29.10.1970
Neðri deild: 7. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 875 í B-deild Alþingistíðinda. (891)

73. mál, útvarpslög

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal ekki fara að þreyta hér neinar kappræður, en út af því, sem hv. 5. þm. Vesturl. sagði, vil ég segja það, að hér er ekki um það að ræða að létta gjöldum af hinum efnuðu og hlífa þeim, sem eru efnaminni í þessu tilfelli. Bifreiðir eru orðnar almenningseign hér á landi og menn reyna að klífa þar þrítugan hamarinn til þess að eignast bifreiðir og hafa útvarpstækin ekki síður. Fer það fyrst og fremst eftir því, hvort menn ferðast mikið einir, sem þeir hafa tækin í bílum sínum, og svo geta þeir auðveldlega komizt framhjá þessu með því að taka lítið tæki með sér út í bílinn og þannig þyrfti ekki að greiða sérstakt gjald. Spurningin er sú: Er það sanngjarnt eða ekki að láta manninn greiða gjald fyrir það, að hann verður að fara af heimili sínu vegna starfs síns eða af öðrum ástæðum í ferðalög og til þess að geta notið útvarpsins, þótt hann sé í bifreiðinni? Og alveg sama er um skipshöfnina og aðra slíka menn. Er þetta sanngjarnt eða ekki og er þetta rétt skattheimta að haga henni þannig? Það má vel vera, að heildarhækkun yrði að vera einhver á útvarpsgjöldunum, en það hefur verið svo, að útvarpsgjöld hafa verið hækkuð, þegar hefur verið talin ástæða til þess vegna starfsemi stofnunarinnar og vegna þess að það hefur orðið að færa þar út starfrækslu, af því að það hefur verið álitið skynsamlegt og réttmætt að lengja dagskrá og annað því um líkt. Þá hafa menn ekki verið að velta fyrir sér, hvort einhverjir í hópnum hefðu efni á því að greiða afnotagjöld af útvarpinu eða ekki, heldur hefur verið talið, að stofnunin þyrfti að auka við sína starfsemi, það kostaði fjármuni og þeim yrði að ná með útvarpsgjöldunum. Eins er það með þetta.

Að því er varðar löggildingu á innheimtumanni, þá má það vel vera, að hann hafi orðið eins og fulltrúi við dómaraembætti, en það er annars eðlis heldur en að löggilda hann með sérstökum lagagjörningi eins og hér er ætlazt til, og ég er sannfærður um það, að fleiri mundu vilja koma í það kjölfar, ef þessi stefna væri upp tekin, sem ég tel mjög varhugavert. En aðalatriðið var nú í mínum orðum, að hv. n. athugaði þau atriði, sem ég hef hér drepið á.