26.03.1971
Efri deild: 77. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 911 í B-deild Alþingistíðinda. (933)

73. mál, útvarpslög

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég ætlaði nú að koma þessari leiðréttingu að við 2. umr., en hún rann fram hjá mér, hún var svo fljótafgreidd, en ég vil gjarnan leiðrétta það, sem ég sagði hér í gær við 2. umr., að hv. Nd. hefði ekki tekið afleiðingum verka sinna, þegar hún felldi niður fógetavald innheimtustjóra, með því að breyta 20. og 21. gr. til samræmis við það. Hv. Nd. gerði þetta, hún gerði þetta milli 2. og 3. umr. og það fór fram hjá mér. En þetta styrkir mig nú í þeirri trú, að óhætt hafi verið fyrir okkur menntmnm. að treysta skynsemi Nd. til þess að lagfæra þetta frv.