24.02.1971
Neðri deild: 52. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 890 í B-deild Alþingistíðinda. (902)

73. mál, útvarpslög

Bjartmar Guðmundsson:

Herra forseti. Þótt það raunar komi fram i nál., að ég er andvígur einni þeirri brtt., sem n. flytur, þ. e. tillögu um fjölgun í útvarpsráði, þá þykir mér þó réttara að fara um það fáeinum orðum og skýra afstöðu mína til þess.

Ástæðan fyrir því, að ég tel óhyggilegt og stefnt í skakka átt að samþykkja það að fjölga í útvarpsráði úr 7 upp í 15, er sú, að þetta er einn angi af því stjórnarkerfi hjá okkur, sem mér finnst vera gengið út í öfgar, þ. e. að hafa fjölmennar stjórnir og þunglamalegar við afgreiðslu mála, sem orsakar það, að það er orðið mjög örðugt að fá afgreiðslu í ýmsum ráðum og nefndum, vegna þess hve þar er til margra manna að leita. Ég held, að ég fremji ekkert trúnaðarbrot, þó að ég segi frá því, að á fjölmennum fundi, sem menntmn. sat á með mörgum æðstu mönnum, sem stjórna nú okkar fræðslukerfi, sagði háskólarektor m. a., að stjórnunarapparat háskólans væri orðið mjög þungt í vöfum og erfitt. Ég held, að þetta sama megi segja um mörg okkar stjórnunarapparöt og við þurfum frekar að ganga í þá átt að gera þau einfaldari, svo að þau geti verið fljótari að afgreiða sín mál, heldur en gera þau flóknari og þunglamalegri. Í þessu efni hefur nú varla verið lagt til að gera annað eins heljarstökk í einu eins og það að fjölga í útvarpsráði um meira en 100%. Ég efast ekki um að það mundu veljast góðir menn í útvarpsráð eins og hingað til, þó að þeir væru 15 í stað þess að vera 7, en eins og ég sagði áðan, gengur þetta ekki í rétta átt að hafa mikinn fjölda manna til að afgreiða mál, því að það verður eins og einu sinni var sagt, að því verr duga margra manna ráð, sem þau koma fleiri saman; ég segi ekki heimskra í þessu tilfelli, því að það á ekki við.

Mér þótti rétt að taka þetta fram, vegna þess að ég er ekki meðflm. að þeirri tillögu, sem hér liggur fyrir um það að fella þessa tillögu n., og gæti það e. t. v. valdið misskilningi, en ég mun greiða atkv. með tillögu þeirra hv. 1. þm. Vesturl. og hv. 1. þm. Austf. um niðurfellingu nokkurra mgr. úr þeim tillögum, sem n. hefur annars staðið að að miklu leyti óskipt.

Í sambandi við útvarpsrekstur og sjónvarpsrekstur að öðru leyti er það að segja, að ég tel bæði sjónvarp og útvarp mjög mikils verð og mikil menningartæki, en þannig er hægt að fara með alla góða hluti, að misnotað verði. Ég álít, að það skipti miklu meira máli að vanda til dagskrár útvarps og sjónvarps heldur en teygja úr þeim og hafa þær langar. Og ég held, að þessi ágætu menningartæki geti orðið að hálfgerðri plágu, ef þau eru ofnotuð. Það er þess vegna verulegt umhugsunarefni þeirra, sem fara með þessi mál, að taka ekki of mikið undir þær kröfur, sem stundum heyrast frá einum og öðrum að lengja dagskrár. Ef þær eru við hæfi stuttar, þá eru þær ágætar, og því ágætari sem betur er til þeirra vandað, en ef þær verða mjög langar, geta þær orðið hreinasta plága á heimilum. Og þeim, sem fara með þessi mál, hvort sem það nú verða 15 menn í útvarpsráði eða 7, vil ég ráðleggja eindregið að hugsa vandlega um það að lengja ekki dagskrárnar of mikið. Til viðbótar því, sem ég sagði um fjölgunina, er þess að geta, að útvarpsstjóri sjálfur hefur lagt algerlega á móti því að fjölga í ráðinu. Einnig hafa þeir menn, sem sömdu frv., ekki talið ástæðu til að gera það og ég ætla, að þessir menn hafi fyrir nokkru verið búnir að kynna sér afleiðingar af því og talið það síður en svo æskilegt.