25.03.1971
Efri deild: 75. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 907 í B-deild Alþingistíðinda. (928)

73. mál, útvarpslög

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég stend hér nánast eingöngu upp til þess að biðjast afsökunar á því að leyfa mér að mæla með samþykkt lagabálks, jafnilla athugaður og hann er af minni hálfu. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að undirstrika það, sem hér var sagt við 1. umr. af hv. 1. þm. Norðurl. v., að mér finnst vinnubrögð hæstv. ríkisstj. undir forystu hæstv. menntmrh. í þessu tilviki síður en svo til fyrirmyndar, nánast þvert á móti. Það er vissulega full ástæða til þess að endurskoða gömul lög um útvarp, og um útvarpsrekstur ríkisins. Hann hefur tekið miklum breytingum, eins og allir vita, á því tímabili sem liðið er síðan honum var stakkur sniðinn með lagasetningu. En að gera það á þann veg að ætla annarri d. Alþ. tvö ár, en hinni d. tvær vikur, það er fráleitt. Og afleiðingin er sú, eins og hv. formaður menntmn. sagði, að við höfum nánast ekkert athugað þetta frv. Við höfum orðið að treysta á skynsemi þeirra Nd.-manna. Hún er sjálfsagt vel til þess fallin að treysta henni. Ég er ekki að gera lítið úr því. En hún hefur líka verið það eina, sem við höfum haft hér að leiðarljósi, þegar við höfum fjallað um frv. til útvarpslaga.

Það er alveg rétt, sem hv. frsm. sagði, að það eru í þessu frv. ýmisleg nýmæli, sem við höldum og okkur er sagt, að séu til bóta. Og það náttúrlega ræður því, að við treystum okkur þó til þess að mæla með, að frv. yrði samþ. Það er t. d. það ákvæði, sem mér finnst nú sérstaklega til bóta, sem fjallar um ábyrgð á útvarpsefni. Það er alveg vafalaust, að sú óákveðni, sem um það gilti, hefur verið til óþurftar, og það er spor í rétta átt að ákveða það, hver það er, sem ber ábyrgð á því, ef eitthvað fer úrskeiðis í meðferð máls í útvarpi. Og þessi ákvæði eru hér komin. Þau eru í IV. kafla laganna og í mínum huga eru þau nú merkasta nýmæli þessa frv.

Það er enn fremur lagt hér til, að framkvæmdasjóður fái ákveðinn tekjustofn, ég má segja, að það sé 5% af tekjum útvarpsins. Allir vita, hver saga byggingarmála útvarpsins er. Hana er óþarfi að rekja hér. Hún var rakin skilmerkilega á 40 ára afmæli útvarpsins, sem hátíðlegt var haldið ekki alls fyrir löngu, og margir hv. þm. hafa vafalaust hlýtt á það. En þar kom það fram, að á hverju merkisafmælinu eftir annað undanfarin 15 ár hefur Ríkisútvarpinu í hvert skipti verið lofað nýju húsnæði. En húsnæðismál útvarpsins eru þó, þrátt fyrir þessi hátíðlegu loforð, enn þannig, að hljóðvarpið starfar í leiguhúsnæði við Skúlagötu, en sjónvarpið starfar í gömlum bifreiðaskála inn við Laugaveg. Útvarpið fékk loforð á fertugsafmælinu frá hæstv. menntmrh.: Nú skyldi það fá hús. Það fékk loforð frá borginni eins og vant er, og ég vona, að þessi nýju ákvæði, sem hér eru upp tekin, verði til þess, að hugsanlegt verði að standa við eitthvað af þessum loforðum, því að það er áreiðanlega full þörf á því. Ég minnist þess, að þegar ég vann í stjórnarráðinu, þá var þar til sýnis mjög svo myndarleg teikning af útvarpshúsi, falleg teikning eftir amerískan arkitekt. Það er vafalaust búið að fleygja henni, enda var hún miðuð við allt aðra staðsetningu heldur en nýjasta lóðaúthlutun eða lóðafyrirheit hljóðaði upp á.

Þá hefur Nd. gert á frv. þá breytingu, að innheimtustjóra er ekki falið fógetavald á öllu landinu, eins og upphaflega tillagan fjallaði um. Ég lýsi mig samþykkan þeirri breytingu vegna þess, að ég tel það fullkomlega óeðlilegt og brjóta í bága við allt fyrirkomulag íslenzks réttarfars að taka upp landfógeta eða mann, sem hefði dómsvald eða fógetavald í öllum lögsagnarumdæmum landsins. Þessi ákvæði hafa verið felld niður og það verður eftir sem áður notazt við það fyrirkomulag, sem gilt hefur um skeið, að umræddur innheimtustjóri, sem er lögfræðingur að menntun, fær framselt fógetavald hjá einstökum fógetum, og það álít ég vera alveg nóg. Hitt vekur mér nokkra furðu, að hv. Nd. skuli ekki hafa breytt 20. gr. sem afleiðingu af því, að þetta vald innheimtustjóra var niður fellt, því að satt að segja fannst mér sum ákvæðin í 20. gr. nú vera hrein öfugmæli, eftir að innheimtustjóri er sviptur fógetavaldi. Það er talað um það, að ef eigandi sjónvarpsviðtækis eða annar aðili, sem telur sig hafa réttar að gæta, vilji koma fram vörnum að því er varðar lögtak, þá á hann að mótmæla því við innheimtustjóra, sem að undangengnum málflutningi, ef til kemur, leggur á það úrskurð. Er þetta ekki alger fjarstæða, eftir að fógetavaldið er tekið af manninum, að þá eigi hann að fara að úrskurða um kærumál. Mér sýnist það. Og ég hygg, að þeir, sem lögðu fram tillögu um það, að innheimtustjóravaldið yrði minnkað, hafi jafnframt lagt til breytingar á þessu, en þær hafi af einhverjum ástæðum ekki náð fram að ganga. Ég hef nú ekki undirbúið neina brtt. um þetta enn sem komið er. En það er enn þá kostur á því, ef n. sýndist, og ég vil nú vonast til þess, að þetta atriði verði athugað. Það má segja, að það sé athugunarleysi hjá mér sem nm. að hafa ekki komið þessu á framfæri fyrr, en þó er þetta ekki orðið of seint.

