24.02.1971
Neðri deild: 52. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 881 í B-deild Alþingistíðinda. (899)

73. mál, útvarpslög

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. í. þm. Austf. skrifað undir nál. með fyrirvara. Ástæðan er sú, að við erum andvígir einni af þeim brtt., sem n. flytur á þskj. 356, þ. e. a. s. 3. brtt., um útvarpsráð. Þá erum við einnig andvígir 2., 3. og 4. mgr. 19. gr., svo og 20. gr. Þessar gr. fjalla um fógetavald, innheimtustjóra útvarpsins og fulltrúa hans. Við flytjum því brtt. á þskj. 358 þess efnis, að þrjár síðustu mgr. 19. gr. falli niður, svo og 20. gr. 3. brtt. n., við 5. gr. frv., er um útvarpsráð og er á þá leið, að fjölgað verði í útvarpsráði úr 7 í 15. Á þá útvarpsráð að skiptast í tvær dagskrárnefndir og verður það alls skipað 15 mönnum. Önnur dagskrárnefndin á að fjalla um sjónvarpið, en hin dagskrárnefndin um hljóðvarpið. Þessar dagskrárnefndir eiga svo að hanga saman þannig, að formaður útvarpsráðs á að vera formaður þeirra beggja og verða þá 8 menn í hvorri dagskrárnefnd. Við fáum ekki séð, að þessi mikla fjölgun í útvarpsráði sé aðkallandi. Helztu rökin, sem ég man eftir og komu fram hér hjá hv. frsm., eru þau, hve verkefni útvarpsráðs hefur vaxið í seinni tíð og auðvitað er það rétt. Það hefur vaxið mikið. Þegar á það er að líta, sem okkur var skýrt frá í menntmn., að fundardagur útvarpsráðs er aðeins einn í viku, þá sýnist mega bæta nokkuð úr þessu með því t. d. að hafa tvo fasta fundardaga í viku. Auðvitað þurfa mennirnir að leggja meira á sig, en það er öllu heppilegra fyrirkomulag en að fjölga um meira en helming í útvarpsráði. Þá nefndi hv. frsm. nefndarinnar núna, að það hefði stundum verið kvartað undan því, að í útvarpsráð veldust fulltrúar stjórnmálaflokkanna og mundi síður bera á því, að þess gætti, þegar útvarpsráðsmenn væru orðnir 15. Ég held, að það sé ekki fyrir það að synja, að flokkarnir gætu fyllt þessi rúm, þó að þau væru 15 og það sé ómögulegt að segja neitt um það, hvort það yrði síður.

Þá má benda á það, að þessi tvískipting starfa í útvarpsráði held ég að verði síður en svo til að samræma sem bezt störf sjónvarps og útvarps. Þvert á móti tel ég líklegt, að hvor dagskrárnefndin fyrir sig fari sínar leiðir og formaðurinn einn ráði litlu um það nauðsynlega samstarf, sem þarf að vera milli sjónvarps og hljóðvarps. Í raun og veru er hér verið að kjósa tvö útvarpsráð og mér sýnist helzt, að þetta sé byrjunin á því að skipta Ríkisútvarpinu í tvær stofnanir, þetta sé fyrsta sporið. Og sé ég ekki, að það séu miklar framfarir í sambandi við þessa breytingu á útvarpsráði. Það má bæta því við, að það hljóðar ekki beint vel á þessum verðstöðvunartímum að fjölga þarna um meira en helming. Þá vil ég geta þess, að útvarpsstjóri er mjög andvígur þessari breytingu. Hann hefur sent menntmn. bréf um þetta efni, eftir að n. hafði lokið störfum sínum, og það bréf hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

