25.03.1971
Efri deild: 75. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 906 í B-deild Alþingistíðinda. (927)

73. mál, útvarpslög

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Ég hef nú þegar í umr. um annað mál á nefndarfundi í gær skriftað fyrir hv. þd. fyrir hönd n., þar sem ég gerði þá að umræðuefni þann stutta tíma, sem hún hefði haft til þess að athuga þetta mál, tíma sem var styttri heldur en verjandi mundi vera undir venjulegum kringumstæðum að nota til athugunar á svo stóru máli sem því, sem hér liggur fyrir, og ég get bætt því við þetta, að ég get í meginatriðum tekið undir ummæli hv. 1. þm. Norðurl. v., sem hann lét um þetta mál falla við 1. umr. málsins, að í rauninni er hér um óverjandi vinnubrögð að ræða, að þessi hv. d. fær þetta mál til meðferðar fyrst þegar 2–3 vikur eru eftir af þingi, eða varla það, jafnframt því, sem mikill fjöldi annarra mála hefur borizt. Þetta gerði menntmn. sér vissulega fyllilega ljóst, en á hinn bóginn taldi hún, að svo mörg atriði væru til bóta í þessu frv., að það væri ábyrgðarhluti að bregða fæti fyrir það, að málið yrði afgreitt hér í hv. d., og þess vegna varð samkomulag um það eins og nál. á þskj. 637 ber með sér, að n. mælti með frv., en einstakir nm. áskildu sér þó rétt til þess að flytja eða fylgja brtt. við málið.

Það má í rauninni segja, að núgildandi útvarpslög séu komin til ára sinna að því leyti, að að stofni til er þessi löggjöf frá árinu 1934, þó að einstaka atriðum í þessari gömlu löggjöf hafi að vísu verið breytt síðan. Sérstaklega hafa orðið stöðugar og víðtækar breytingar á ákvæðum um kosningu útvarpsráðs, en að stofni til mundi ég líta þannig á, að þessi löggjöf sé frá árinu 1934 og því vissulega tímabært, að ný löggjöf sé um þetta samin með tilliti til þeirrar stórkostlegu breytingar, sem orðið hefur á allri aðstöðu Ríkisútvarpsins á þessum tíma. Að öðru leyti leiðir það nú af því, sem ég hef sagt, að n. hafði mjög lítinn tíma til þess að athuga málið, að ég mun ekki hafa hér langa framsögu, en vildi þó leyfa mér í örstuttu máli að rekja þær meginbreytingar, sem gerðar hafa verið með þessum lögum. Að vísu eru þær raktar í grg. fyrir frv. eins og það upphaflega var lagt fram, en alllangur tími er nú liðinn síðan, því það var mjög snemma á þessu þingi, svo ég er ekki viss um, að allir hv. þdm. hafi þetta handbært. En það var í fyrsta lagi gerð sú breyting, að Ríkisútvarpið, sem áður var ríkisstofnun, verður nú sjálfstæð stofnun í ríkiseign og fær þann einkarétt á útvarpsrekstri, sem ríkisstj. hefur samkv. gildandi lögum. Segja má nú að vísu, að hér sé fyrst og fremst um formbreytingu að ræða. Enn fremur eru nú sett sérstök ákvæði um hlutverk Ríkisútvarpsins. Sú breyting hefur verið gerð á kosningu útvarpsráðs, að hér eftir verður það kosið til 4 ára, en að undanförnu hefur hvert nýkjörið þing kosið útvarpsráð. Þá eru sett nánari ákvæði um skipulag útvarpsins og m. a. það nýmæli tekið upp, að komið er á fót sérstakri framkvæmdastjórn fyrir útvarpið. Þá má einnig telja það nýmæli, að stofnaður er sérstakur framkvæmdasjóður, sem gert er ráð fyrir að til renni 5% af brúttótekjum útvarpsins, og skal þessi sjóður gegna því hlutverki að tryggja stofnuninni viðunandi húsnæði og tækjakost. Enn fremur eru gerðar allveigamiklar breytingar til hagræðingar innheimtu, og starfsmönnum er ekki lengur heimilt að fara inn á heimili fólks til eftirlits með því, hvort þar séu útvarpstæki o. s. frv. Þá eru sett í 4. kafla laganna sérstök ákvæði um ábyrgð á útvarpsefni, en skýr ákvæði um það munu ekki hafa verið til áður. Þetta eru í meginatriðum þær breytingar, sem gerðar hafa verið, og það var skoðun n., að þetta væri í þeim mæli til bóta, að rétt væri að mæla með því, að Alþ. afgreiddi nú þetta mál.

Ég vil að lokum lýsa því sem persónulegri skoðun minni, að ég hefði talið æskilegt, að fjölgað yrði í útvarpsráði frá því sem nú er og tekin yrði þá upp verkaskipting innan útvarpsráðs, þannig að helmingur þeirra útvarpsráðsmanna, sem kosnir væru, hefðu yfirstjórn hljóðvarpsins og hinn helmingurinn þá yfirstjórn sjónvarpsins. Þetta gæti að mínu áliti vel samrýmzt því, að um sameiginlega yfirstjórn væri að ræða. En ég hefði talið slíka verkaskiptingu — og það að stofna til hennar — æskilega með tilliti til þess, að rekstur þessara stofnana er að ýmsu leyti ólíkur, þannig að gera má ráð fyrir því, að menn geti verið vel hæfir til þess að sitja í stjórn annarrar stofnunarinnar, þó að það eigi ekki við um hina, slík verkaskipting mundi vera til bóta. Í hv. Nd. kom líka frá menntmn. fram tillaga um það að fjölga í útvarpsráði, þó beinlínis væri nú ekki gert ráð þar fyrir þessari verkaskiptingu, en með tilliti til þess, að þessi tillaga var felld í hv. Nd., — en ef um slíka verkaskiptingu á að vera að ræða, mundi verða eðlilegt að fjölga í útvarpsráði — þá hef ég ekki hreyft þessu máli í n. og mun ekki leggja fram um það brtt., þó að ég geti ekki látið hjá líða, að þetta komi fram sem persónuleg skoðun mín, en eins og ég sagði, þá hefur þetta mál alls ekki verið rætt í n., svo að ég mæli hér ekki fyrir munn hennar.

Að öðru leyti, hæstv. forseti, mælir menntmn. með því, að þetta frv. verði samþ., en eins og ég áðan sagði, þá hafa þó einstakir nm. áskilið sér rétt til þess að flytja eða fylgja brtt.