13.11.1970
Neðri deild: 18. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í B-deild Alþingistíðinda. (88)

101. mál, atvinnuöryggi

Björn Pálsson:

Herra forseti. Það eru örfá orð viðvíkjandi þessari brtt., sem ég hef leyft mér að flytja. Ég legg til, að 1. málsl. Í. málsgr. 2. gr. orðist þannig:

„Á tímabilinu 1. des. 1970 til 31. ágúst 1971 skal leggja á sérstakan launaskatt, er nemi 1½% af greiddum launum, þó aðeins af kauptryggingu sjómanna, en eigi hlut.“

Verði brtt., sem liggur frammi, um það, að „af greiddum launum“ falli niður, samþykkt, — það var ekki búið að samþykkja hana, þegar ég samdi þessa till., — þá kemur það á eftir þessu 1½%, þessi viðbót, „þó aðeins af kauptryggingu sjómanna, en eigi af hlut.“ Þetta er gert eftir tilmælum formanns L. Í. Ú., og landssambandið fer fram á þetta. Það má að sjálfsögðu deila um það, hvort hlutur er beint kaup, þegar sjómenn eru ráðnir upp á hlut, eins og nú er, þá eru þeir ráðnir einnig upp á fastakaup, sem er sennilega miðað við 8 dagstunda vinnu, að ég held, yfir mánuðinn, það er lágmarkskaup, en þeir taka þátt í útgerðinni með útgerðarmanninum. Aflist vel, þá fá þeir dálitla viðbót. Aflist illa, þá fá þeir ekki neitt, aðeins þessa tryggingu, sem þeir hafa. Ég hef heyrt því í samtali við menn aðeins slegið fram, að það sé erfitt að reikna þetta út, en það er þveröfugt. Það er miklu hægara að reikna þetta út, miðað við trygginguna heldur en hlutinn, því að það liggur alveg fyrir; hversu marga daga hver sjómaður er skráður. Í fyrsta lagi liggur það hjá fógeta eða þeim, sem skrásetur sjómennina. Í öðru lagi liggur það allt saman fyrir niðri í Fiskifélagi, og í gegnum þá fæðispeninga, sem eru greiddir á ákveðinn dagafjölda, svo meira að segja væri hægt að reikna þetta út niðri í Fiskifélagi, nákvæmlega hvað hver útgerðarmaður ætti að borga.

Að þetta sé sanngjarnt, held ég, að geti ekki verið mikill ágreiningur um. Ég hygg, að bátarnir hafi átt erfiðar uppdráttar s. l. ár en frystihúsin. Sannleikurinn er sá, að eftir gengislækkunina 1968 var hlutur frystihúsanna gerður miklu betri. Það var tiltölulega lítil hækkun á fiskverðinu, þannig að þeir, sem gerðu aðeins út báta, en höfðu ekki fiskvinnslu, hafa ekki staðið neitt sérstaklega vel að vígi og ýmsir tapað. Vafalaust getur þetta breytzt, en hvað sem því liður, þá er þetta ekki nema sanngirniskrafa. Ég hygg, að það gæti verið álitamál, ef þetta færi fyrir dóm, hvort eigi að telja hlut sem laun. Þetta er þóknun, sem þeir fá, ef vel aflast. Þeir neita sér um marga hluti sjómennirnir með því að vera úti á hafi og fara frá heimilum sínum að kvöldinu og vera ekki nema fáa daga heima á árinu. Ég veit, að útgerðarmenn eiga vini að, þar sem sjálfstæðismenn eru, og ég veit, að sú vinátta er varanleg og styrk og kemur oftar og viðar fram en þegar á að kjósa. Þess vegna treysti ég því nú, að þessari brtt. verði vel tekið, og ég efast ekki um, að hún verði samþ. Við, sem erum nú í stjórnarandstöðunni, skiljum þetta og styðjum flestir vonandi þessa till.

Vil ég svo ekki tefja tímann á því að halda langa ræðu um þetta, af því að ég veit, að stjórnarliðar ætla að fara að skemmta sér, og ég vil gjarnan stuðla að því, að þeir geti það.