Þá segir enn fremur í 2. mgr.: „Að því er varðar gjöld, sem lögveðréttur fylgir samkv. 18. gr., er heimilt að gera lögtak til tryggingar þeim sem hér segir: Að liðnum viku fresti frá auglýsingu úrskurðar samkv. 1. mgr. ritar innheimtustjóri í fógetabók ákvörðun um lögtak í sjónvarpsviðtæki fyrir umræddum gjöldum.“ En innheimtustjóri kemur ekki til með að hafa neina fógetabók nema í þeim lögsagnarumdæmum, þar sem honum hefur verið falið fógetavaldið eftir samkomulagi við viðkomandi fógeta. Ég bendi nú á þetta svona til umhugsunar milli 2. og 3. umr.

Hv. 10. þm. Reykv., frsm. okkar menntmnm., lýsti því sem sinni skoðun, að hann hefði viljað fjölga í útvarpsráði. — Hann ræddi nú ekki reyndar um neina tölu og kannske ekki einu sinni um að fjölga, heldur fyrst og fremst um að taka upp verkaskiptingu, svo að ég reyni nú að hafa þetta rétt eftir honum. En í Nd. kom fram tillaga um það að fjölga útvarpsráðsmönnum upp í 15. Sú tillaga náði ekki fram að ganga og má þess vegna segja, að það sé ástæðulaust að vera að ræða hana, en ég vil þó, úr því að þetta mál hefur borið hér á góma, segja mína skoðun um það og hún er sú, að mér finnst fráleitt að fara að setja upp 15 manna útvarpsráðsbákn fyrir þessa stofnun. Mér finnst það alveg fráleitt og ef verkefnin eru svo mismunandi milli hljóðvarps og sjónvarps, að sömu menn geti ekki um þau fjallað, þá álít ég, að skipta eigi þessum stofnunum. En ég er nú bara ekki þeirrar skoðunar. Ég held, að yfirstjórn þessara mála geti farið vel saman og 7 manna útvarpsráð geti rækt hana með því starfsliði, sem útvarpið hefur á að skipa.

Svo að lokum ætla ég aðeins að minnast á afnotagjöldin. Þau eru satt að segja hálfgert vandræðamál, þessi afnotagjaldainnheimta, sérstaklega á útvarpstækjum. Sjónvarpstækjainnheimtan er nú miklu skaplegri og miklu viðráðanlegri. Það er allstór mubla, sem ekki leynir sér, þar sem hún er í húsum, og auk þess tilkynningarskylda hjá seljendum að láta um það vita, þegar þeir selja sjónvarp. En þessi innheimta útvarps — það er ekki innheimt nema eitt afnotagjald, þó að tækin séu mjög mörg á sama heimili — hún hlýtur náttúrlega að leiða til þess, að það eru heimili, sem sleppa algerlega við afnotagjöld af útvarpi. Það er augljóst mál. En sérstökum vandkvæðum veldur þó innheimta afnotagjalda af útvörpum í bifreiðum, held ég. Hver fjölskyldufaðir má á sínu heimili, skilst mér, eiga jafnmörg viðtæki og honum sýnist. Hann má bara ekki hafa eitt af þessum viðtækjum fast í bílnum sínum. Ef hann gerir það, þá verður hann að greiða af því sérstakt gjald. Nú eru þessi útvarpstæki margs konar og mjög auðvelt að hafa í bifreið tæki, sem ekki er fast við bifreiðina, og fara með eitt af þessum 4–5 heimilistækjum, sem til eru, upp í bílinn og hlusta á það þar, það kostar ekkert. En ef það er tengt við bílgrindina eða bílhúsið, þá kostar það annað afnotagjald í viðbót. Þetta er ábyggilega mjög erfið regla í framkvæmd, svo að ekki sé meira sagt. Og þegar það er haft í huga, — ef þær upplýsingar eru réttar, sem ég hef, — að 8400 tæki séu í þeim um 40 þús. bifreiðum, sem landsmenn eiga, þá sýnist vafasamt, hvort eigi að hafa fyrir þessari innheimtu, sérstaklega þegar undanskot tækja er jafnauðvelt eins og ég var hér að gera grein fyrir. Ég hef heldur ekki um þetta tilvik neina tillögu fram að leggja og mun ekki gera tillögu um það. Það hafa komið hér fram á Alþ. tillögur, sem lúta að því að breyta afnotagjöldum útvarps í svokallaðan nefskatt. Þær hafa ekki náð fram að ganga og ég treysti mér nú ekki til þess að mæla með þeim, en einhver millileið þarna milli þess, sem nú ríkir, og hins gæti kannske komið til greina, en vegna þess hversu þessu máli er ætlaður stuttur tími hér í d., þá held ég, að það sé bezt að láta þetta róa eins og það er.