16.11.1970
Efri deild: 16. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í B-deild Alþingistíðinda. (94)

101. mál, atvinnuöryggi

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég geri tæpast ráð fyrir því, að hv. þdm. telji, að ég þurfi að nota langt mál til þess að skýra einstök atriði þessa frv., svo mikið sem um það hefur verið rætt í Nd. og einnig almennt, síðan það var lagt fram í þinginu.

Meginatriði þessa máls eru tvenn, getum við sagt. Annars vegar eru ráðstafanir til þess að stuðla að stöðugu verðlagi og atvinnuöryggi. Við, sem höfum flutt þetta frv., ríkisstj., teljum, að þetta fari saman og stuðli hvað að öðru, stöðugt verðlag stuðli að atvinnuöryggi í landinu. En eins og endranær, þá hafa auðvitað spunnizt deilur um það, hvort rétt sé að farið af okkar hálfu við flutning þessa frv. Ég skal ekki fara út í mikinn meting um það, en meginefni málsins af okkar hálfu var að reyna að stuðla að því a. m. k., að sem jafnast væri skipt þeim byrðum, ef hægt væri að tala um byrðar, sem lagðar væru á einstaka aðila þessa máls og sem eiga mestan hlut að máli. Ég hef að vísu sjálfur sagt, að hér væri ekki verið að leggja byrðar á neinn aðila, heldur væri verið að forða frá því, að þyngri byrðar leggist á almenning en ella væri, ef hér væri ekki stofnað til þeirra ráðstafana, sem í frv. felast.

Fyrir utan efni málsins er kannske rétt að víkja aðeins að því, sem hefur orðið mikið deiluatriði, og það er spurningin um það, hvort með þessu frv. sé grundvellinum kippt undan samningagerð verkalýðsins og vinnuveitenda, sem gerð var á s. l. sumri. Um þetta hafa orðið nokkrar deilur, og sýnist sitt hverjum. Ég hef lagt áherzlu á það fyrir mitt leyti í þessu máli, að það hljóti að vera á misskilningi byggðar þær ályktanir, sem gerðar hala verið, bæði af hálfu Dagsbrúnar, stærsta verkalýðsfélagsins hér í Reykjavík, einnig Alþýðusambandsins eða miðstjórnar þess, að slíku sé til að dreifa, og látið í ljósi þá von, að menn áttuðu sig á, að slíkt fengi ekki staðizt. Ég hef litið svo á, að samningarnir væru í aðalatriðum tvíþættir, í fyrsta lagi ákvarðanir um kaup og kjör, eins og þar stendur, sem er ástæðulaust að fara nánar út í, en í öðru lagi sú verðtrygging, sem í samningunum felist. Og fyrir utan samningana, sem gerðir voru um sjálfa upphæð kaupsins, hefði megináherzla verið lögð á það, sérstaklega af hálfu fulltrúa launþeganna, að þeir hefðu vissa tryggingu fyrir því, að ef verðlag breyttist í landinu, þá fengju þeir kaupið bætt í svokölluðum vísitöluuppbótum. Og af þessu leiddi, að meginefni málsins væri það, að kaupmáttur launanna varðveittist. Það er rétt, að það eru ákvæði í þessu frv., sem raska nokkuð ákvörðunum um útreikning vísitölu. En aftur á móti höfum við haft þá skoðun og gert grein fyrir henni í viðræðum okkar við fulltrúa launþega og fulltrúa atvinnurekenda, að kaupmátturinn mundi haldast nokkurn veginn óbreyttur, og a. m. k. miklu meira öryggi en ella með þeim ráðstöfunum, sem hér séu gerðar, og það sé meginefni málsins. Við höfum bent á það, að það, sem verið er að tala um, er, að það geti komið til þess að fresta að einhverju leyti kaupgjaldsvísitölu. Þó er það ekki sýnt, og verður nánar að því vikið hér síðar í umr., að þó að jafnvel sé gert ráð fyrir því að fresta að einhverju leyti greiðslu á vissum vísitölustigum, þá sé útreikningur þessara vísitölustiga eða kerfi það, sem við búum við, þannig, að það veiti í sjálfu sér ekki fulla verðtryggingu, eins og talað hefur verið um, m. a. vegna þess að það sé reiknuð út framfærsluvísitala og kaupgjaldsvísitala á þriggja mánaða fresti, og þar af leiðandi komi alltaf nokkrar kauphækkanir á nokkru tímabili, sem skapi hið svokallaða tap vegna útreikningsins og sem gerð er grein fyrir í grg. frv., að muni nema nálægt þeim 2 vísitölustigum, sem hugsanlegt væri, að frestaðist greiðsla á. Þetta er orðið allkunnugt af þeim umr., sem fram hafa farið um málið. Ég viðurkenni alveg, að það sé auðvitað mikilvægt, ef hin frjálsu samtök launþega eða vinnuveitenda gætu með rétti haldið því fram, að með löggjöf eins og þessari væri raskað grundvellinum undan þeirra frjálsu samningum, en það höfum við lagt mikla áherzlu á, og ég legg enn megináherzlu á það, að eftir okkar skilningi er svo ekki.

