24.02.1971
Neðri deild: 52. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 882 í B-deild Alþingistíðinda. (900)

73. mál, útvarpslög

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið, stendur menntmn. saman að brtt. á þskj. 356, en engu að síður er kominn upp ágreiningur milli nm., eins og fram hefur komið á þessum fundi, og finnst mér því rétt sem einum nm. að gera í örstuttu máli grein fyrir afstöðu minni til þeirra brtt., sem fram hafa komið. Ég lít svo á, að þetta frv. til útvarpslaga hafi verið æði vel undirbúið, enda má segja, að n. hafi á það fallizt í öllum meginatriðum, þó að hún hafi gert á því ýmsar breytingar, sem sumar eru nokkuð veigamiklar. Í þessu frv. eru ýmis mikilvæg efnisatriði ný, en það mikilvægasta tel ég vera það, að með því er lögð áherzla á það að gera Ríkisútvarpið að sem sjálfstæðastri stofnun og gera útvarpið sem óháðast ríkisstj. hverju sinni. Þetta tel ég vera rétta stefnu og afar mikilvæga stefnu. Það er mjög nauðsynlegt, að jafnáhrifamikið fjölmiðlunartæki og útvarpið, bæði hljóðvarp og sjónvarp, sé sem sjálfstæðast gagnvart ríkisstj. hverju sinni. Við höfum fyrir því gömul dæmi, hvernig ríkisstj. hafa reynt að hlutast til um starfsemi útvarpsins og af því er slæm reynsla. En sem betur fer hefur þróunin farið í þá átt, að útvarpið hefur orðið sjálfstæðara gagnvart ríkisstj. á undanförnum árum, og ég tel það afar mikilvægt, að þetta eigi að festa í lög enn betur en gert hefur verið til þessa. Engu að síður skulum við gera okkur grein fyrir því, að þessu getur fylgt nokkur hætta af öðru tagi. Það getur verið hætta á því, að útvarpið verði eins konar ríki í ríkinu, að almenningur, fólkið í landinu, eigi erfitt með að komast að þessari stofnun. Og það er vegna þess kerfis, sem hér er, að þarna er allur þorri starfsmanna opinberir starfsmenn, sem geta verið þarna í störfum alla sína ævi og án þess að hægt sé að hnika þar til, nema einhver alvarleg brot séu gerð. Í því er fólgin sú hætta, að þannig geti risið upp ýmsir smákóngar, sem fari sínu fram, kannske í trássi við almenningsálit og viðhorf neytenda eða notenda þessarar stofnunar. Þess vegna verður að tryggja það, að þarna sé einnig mjög virkur aðili, sem sé lýðræðislega kjörinn, sem sé eins konar fulltrúi almennings í landinu, og sá aðili, sem á að gegna þessu hlutverki, er útvarpsráð.

Nú er alkunna, að um það hefur verið mikil umr., hvernig hægt sé að kjósa útvarpsráð þannig, að það geti rækt þetta hlutverk, og menn hafa haft uppi um það ýmsar kenningar, hvernig fara eigi að þessu, en ég hef nú ekki orðið var við það, að nokkur hafi fundið aðra lausn, sem sé betri eða skynsamlegri en sú, að Alþ. kjósi stofnunina. Vissulega er það rétt, að menn hafa sagt, að útvarpsráð væri kosið hér af stjórnmálaflokkunum og þeir, sem kjörnir væru, ættu að vera eins konar varðhundar flokkanna. Ég tel, að þetta sé að nokkru leyti að kenna ekki sízt Sjálfstfl., Framsfl. og Alþfl., sem virtust vera þeirrar skoðunar um langt skeið, að það væri enginn maður kjörgengur í útvarpsráð nema hann væri stjórnmálaritstjóri við blöð þessara flokka. Ég held, að flokkarnir hafi ýtt undir þetta viðhorf með þessu vali á mönnum. Samt er það augljóst mál, að núna um alllangt skeið hefur dregið mjög úr pólitískri valdspillingu innan stofnunarinnar og einnig innan útvarpsráðs. Mér hefur þótt það ánægjuefni á undanförnum árum, hvernig það hefur verið talið sjálfsagt í vaxandi mæli, að menn ræddu um ýmis þjóðmál og stjórnmál á frjálslegan hátt, án þess að menn kipptu sér upp við það. Þó eimir enn eftir af þessari pólitísku valdspillingu, sem kom fram hér á dögunum, þegar útvarpsráð vítti Sigurð Blöndal fyrir ágætt, skemmtilegt, fjörugt erindi, sem hann flutti um daginn og veginn. Menn geta haft skiptar skoðanir á ýmsum kenningum hans, en þetta erindi var tvímælalaust mjög gott útvarpsefni. Og skiptar skoðanir eru kostur; en ekki galli í sambandi við starfsemi útvarpsins. Við eigum algerlega að fella niður þann hátt að reyna að tryggja óhlutdrægni útvarpsins með því að leggjast á málfrelsi manna.

