22.03.1971
Efri deild: 71. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 902 í B-deild Alþingistíðinda. (921)

73. mál, útvarpslög

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Nd. Gildandi lög um útvarp eru orðin gömul og þykir tímabært að endurskoða þau. Það var á dagskrá þegar sjónvarpið tók til starfa, að eðlilegt væri að endurskoða útvarpslögin vegna þeirra miklu breytinga á starfsemi Ríkisútvarpsins, sem í því fólst, að hér var hafið sjónvarp. Að vandlega athuguðu máli þótti þó rétt að láta sjónvarpið starfa um nokkurt skeið áður en lagabreyting yrði gerð, og þótti rétt að fá reynslu af starfsemi sjónvarpsins, sem hægt væri að hagnýta, þegar heildarlögin um ríkisútvarp væru endurskoðuð. En í júlí 1969 skipaði menntmrn. þriggja manna nefnd til þess að endurskoða gildandi lög og reglugerðir um Ríkisútvarpið. Voru í nefndina skipaðir: útvarpsstjórinn, Andrés Björnsson, formaður útvarpsráðs, Benedikt Gröndal, og dr. Þórður Eyjólfsson, fyrrv. hæstaréttardómari, og hafa þessir þrír menn samið það frv., sem lagt var fyrir hv. Nd. í fyrra. Deildin afgreiddi málið ekki þá, heldur var það flutt í óbreyttu formi á þessu þingi, og nú hefur hv. Nd. afgreitt málið til þessarar hv. d. Þær breytingar, sem þetta frv. felur í sér, eru þessar helztar:

Ríkisútvarpið er gert að sjálfstæðari stofnun en það er samkv. gildandi lögum, og er tekið þannig til orða, að Ríkisútvarpið sé sjálfstæð stofnun í eign íslenzka ríkisins. Jafnframt fær Ríkisútvarpið einkarétt á útvarpi, sem ríkisstj. hefur samkv. gildandi lögum. Einkarétturinn er hér nánar skilgreindur en áður hefur verið gert. Í frv. er hlutverk Ríkisútvarpsins ákveðið í stórum dráttum. Þar er lagt til, að útvarpsráð verði kosið til 4 ára, en í gildandi lögum hefur útvarpsráðið verið kosið á hverju nýkjörnu Alþ. Nánari ákvæði eru sett í frv. um skipan Ríkisútvarpsins en eru í gildandi lögum og eru þau ákvæði frv. í samræmi við þá skipun, sem komið hefur verið á í reynd á undanförnum árum, þar sem komið er á fót framkvæmdastjórn innan stofnunarinnar, en hún starfar nú.

Þá er það nýmæli, og í raun og veru helzta og merkasta nýmæli frv., að lagt er til, að 5% allra tekna hljóðvarps og sjónvarps renni í framkvæmdasjóð til þess að tryggja stofnuninni viðunandi húsnæði og tækjakost. Upphaflega var gert ráð fyrir því, að aðeins 5% afnotagjalda rynnu í framkvæmdasjóðinn, en Nd. breytti því þannig, að 5% allra tekna útvarpsins skuli renna í framkvæmdasjóðinn. Þá var í upphaflega frv. gert ráð fyrir því, að veigamiklar breytingar væru gerðar til hagræðingar á innheimtu afnotagjalda fyrir sjónvarp og Ríkisútvarpið fengi lögveð í hverju sjónvarpstæki og innheimtustjóri þess hefði fógetavald. Þetta voru ákvæðin í upphaflega frv. Hins vegar var felld niður heimild starfsmanna Ríkisútvarpsins til þess að fara inn á heimili manna til eftirlits með útvarpsnotum, enda hefur gildandi heimild í lögum ekki verið notuð. Þá var enn fremur sett í frv. ákvæði um ábyrgð á útvarpsefni, en um það hefur ekkert verið í lögum til þessa, og tel ég þetta lagaákvæði vera annað langmerkasta nýmæli frv. við hlið ákvæðisins um gjaldið í framkvæmdasjóð. Hæstv. Nd. gerði aðallega tvær breytingar á frv., sem ég sé ástæðu til að nefna, auk minni háttar breytinga. Felld var niður heimildin í upphaflega frv. til þess, að innheimtustjóri fái fógetavald, svo að sú skipan, sem nú er, helzt óbreytt, innheimtustjóri Ríkisútvarpsins er fulltrúi borgarfógetans í Reykjavík og hefur fógetavald á Reykjavíkursvæðinu. Enn fremur hefur verið gert samkomulag við bæjarfógetann í Kópavogi um það, að innheimtustjóri útvarpsins hafi fógetavald í Kópavogi. Hins vegar kemst ekki á sú nýskipan, sem upphaflega var ráðgerð, að innheimtustjórinn skuli hafa fógetavald á landinu öllu. Það ákvæði var fellt í hv. Nd. Þá var gerð breyting varðandi stöðuveitingar við Ríkisútvarpið. Samkvæmt gildandi lögum veitir menntmrh. allar stöður við Ríkisútvarpið. Hv. Nd. samþykkti ákvæði þess efnis, að forseti skipi útvarpsstjóra að tillögu menntmrh., þannig að það ákvæði er óbreytt. Hins vegar er nú gert ráð fyrir því, að menntmrh. skipi eingöngu framkvæmdastjóra Ríkisútvarpsins, en útvarpsstjórinn ráði aðra starfsmenn. Tillögur komu fram um það að fjölga í útvarpsráði úr 7 upp í 15 og að hið nýja 15 manna útvarpsráð skipti með sér verkum þannig, að annar helmingur þess helgi sig dagskrá hljóðvarpsins, en hinn helmingurinn dagskrá sjónvarpsins og átti formaður útvarpsráðs að vera formaður í báðum hlutum hins stækkaða útvarpsráðs. Tillaga um þetta var felld í hv. Nd.

Með þessum orðum vona ég, að mér hafi tekizt að gera hv. Ed. grein fyrir meginákvæðum frv. og þeirri meðferð, sem málið hefur hlotið í hv. Nd. Ég tel mjög mikilvægt, að þetta Alþ. afgreiði þetta frv. Það hefur þegar hlotið mjög ítarlega athugun í hv. Nd. á tveim þingum, og ég vona, að þótt skammt sé eftir af þingtímanum, þá komi sú athugun, sem hv. Nd. hefur gert á málinu, þessari hv. d. að gagni, þannig að það verði kleift að afgreiða málið nú á þessu þingi, því að í því felast mjög mikilvægar endurbætur á gildandi lögum og það mundi verða Ríkisútvarpinu tvímælalaust til mikillar eflingar. Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að leggja til, að að lokinni þessari 1. umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.