vilji ég slá þeim stað einum föstum, að staðsetning við Straumsvík væri einna álitlegust fyrir olíuhreinsunarstöð.

Ég vil svo ljúka þessum fáu aths. mínum með því að endurtaka það, sem ég sagði áðan, að ég fagna því, að verið er að koma þessu máli í fast skipulagsform. Ég fyrir mitt leyti vil fylgja þessu frv., ekki sízt með þeim brtt., sem hafa verið gerðar á því í Nd. og gera ráð fyrir athugun á mengun og meirihlutaeignarrétti okkar Íslendinga. Þetta hvort tveggja tel ég mjög mikilvægt á þessu stigi athugana á olíuhreinsunarstöð.