Þvert á móti eigum við að tryggja óhlutdrægnina með því að auka frelsi manna til þess að túlka skoðanir sínar og skiptast á skoðunum í útvarpinu. En þetta á sem sagt að vera verkefni útvarpsráðs, og þess vegna lít ég svo á, að með þessari breytingu, sem við höfum verið að gera hér, sé hlutverk útvarpsráðs gert miklu meira heldur en það hefur verið eða þyrfti a. m. k. að verða miklu meira. Ég tel, að útvarpsráð þurfi að verða sterkara mótvægi gegn föstum starfsmönnum stofnunarinnar en það hefur verið að undanförnu, því að þrátt fyrir allt er það nú svo, að almenningur í landinu á greiðari aðgang að útvarpsráðsmönnum með gagnrýni sína og óskir heldur en föstum starfsmönnum stofnunarinnar. Og einmitt þess vegna er ég þeirrar skoðunar, að það sé skynsamleg tillaga, sem flutt er af menntmn., að fjölga í útvarpsráði. Ég held, að öllum mönnum hljóti að vera það ljóst, að störf útvarpsráðs hafa aukizt ákaflega mikið við tilkomu sjónvarpsins. Þau hafa aukizt svo mikið, að ég segi, að þeir menn, sem af þessu hafa reynslu, það sé ekki nokkur kostur með þeirri skipan, sem verið hefur, að rækja þessi störf á þann hátt, sem vert væri. Það væri vissulega hægt, eins og hv. þm. Sigurvin Einarsson sagði, að fjölga fundum útvarpsráðs, hafa ekki einn fund í viku, heldur tvo eða jafnvel þrjá. Ég hugsa, að það mundi nú ekkert veita af þremur. En þá er líka fallin sú röksemd þess hv. þm., að slíkt bryti í bága við verðstöðvunarstefnuna svo kölluðu. Ég held, að það væri ekki raunsætt að ætlast til þess, að útvarpsráðsmenn færu að halda fleiri fundi og leggja fram miklu meiri vinnu, án þess að það væri þá greitt fyrir það. Við eigum að gera þá kröfu til útvarpsráðsmanna, að þeir ræki þessi störf eins og hverja aðra vinnu og leggi í það vinnu, en þá verðum við einnig að greiða fyrir þá vinnu. Hjá því verður ekki komizt. Ef við fjölgum í stofnuninni getum við dreift þessu verkefni til fleiri aðila og í því væri það ekki fólgið að skipta þarna á milli hljóðvarps og sjónvarps, eins og sagt hefur verið. Það var um það rætt í n., að menn skiptust á um að vera annars vegar í sjónvarpsnefnd og hins vegar í hljóðvarpsnefnd. Menn væru kannske eitt árið í annarri og svo eitt ár í hinni og kynntust þá þannig þessum stofnunum báðum í verki, daglegum störfum þeirra, og síðan yrði fjallað um hin sameiginlegu mál á sameiginlegum fundum. Ég held, að þetta væri skynsamleg skipan, og ég held líka, að með þessari skipan mundi það gerast, sem hv. þm. Benedikt Gröndal vék að hér áðan, að það mundi draga eitthvað úr þeim varðhundasvip, sem menn hafa verið að ræða um, að útvarpsráð gæfi dálítið betri mynd af þjóðfélaginu sjálfu en það gerir núna. Ég hugsa, að það yrði fjölbreyttari stofnun, þarna kæmu til menn með fleiri sjónarmið og þarna æti orðið meira um lifandi og jákvæðar tillögur. Ég mæli því eindregið með því, að það verði fallizt á þá skipan að fjölga í útvarpsráði á þennan hátt.

