24.02.1971
Neðri deild: 52. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 888 í B-deild Alþingistíðinda. (901)

73. mál, útvarpslög

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Að óskum nokkurra þeirra aðila, sem vinna að umferðar- og slysavarnamálum hér á landi, hef ég leyft mér að flytja þá brtt., sem fram kemur á þskj. 395, sem er brtt. við brtt. menntmn. þess efnis, eins og síðasti ræðumaður tók réttilega fram, að kveða fastar á um, að þessar tvær greinar, umferðar- og slysavarnamál, verði ekki út undan í þeirri fræðslu í einstökum greinum, sem Ríkisútvarpinu, og þá bæði hljóðvarpi og sjónvarpi, er ætluð með þessum lögum. Persónulega skal ég viðurkenna það, að t. d. með hljóðvarpinu hafa stór spor verið stigin á undanförnum árum í þessum efnum, bæði í fræðslu um umferðarmál og almenn slysavarnamál. Því miður get ég nú ekki sagt það sama um sjónvarpið, þótt þar hafi vissulega komið fram athyglisverðar myndir um slík efni og þó sérstaklega nú upp á síðkastið, en ég held, að enginn muni draga það í efa, að sjónvarpið er þýðingarmesti fjölmiðlarinn, sem við höfum nú hér á landi, t. d. til að kenna börnum og unglingum umferðarmenningu, og það á ekki aðeins við hér í þéttbýlinu við Faxaflóa, heldur um allt land, bæði í kaupstöðum og til sveita, þannig að ég tel, að ef hv. Alþ. samþykkir þessa brtt. á þskj. 395, sé um leið komið til móts við áhugamenn og starfsmenn, sem vinna að umferðar- og slysavarnamálum, þannig að þeir viti, að þeir geti leitað til þessara stofnana eftir aðstoð í þessum málum og stofnanirnar og stjórnendur þeirra viti líka um leið, að þeirra er þetta starf.

Ég skal ekki á þessu stigi blanda mér mikið inn í þær umr., sem hér hafa farið fram um fjölgun í útvarpsráði. Það á vissulega mikinn rétt á sér miðað við hvað hér er í raun og veru orðið um stórar og þýðingarmiklar stofnanir að ræða, þar sem bæði hljóðvarp og sjónvarp er. En ég vildi þó gjarnan, vegna þeirra brtt., sem hafa komið fram á þskj. 358 frá hv. þm. Sigurvin Einarssyni og Eysteini Jónssyni, spyrja þá og jafnframt menntmn., hvort ekki hafi komið upp í n. sú skoðun, að æskilegt væri, að útvarpsgjald og þá kannske sérstaklega hljóðvarpsgjald yrði lagt á þjóðina sem nefskattur. Við skulum ekki gleyma því og hafa þá staðreynd í huga, að á undanförnum áratugum hafa flutzt ábyggilega til landsins þúsundir svokallaðra transistorviðtækja, sem hvergi hafa komizt á skrá og munu aldrei komast á neina skrá og aldrei verður borgað neitt afnotagjald af, og a. m. k. hljóðvarpið er orðið það þýðingarmikill aðili eða hlutur fyrir alla þjóðina, og hún ábyggilega nýtur þess í einu eða öðru formi, öll íslenzka þjóðin, að ég held, að mjög væri athugandi að taka upp það form á afnotagjaldsinnheimtunni, og mætti þá jafnvel losna við þær greinar við þetta atriði, sem hv. þm. Sigurvin Einarsson hefur hér lagt til, að breyting verði gerð á, að innheimtustjórinn fái þetta fulltrúa- eða fógetavald, því að ég tel, að í sambandi við sjónvarpsafnotagjaldið verði miklu betra að eiga við alla innheimtu og auðveldara fyrir venjulega dómstóla að ganga að þeim heldur en jafnvel útvarpsviðtækjum. En mig langar að spyrja hann og þá flm., hvort ekki þurfi, ef þeir halda við þessa brtt. sína, þá að gera frekari breytingar á frv. Ég spyr, ef þeir leggja til, að 19. gr. verði felld úr frv. að undantekinni 1. mgr., hvaða ástæða er þá til þess, að innheimtustjórinn fullnægi dómaraskilyrðum. Ég fæ ekki séð það og heldur fæ ég ekki séð annað en þá verði jafnvel að gera frekari breytingar á 21. gr. jafnframt. En þetta er kannske vegna þess, að ég hafi ekki skoðað málið nógu vel, en hann getur þá sjálfsagt upplýst mig og reyndar aðra, sem hafa verið með sömu vangaveltur og ég í þessu efni, þegar hann tekur næst til máls.