Þá hefur einnig verið talið til foráttu þessu frv., að hér sé ekki um varanlegar ráðstafanir að ræða til úrlausnar á hinu svokallaða verðbólguvandamáli.

Við höfum ekki dregið neina fjöður yfir það, að þær ráðstafanir, sem í frv. felast, eru tímabundnar til 9 mánaða, en með þeirri stöðvun, sem hér er um að ræða, og ráðstöfunum til þess að skapa stöðvun í verðlagi og öðru teljum við, að það muni vinnast, hvort heldur sem það er núv. ríkisstj. eða önnur ríkisstj. að loknum kosningum, að aðstaðan verði miklu betri og traustari en ella. Það er rétt, að það er spurt hér, hvað eigi að gera að verðstöðvunartímanum liðnum. Ég hef farið nokkrum orðum um það sjálfur og ekki dregið neina dul á það, að það eru óviss atriði, sem þar liggja fyrir, og þar koma auðvitað til álita og athugunar þau viðskiptakjör, sem þá eru, hvernig árferði hefur verið og viðskiptakjör að öðru leyti í sambandi við viðskipti okkar út á við, þegar þar að kemur. En alla vega sé þó, að það veigamikla atriði standi eftir, að með þeirri stöðvun, sem hér er stefnt að, stöndum við betur að vígi, hverjir sem eiga hlut að máli, að ráða við vandann með hliðsjón af þeim aðstæðum, sem verða á komandi sumri 1971.

Það, sem við leggjum mikla áherzlu á í sambandi við þetta, er atvinnuöryggið, sem ég hef heyrt talað um í hv. Nd., að sé aðeins í fyrirsögn frv., og það er rétt. En það er vegna þess eðlis, að það leiðir hvað af öðru að skapa stöðugra verðlag í landinu, það er vegna þeirra ráðstafana, sem að því stefna, sem atvinnuöryggið skapast. Eins og nú er komið málum, er gert ráð fyrir því í grg., að kaupgjaldið sé um 26.5%, en verði ekki að gert, mun það á mjög skömmum tíma með svipuðu áframhaldi og verið hefur, — auðvitað mætti hafa einhver áhrif á meiri verðstöðvanir en verið hafa. Við skulum láta það liggja á milli hluta, — þá yrði þetta kaupgjald komið upp undir 40% á miðju sumri 1971. Og atvinnuöryggið felst þá augsýnilega í því að halda kaupinu niðri, en engu að síður með jafnmiklum kaupmætti og verða mundi, enda þótt launþegarnir fengju þá tölulegu kauphækkun, 38.5% eða upp undir 40%, sem af þessu mundi leiða.

Ég held, að almenningur óski eftir því, að við reynum að stuðla að þeirri verðstöðvun, sem hér er verið að stuðla að í þessu frv., og enda þótt menn greini nokkuð á um hlutina, þá hafi kannske um það er lýkur verið meiri deilur um hitt, hvort við værum að trufla hér vinnu- eða samningsfrelsið í landinu, heldur en efni frv. Þannig var það a. m. k. í hv. Nd. Ekki veit ég, hvernig hv. þm. þessarar d. líta á málið, en ég vil leyfa mér að vænta þess, eins og ég sagði áðan, að bæði hv. þm. og almenningur í heild geti fallizt á, að hér sé ekki skert hið almenna samningsfrelsi í landinu, og með þeim ráðstöfunum, sem hér eru lagðar til, sé vægilega í hlutina farið, en þó nægjanlega öruggum höndum til þess að skapa stöðugt verðlag og aukið atvinnuöryggi fram á næsta sumar eða fram á haustið 1971, og vitaskuld mun þessi ríkisstj., einnig stjórnarandstaða og aðrir, sem hugleiða málin, reyna að finna meðöl til þess að gera þær ráðstafanir, sem þá kynnu að teljast nauðsynlegar í framhaldi af því frv., sem hér liggur fyrir.

Ég vil svo leyfa mér að vænta þess, herra forseti, að frv. geti fengið skjótan framgang hér. Það var unnið sameiginlega að athugun málsins af nm. í hv. fjhn. þessarar d. ásamt með fjhnm. í Nd., og embættismenn, sem hlut eiga að máli, skýrðu málið bæði fyrir nm. þessarar hv. d. og Nd., og vildi ég því mega vænta þess, að þar af leiðandi þyrfti málsmeðferðin ekki að taka svo langan tíma hjá þeirri n., sem hér fær málið til meðferðar. Ég leyfi mér svo að leggja til, herra forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. að þessari umr. lokinni og hv. fjhn.