Menntmn. Nd. Alþ. hefur gert þá brtt., að fjölgað verði útvarpsráðsmönnum úr 7 í 15. Eftir langa reynslu og samstarf við útvarpsráð fæ ég ekki skilið, hvert gagn er að slíkri fjölgun í ráðinu. Mikilvægasta hlutverk útvarpsráðs er án efa að úrskurða vafaatriði og deilumál innan starfssviðs þess og setja eða breyta reglum til gæzlu óhlutdrægni í dagskrá Ríkisútvarpsins, sem útvarpsráði lögum samkv. ber skylda til. Slíkar ákvarðanir þarf oft að taka af skyndingu og þarf ekki að fjölyrða um, hve miklu auðveldara er að fá slíkar ákvarðanir teknar fyrirvaralítið af færri en fleiri mönnum. Þá hlýt ég einnig að fenginni reynslu að andmæla þeirri stefnu tillögunnar að kljúfa útvarp og sjónvarp, svo að í reynd verði sitt útvarpsráð fyrir hvora deild. Þess skal loks getið, sem kann að þykja lítils um vert, að 15 manna útvarpsráð bindur stofnuninni ýmsar byrðar að því er snertir aukna þjónustu, og hvorki útvarp né sjónvarp hefur eins og stendur fundarstað fyrir slíkt fjölmenni til sameiginlegs fundarhalds.

Andrés Björnsson.“

Við hv. 1. þm. Austf. leggjum því til, að 3. brtt. á þskj. 356, við 5. gr. frv., verði felld.

Þá kem ég að 19. og 20. gr. frv. Samkv. ákvæðum þessara tveggja greina á innheimtustjóri Ríkisútvarpsins og fulltrúi hans að hafa fógetavald til innheimtu afnotagjalda af sjónvarps- og útvarpstækjum, en útvarpið fær lögveðrétt í sjónvarpstækjum samkv. 18. gr. Hins vegar fær það ekki lögveðrétt í hljóðvarpsviðtækjum. Þetta er sannarlega nýmæli, að starfsmenn einnar ríkisstofnunar í landinu fái fógetavald, sem nær yfir allt landið. Sú spurning hlýtur því að vakna, hvað fógetarnir muni verða orðnir margir í stofnunum ríkisins, þegar frá líður, ef brautin verður þannig rudd, því að það er vitað mál hér um bil, að ýmsar ríkisstofnanir munu fara fram á það sama, sams konar valdsmann hjá sér, því að fleiri þurfa að innheimta peninga heldur en Ríkisútvarpið.

Það fógetavald, sem innheimtustjóri útvarpsins hefur nú, sem er í umboði héraðsfógetans, — hann er aðeins fulltrúi hans með því valdi — það er mjög takmarkað, það er hér í Reykjavík og næstu bæjarfélögum að ég ætla, enda væri ákvæði 19. og 20. gr. um fógetavald innheimtustjórans ekki tekið inn í þetta frv., ef núverandi vald hans þætti fullnægjandi. Við flm. brtt. á þskj. 358 teljum því óþarft að lögfesta slík lagaákvæði og auk þess mundi það ýta undir aðrar opinberar stofnanir að krefjast sams konar valdsmanna hjá sér.

Eftir að menntmn. hafði afgreitt frv. frá sér, barst n. umsögn frá Dómarafélagi Íslands um frv., sem óskað hafði verið eftir, en hafði tafizt að koma til n. Í þeirri umsögn kemur fram allmikil gagnrýni, einkum á 19. og 20. gr. þessa frv. Í þessari gagnrýni felst það fyrst og fremst, að ákvæði þessara gr. frv. samrýmist ekki réttarfarsreglum og venjum. Nú er það erfitt fyrir leikmenn að dæma um það, hvað réttast er í þeim efnum, en alþm. komast þó ekki hjá því að taka afstöðu til þessara efnisatriða frv. En til þess að hv. þm. geti gert sér nokkra grein fyrir þessum atriðum, sem þarna eru mjög gagnrýnd, þá sýnist mér rétt að lesa upp umsögn Dómarafélagsins, með leyfi hæstv. forseta:

Hv., menntmn. Nd. Alþ. hefur sent oss til umsagnar frv. til nýrra útvarpslaga.

