29.10.1970
Neðri deild: 7. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 873 í B-deild Alþingistíðinda. (889)

73. mál, útvarpslög

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Þegar þetta frv. var til umr. hér á hv. Alþ. á s. l. vetri, gerði ég aths. við það í sambandi við innheimtuna og þær reglur, sem gilda um fjármál Ríkisútvarpsins. Þar sem frv. er nú flutt óbreytt eins og hæstv. menntmrh. tók fram, þá vil ég við þetta tækifæri vekja athygli á þessum aths., svo að hv. menntmn., sem fær frv. til meðferðar, megi muna eftir þeim. Að öðrum kosti gæti verið litið svo á, að þær hefðu niður fallið. Í þessu sambandi vil ég vekja athygli á 15. gr. frv., en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta, þegar talað er um innheimtu á hljóðvarps- og sjónvarpsgjaldi:

„Í reglugerð má ákveða, að afnotagjald skuli greitt af hverju sjónvarpstæki, þótt fleiri séu en eitt á heimili eða í stofnun, og að gjald skuli greiða af útbúnaði til hljóðvarpsmóttöku í sjónvarps- eða talstöðvartækjum. Einnig má ákveða, að gjald skuli greiða af viðtækjum, sem notuð eru í bifreiðum eða skipum. Ef stofnun greinist í deildir, má ákveða, að greiða skuli fyrir útvarpsafnot í hverri deild um sig“.

Hér er um nokkuð víðtækan vanda að ræða, en mun vera breyting á því, sem er um framkvæmd á þessum hlutum nú. Ég vil því segja það, sem ég sagði í fyrra, að það orkar meira en tvímælis, og álít, að það sé algerlega rangt, að sami notandi sé að greiða útvarpsgjald af mörgum útvörpum, þó að hann þurfi að færa sig til, t. d. út í bifreið sína. Þetta er mjög ósanngjarnt og alls ekki viðeigandi að fara að festa þetta í lög nú.

Enn fremur vil ég vekja athygli á því, að innheimtumaður útvarpsins skuli eiga að fá fógetavald í innheimtuaðgerðum sínum. Ég skal játa það, að ég er ekki svo vel að mér, að mér sé kunnugt um það, hvort fordæmi er fyrir slíku á landi hér. Ég tel, að það orki tvímælis, því að í slíkum tilfellum sé það eðlilegt, að fógeti á staðnum fari með fógetavaldið í þessum málum sem öðrum, en ekki að innheimtumaðurinn fái hér fógetavald til framkvæmda, það sé mjög óeðlilegt og gæti dregið dilk á eftir sér, því að fleiri aðilar mundu inn á þessa braut vilja hverfa. Á þessum atriðum vil ég vekja sérstaka athygli eins og ég gerði hér í fyrra, til þess að menn geti athugað málið betur og gert sér grein fyrir, fullkomlega grein fyrir, hvað hér er á ferðinni, því að það er greinilegt á þessu frv., að það er fyrst og fremst samið með sjónarmið útvarpsins fyrir augum, enda er það ekki óeðlilegt, þar sem formaður útvarpsráðs og útvarpsstjóri skipa meiri hl. í endurskoðunarnefndinni.