13.11.1970
Neðri deild: 18. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í B-deild Alþingistíðinda. (86)

101. mál, atvinnuöryggi

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Hæstv. viðskmrh. hefur tekizt mætavel að lífga hér við umr., og sennilega hefði nú 3. umr. orðið harla lítil, ef hann hefði ekki byrjað svo rösklega, sem hann gerði. Aðallega snerist ræða hans um samningsréttinn, og það er búið að segja svo mikið hér nú um það mál, að ég þarf ekki að fara að endurtaka það, sem ég einmitt sagði um það mál hér við 2. umr. málsins. En ég man nú ekki eftir að hafa séð hæstv. viðskmrh. mikið hér við þá umr., þótt hann væri nú alltaf að vitna í ræðu, sem hann hafði haldið við 2. umr. málsins. M. a. þá minntist hæstv. ráðh. á það, að það væri ekki álitið neitt samningsbrot eða stjórnarskrárbrot hliðstæðar aðgerðir, sem nú hefðu verið gerðar í Danmörku og Svíþjóð. Það er kannske alveg augljóst, vegna þess að það eru engar hliðstæðar ráðstafanir varðandi umsamin laun verkalýðsfélaganna í þeim ákvörðunum, sem teknar voru bæði í Danmörku og Svíþjóð nú um verðstöðvanir, engar ákvarðanir. Forsrh. Danmerkur kom að vísu inn á þau mál í sinni fyrstu ræðu í þinginu nú fyrir skömmu, þegar danska þingið var sett, að það þyrfti að athuga grundvöll vísitölunnar og það þyrfti að reyna að athuga að fá annað kerfi en vísitöluna, sem nú mælir kaup hjá verkafólki í Danmörku. En engum, held ég, að hafi dottið í hug að hnýta það saman við verðstöðvunarfrv. Sænskir alþýðuflokksmenn lýstu því hreinlega yfir, að ekki kæmi til mála að hrófla neitt við samningum verkalýðshreyfingarinnar í sambandi við málið. Hæstv. ráðh. er alltaf að leita að hliðstæðum. Þetta eru svona álíka hliðstæður, sem hann finnur þarna, eins og við gerninginn frá 1956.

Hann sagði ennfremur, að atvinnurekendur gætu alveg eins rekið upp ramakvein og talið, að samningar væru brotnir. Út af fyrir sig er að sjálfsögðu afar mikið atriði, hvort inntak samninganna, þ. e. a. s. það, sem það á að færa hvorum fyrir sig til tekna, er skert eða ekki. Það er alveg rétt hjá hæstv. viðskmrh. Það er að sjálfsögðu mikið atriði. En hvernig lítur þetta út frá sjónarmiði atvinnurekendanna? Ef ekkert væri að gert, og þessi 6.2 vísitölustig, sem grg. segir, að eigi að koma 1. des. á kaupið, kæmu fram og atvinnurekendur ættu að greiða kaup samkv. því, þótt vísitalan væri stöðvuð bara í því marki og alger verðstöðvun kæmi, þá mundu atvinnurekendur þurfa að greiða um 1000 millj. kr. í kaup, en þeir þurfa ekki að greiða nema 245 millj. kr. í launaskatt samkv. grg. frv. á gildistíma laganna. Það er augljóst, hverjum er verið að hygla þarna og af hverjum er verið að taka.

Hæstv. viðskmrh. sagði, að það væri grundvallaratriði málsins og endurtók nú það, sem hann hafði áður sagt, að kaupmátturinn skyldi haldast óbreyttur frá samningunum í vor, eða sá kaupmáttur, sem samningarnir hefðu gert ráð fyrir. Hann er nú hættur að reikna með maí-grundvellinum, og út af fyrir sig munar það ekki miklu, ef menn vita, hvað þeir eru að tala um. En hann kemst að þeirri niðurstöðu, að þetta frv., gengið út frá kauphækkuninni í júní, ei í að tryggja launamönnum 14% kauphækkun. Ég efast ekki um, að reikningsfærni hæstv. ráðh. er alveg á sínum stað, en hann gefur sér þá bara einkennilegar forsendur í þessu efni. Við skulum aðeins rifja upp, hvað það er, sem felst í frv. og ekki er í raun og veru neitt deilt um. Það er 1%, sem tryggingagjöldin hækka um og tóbak og áfengi, sem ekki á að skila sér aftur í kaupgreiðsluvísitölunni. Um þetta er ekki deilt. Það eru 2%, sem eiga að geymast, við skulum segja það. Þarna eru komin 3%. Síðan er búvörufrádrátturinn, sem er 1.4 samkv. því, sem gert er ráð fyrir í þessari grg. frv. Þarna eru komin sem sagt 4.4 stig, sem dragast frá kaupmættinum, eins og við sömdum um kaupið í júní í sumar. Hjá þeim, sem kauphækkunin var 18%, þá er kaupmátturinn kominn niður í 13.6. Af þessu reyndar sömdum við um og vissum það, að 1.4 eða um það mundu fara að vissu leyti. Hitt er hins vegar umfram farið. Ef kaupið er 17%, sem er sennilega meðaltalið hjá félagsmönnum almennu verkalýðsfélaganna, þá verður kaupmátturinn 12.6 á þennan hátt, og hjá þeim, sem hann var 15%, sem er mjög stór hluti og það vil ég biðja menn um að athuga, mjög stór hluti af almennu verkafólki, verzlunarfólki og ýmsu láglaunafólki, þá fer kaupmátturinn samkv. þessu niður í 10.6. Nú skulum við hins vegar líta ofurlítið nánar á þetta. Það er talið, að fjölskyldubæturnar lækki vísitöluna um 1.55%-stig. Hjá öllum þeim, sem ekki njóta fjölskyldubótanna, þá er kaupmátturinn þessum %-stigum lægri, og það er ekki lítill hluti af launþegunum í landinu, sem ekki nýtur fjölskyldubóta. Þá er kaupmátturinn hjá 18% manninum kominn niður í 12, úr 17 niður í 11, og hjá 15% manninum niður í 9%. Ég ætla ekki að þessu sinni að fara út í tafatöpin, en ég er alveg sannfærður um, að þar er um rangan hugsanagang að ræða. Ég er alveg sannfærður um það, það stenzt ekki. Hæstv. ráðh. lagði á það mjög mikla áherzlu, að hér væri ekki um neina skerðingu að ræða. Við lítum öðruvísi á málin, og við teljum a. m. k., að það eitt að breyta grundvelli kaupgreiðsluvísitölunnar sé mjög alvarlegt atriði, og þar skipti ekki höfuðmáli aurarnir, hvorum megin þeir liggja, heldur sjálfir samningarnir. Það er a. m. k. ekki í mínu minni, að þetta hafi áður verið gert, þótt margt hafi nú verið gert varðandi samninga og samningsfrelsið.

Ráðh. varar mjög við því, að samtök utan Alþ. geri ályktanir og reyni að hafa áhrif á lagasetningu. Ég ætla ekkert að endurtaka af því, sem ég hef áður sagt um þetta við fyrri umr. þessa máls. En gæti nú ekki hæstv, viðskmrh. hugsað sér það, að einmitt svona gerningur, sem hér er nú í uppsiglingu, gæfi mjög loft undir báða vængi þeim öflum, sem gjarnan vilja stunda þessa iðju, sem hæstv. ráðh. er nú þarna að tala um? Það er ekki víst, að verkalýðshreyfingin geti í raun og veru staðið á sama hátt að málum, eins og hún gjarnan vildi gera, eftir sem áður.