08.03.1971
Efri deild: 59. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 911 í B-deild Alþingistíðinda. (936)

238. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis íslenskrar krónu

Sjútvrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta er, eins og það ber með sér, ekki mikið að vöxtum, en við samningaumleitanir í undanförnum deilum bæði bátasjómanna og eins togaraútgerðarmanna og togarasjómanna, var oft eftir því leitað, að ríkisstj. hefði meiri eða minni afskipti af þessari deilu og þá helzt vitnað til laganna um breyt. á lögum um ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis íslenzkrar krónu frá 1968. Svör ríkisstj. meðan á samningaumleitunum stóð voru ávallt hin sömu og á s. l. ári: Ef samningsaðilar geta orðið ásáttir um sameiginlega ósk um breytingu á lögunum, þá mun ríkisstj. taka það til velviljaðrar athugunar að beita sér fyrir því á Alþ., að lögunum verði breytt í samræmi við þá ósk. Þessi sameiginlega ósk, sem birtist í þessu frv., var send ríkisstj. og hún ítrekaði þá sína fyrri yfirlýsingu um, að hún mundi beita sér fyrir því, að þessi breyting næði fram að ganga þannig, að í stað orðanna „22%“ í l. mgr. 4, gr. laganna komi: 16%. Frv. þetta er því flutt til staðfestingar þessu loforði ríkisstj. og þeim óskum um breytingu, sem samningsaðilar báðir lögðu til, að gerð yrði á frv. Ég tel, að óþarft sé að fara um þetta fleiri orðum og legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.