Af þeim atriðum, sem frv. þetta fjallar um, munum vér aðeins taka afstöðu til ákvæða 18.–21. gr.

Í 18. gr. frv. er lagður lögveðréttur á sjónvarpsviðtæki til tryggingar afnotagjöldum af því. Einnig er lagður lögveðréttur á sjónvarpsviðtæki til tryggingar afnotagjaldi af hljóðvarpsviðtæki, sem er í eigu sama aðila. Ekki er þar fram tekið, að afnotagjöld af útvarpsviðtækjum skuli njóta lögtaksréttar, en leiða má það af ákvæðum 19.–21. gr. Rétt væri, að ákveðið væri fram tekið, að gjöld þessi nytu lögtaksréttar.

Samkv. 1. og 2. mgr. 19. gr. skal ráðh. skipa innheimtustjóra Ríkisútvarpsins, sem skal fullnægja almennum dómaraskilyrðum og hafa heimild til að gera lögtök til tryggingar afnotagjöldum og framkvæma fleiri dómsathafnir hvar sem er á landinu. Þá er í 3. mgr. heimild til handa ráðh. að skipa löglærðan fulltrúa við innheimtuskrifstofu Ríkisútvarpsins, og skal hann hafa sama rétt til að framkvæma dómsathafnir og innheimtustjórinn. Ætla verður af ákvæðum 3. mgr. 7. gr. frv., að menntmrh. skuli skipa eða ráða menn þessa. Samkv. lögum nr. 73/1969, sbr. auglýsingu nr. 96/1969, heyrir dómaskipan, dómstólar og réttarfar undir dómsmrh. að undanskildum félagsdómi og dómsmálum varðandi varnarsvæðin. Mjög óheppilegt verður að teljast að taka einn þátt hinna almennu dómsmála undan stjórn dómsmrh. og fela hann menntmrh. Um fulltrúa þann, er skipa má samkv. 3. mgr. 19. gr. frv., eru engar kröfur gerðar, nema að hann sé löglærður. Hann þarf því ekki að fullnægja ákvæðum 1. og 2. tölul. 32. gr. l. nr. 85/1936. Ekki verður séð af frv., að maður þessi starfi á ábyrgð innheimtustjóra, og verður því að telja, að hann starfi, ef til kæmi, á eigin ábyrgð og þá einnig á ábyrgð menntmrh. Þessi ákvæði verða að teljast mjög óheppileg.

Í 1., 2. og 3. mgr. 20. gr. frv. er fjallað um framkvæmd lögtaka þeirra, er innheimtustjóri eða löglærður fulltrúi samkv. 3. mgr. 19. gr. frv. framkvæma. Lögtak fyrir þeim gjöldum, sem lögveð hafa í sjónvarpsviðtækjum, gerir innheimtustjóri þannig, að hann ritar ákvörðun sína um lögtak í fógetabók. Ekki virðist skipta máli, í hvaða lögsagnarumdæmi lögtaksþolandi býr né hvar hinn lögtekni munur er. Gerðarþolanda er ekki gefinn kostur á að mæta við lögtakið og gæta réttar síns og ekki verður séð, að annar en innheimtustjórinn, sem þarna fer með dómsvald, sé gerðarbeiðandi. Þessi aðferð er í algeru ósamræmi við hugmyndir manna hér á landi um réttlátt og heiðarlegt réttarfar. Svo virðist sem þessi ákvörðun fógeta (innheimtustjóra) sé ekki áfrýjanleg. Samkv. 5. mgr. 20. gr. frv. getur hann, ef þess er krafizt, endurupptekið ákvörðun sína og þá kveðið upp formlegan úrskurð í málinu. Ætla verður, að sá úrskurður sé áfrýjanlegur. Ekki kemur fram, hvar þetta mál skal rekið, en líklega er ætlað, að það sé í Reykjavík. Komi ekki fram krafa um endurupptöku og innheimtustjóri (fógeti) hafi krafizt uppboðs á hinum lögtekna mun, má koma að mótmælum gegn lögtakinu fyrir uppboðsdómi og skal þá uppboðsdómari úrskurða um lögmæti þess. Svo virðist sem innheimtustjóri (fógeti) komi þar fram sem uppboðsbeiðandi.

