17.03.1971
Neðri deild: 63. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 919 í B-deild Alþingistíðinda. (966)

231. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Fyrir nokkru var flutt hér í þessari hv. d. frv. um að lækka mjög verulega eða niður í 30% tolla af bifreiðum til atvinnubifreiðastjóra, þ. e. a. s. hinum svokölluðu leigubifreiðum til fólksflutninga. Ég skýrði þá frá því, að þetta mál væri sérstaklega í athugun í rn. í tilefni af viðræðum, sem fram hefðu farið við samtök atvinnubifreiðastjóra um það mál og höfðu reyndar staðið nokkra hríð, og jafnframt væri í athugun önnur hlið þessa máls eða sambærilegt mál, en það væri endurskoðun á ákvæðunum um eftirgjöf á tollum af bifreiðum til fatlaðra. Það frv., sem hér liggur fyrir, er niðurstaðan af tillögum rn. um þessi efni. Í frv. er gert ráð fyrir breytingum á 3. gr. tollskrár, en þar eru heimildargreinar um ýmis atriði, sem rn. er heimilt að beita í sambandi við framkvæmd tollalöggjafarinnar. Lagt er til, að tvenns konar breytingar verði gerðar á þeim ákvæðum, sem nú gilda um eftirgjöf til fatlaðra. Annars vegar að almenna eftirgjöfin hækki um 10 þús. kr. á bifreið, og mun þá láta nærri, að endurgreiddur sé tollur að fullu af minni bifreiðum, sem yfirleitt eru fullnægjandi ökutæki fyrir fatlaða, en eins og menn vita, er þetta ákvæði hugsað þannig, að þeir njóti þessara hlunninda, sem eru það fatlaðir, að þeir þurfi bifreið til þess að komast til vinnu sinnar, þannig að hér þarf ekki að vera um stórar né fyrirferðarmiklar bifreiðar að ræða. Hins vegar hefur það komið í ljós og á það verið lögð mikil áherzla af samtökum fatlaðra, að það væru nokkrir menn á hverju ári, sem þyrftu á bifreið að halda, en væru svo fatlaðir, að þeir yrðu að kaupa bifreiðar með sérstökum útbúnaði. Og þessar bifreiðar væru miklum mun dýrari heldur en þær bifreiðar, sem fatlaðir gætu almennt komizt af með. Ýmist væri þar um sjálfskiptar bifreiðar að ræða eða með einhverjum öðrum tækniútbúnaði, sem gerði það að verkum, að ekki væri hægt að nota hinar minni bifreiðar fyrir þetta fólk.

Í fljótu bragði kynnu nú hv. þm. að segja sem svo, að þetta mundi verða erfitt að framkvæma, en læknanefnd sú, sem annast úthlutun þessara bifreiða í samráði við Öryrkjabandalagið, telur, að það sé ekkert vandamál og það megi gera ráð fyrir, að það séu 20–25 manns á ári, sem séu svo illa fatlaðir, að þeir þurfi á slíkum sérstaklega útbúnum bifreiðum að halda. Með hliðsjón af því er lagt til, að tolleftirgjöfin verði um 120 þús. kr. af 25 bifreiðum árlega og mundi það nánast samsvara því, að gefinn yrði eftir tollur af ýmsum tegundum bifreiða, sem kæmu til álita fyrir þetta fólk.

Varðandi atvinnubifreiðastjórana er lagt til, að auk þeirra fríðinda, sem þeir nú hafa, — að þeir greiða 70% toll í stað 90% tolls, sem aðrir notendur bifreiða greiða, — þá verði þeim veitt fríðindi í svipuðu formi og er notað í sambandi við eftirgjöfina til fatlaðra, en það er, að ákveðin fjárhæð verði gefin eftir af tolli af þessum bifreiðum, sem mundi þá leiða til þess, að þeir, sem kaupa ódýrari bifreiðar, sem verður að teljast gott og þjóðhagslega skynsamlegt, njóta þá hvað prósentu snertir meiri hlunninda heldur en hinir, sem dýrari bifreiðarnar kaupa. Það er þess vegna ekki hægt að segja nákvæmlega, hvað verðtollur af þessum bifreiðum mundi verða með þessari aðferð, en gert ráð fyrir því, að hann fari aldrei niður fyrir 40%, þannig að ef keypt er ódýrari bifreið, þá fari eftirgjöfin aldrei neðar en það, svo það er ekki víst, að 50 þús. kr. hámarkið þurfi alltaf að koma til, þó að það sé nú sennilegt, að leigubifreiðastjórar kaupi ekki það ódýrar bifreiðar. En ástæðan til þess, að miðað er við 40% toll, er sú, að aðrar atvinnubifreiðar, sendibifreiðar og jeppabifreiðar, eru í 40% tolli, og ég tel ekki eðlilegt, að þessar bifreiðar fari í lægri toll. Það eru aðeins langferðabifreiðar og sérleyfisbifreiðar, sem kosta miklum mun meira fé, sem eru í 30% tolli, þannig að það er mjög eðlilegt, að það sé gerður greinarmunur á þessum bifreiðum, enda er þar um grundvallaratvinnutæki atvinnuveganna að ræða, þessar stóru bifreiðar, sem notaðar eru mikið í margs konar atvinnurekstur eða framleiðslustarfsemi.

Þetta er í stuttu máli sagt niðurstaðan af þessum athugunum rn. Það er gert ráð fyrir, að þetta verði takmarkað við 250 bifreiðar á ári, og nú er talið, að 800–900 atvinnubifreiðar séu í landinu. Það er áreiðanlega veruleg þörf á því, að þeim sé fækkað, a. m. k. hér á höfuðborgarsvæðinu, enda er það áhugamál samtaka leigubifreiðastjóra. Og auðvitað er það eitt veigamikið atriði til að bæta atvinnuaðstöðu þeirra, að það sé gert, þannig að telja má, að með þessari tölu sé hægt að tryggja, að um eðlilega endurnýjun þessa bifreiðakosts verði að ræða.

Ég veit, að hér liggja fyrir hv. d. ýmsar tillögur um breytingar á tollskrá. Ég mundi mjög vilja fara fram á það, eins og ég gerði í hv. Ed., í fyrsta lagi að sjálfsögðu, að menn gætu sameinazt um að standa að þessu frv., svo sem var í hv. Ed., og í öðru lagi, að menn blönduðu ekki inn í þetta mál öðrum áhugamálum sínum um breytingar á tollskrá, sem alltaf eru auðvitað ýmis tilefni til, vegna þess að það gæti ekki leitt til annars en hættu á því, að þetta mál, sem hér er um að ræða, næði ekki fram að ganga. Með því er ég ekki að segja, að þeir hv. þm., sem þau áhugamál hafa, eigi ekki að reyna að þoka sínum frv. áfram, það er annað mál. En hv. Ed. tók þetta mál fyrir og afgreiddi það mjög skjótt og vel, og ég vildi mega vænta þess, að sú sama samvinna gæti tekizt við hv. Nd.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.