Að öðru leyti ætla ég nú ekki að ræða um margar tillögur aðrar. Þegar þetta mál var rætt í menntmn. vakti ég athygli á því eða hóf máls á því, hvort ekki væri rétt að fella inn í lögin þau heimildarákvæði, að hægt yrði að fella niður afnotagjöld til elli- og örorkulífeyrisþega eftir tilteknum reglum. Eins og allir vita, er afkoma aldraðs fólks og öryrkja afar slæm í þjóðfélagi okkar og ég held, að það sé óhjákvæmilegt að reyna að létta undir með þessu fólki hvar sem hægt er. Og mér er kunnugt um það, að þessi háttur er á hafður sums staðar í grannlöndum okkar, t. d. á Norðurlöndum. Þessari tillögu var efnislega vel tekið í n. eins og það ber með sér, að hún flytur sameiginlega tillögu um það, að þeir, sem hljóta uppbót á elli- og örorkulífeyri samkv. 21. gr. l. um almannatryggingar frá 1963, verði undanþegnir afnotagjöldum. Þetta er heimildarákvæði. Að vísu tel ég, að þetta ákvæði gangi til muna of skammt. Því miður er það svo, að þeir, sem hljóta uppbót á elli- og örorkulífeyri, eru allt of fáir og miklu færri en vert væri og eru þar að auki flestir á elliheimilum, eins og tekið er fram, þannig að þetta gengur of skammt, en engu að síður tel ég það ákaflega mikilvægt, að þarna er fallizt á þetta sem meginreglu, að hægt sé að fella niður afnotagjöld hjá þessu fólki. Og ef til þess kemur, að tryggingalögin verði endurskoðuð á næstunni, eins og maður verður að gera sér vonir um, eftir þau fjölmörgu loforð, sem menn hafa fengið að heyra hér á þingi og annars staðar, þá geri ég ráð fyrir, að þessi ákvæði um sérstaka uppbót á elli- og örorkulífeyri til þeirra, sem þurfa á því að halda, verði rýmkuð mjög verulega. Og þá gætu þessi ákvæði í útvarpslögunum einnig rýmkað.

Hér var gerð grein fyrir því áðan, að upp hefði komið ágreiningur um það, hvernig haga skyldi innheimtu afnotagjalda gagnvart þeim, sem ekki greiða á réttum gjalddögum. Og það er rétt, að það er komin upp um þetta lögfræðileg deila; annars vegar frá Dómarafélaginu og hins vegar er komið svar frá Þórði Eyjólfssyni. Ég tel mig ekki það lögfróðan mann, að ég sé um það fær að leggja dóm á þessar fræðilegu deilur. Það, sem ég lít á í þessu sambandi, er það, að ég tel, að innheimta afnotagjalda verði að vera sem virkust, að það verði að tryggja það, að afnotagjöldin séu innheimt eins vel og hægt er. Það er ekki aðeins nauðsynlegt fyrir stofnunina, heldur einnig fyrir þann yfirgnæfandi meiri hluta viðskiptavina útvarpsins, sem eru skilvísir, að þetta sé gert, því að við skulum ævinlega minnast þess, að þeir, sem losna við að greiða slík gjöld, þó að þeir geti það, þeirra gjöld eru þá í staðinn lögð á hina skilvísu og þess vegna mun ég einnig fylgja till. n. sem slíkrar hvað þetta snertir. Ég mun sem sé, eins og ég hef gert grein fyrir, fylgja þeim till., sem eru á þskj. 356, frá menntmn. í heild, mun fylgja þeim öllum, en greiða atkv. gegn öðrum brtt. Að vísu hef ég ekki íhugað enn þá þá brtt., sem hv. þm. Pétur Sigurðsson flytur, en mér virðist, að þar sé að vísu ekki um veigamikið atriði að ræða, heldur fyrst og fremst áherzluatriði.