Í 3. mgr. 20. gr. frv. segir, að lögtak til tryggingar öðrum gjöldum til Ríkisútvarpsins geri innheimtustjóri eða viðkomandi fógeti og skuli þá farið eftir reglum lögtakslaganna um framkvæmd þess. Ekki er ljóst, hvaða gjöld önnur en þau, sem um ræðir í 2. mgr. 20. gr., njóta lögtaksréttar. Vafasamt er, að innheimtustjóri gæti framkvæmt lögtök samkv. reglum lögtakslaganna.

Í 21. gr. eru ákvæði um, að innheimtustjóri geti framkvæmt eða látið framkvæma innsiglun á útvarpsviðtækjum, tekið þau eða látið taka þau úr vörzlum eigenda og kveðið upp úrskurði í því sambandi. Ætla verður, að hér sé um réttargerðir að ræða og innheimtustjóri eigi að koma fram sem dómari, enda á hann að kveða upp dómsúrskurði, sem án efa má áfrýja. Með vísun til þess, sem áður hefur verið greint, er slíkt naumast fært.

Að endingu viljum vér taka fram, að vilji hið háa Alþingi gerbreyta gildandi réttarfarsreglum, er nauðsynlegt, að það sé gert með skýrum ákvæðum, en þeirri kröfu fullnægja ekki þau ákvæði frv., sem gerð hafa verið að umtalsefni. Þá viljum vér vara mjög við þeirri stefnu, sem fram kemur í frv., að fela einu af rekstrarfyrirtækjum ríkisins dómsvald í eigin málum. Slíkt samrýmist alls ekki þeim réttarhugmyndum, sem gilda hér á landi.

Samkv. framangreindu leggjumst vér eindregið gegn því, að þau ákvæði frv., sem gerð hafa verið hér að umtalsefni, verði samþ. með því efni, sem þau hafa nú í frv.“

Þetta var umsögn Dómarafélags Íslands. Skömmu eftir að n. hafði fengið þessa umsögn Dómarafélagsins barst n. bréf frá dr. Þórði Eyjólfssyni, fyrrv. hæstaréttardómara, en hann er einn af höfundum frv. Andmælir hann þar ýmsum atriðum í umsögn Dómarafélagsins. Ég mun nú ekki rekja þennan ágreining hinna reyndu dómara, en fallist d. á að samþykkja brtt. okkar á þskj. 358, þar sem lagt er til, að niður falli úr frv. ákvæðin um fógetavald innheimtustjórans, þá er þessi ágreiningur sjálfkrafa úr sögunni. Verði hins vegar brtt. okkar felldar, þá sýnist mér, að menntmn. þurfi að athuga frv. betur milli 2. og 3. umr. og það er vegna þess, að bæði Dómarafélagið og dr. Þórður Eyjólfsson eru sammála um, að einu atriði í frv. þurfi að breyta, ef samþykkt verða ákvæðin um fógetavald innheimtustjórans. En það er, að þessi nýi útvarpsfógeti og fulltrúi hans verði skipaðir af dómsmrh., en ekki af menntmrh. Um þetta eru báðir þeir aðilar sammála, og ég tel það mjög líklegt og reyndar víst, að hv. menntmn. vilji taka tillit til slíkra atriða, sem þessir tveir aðilar eru þó sammála um. Það eru ótvíræð fyrirmæli í 7. gr. frv., að það er menntmrh., sem á að skipa innheimtustjórann.