11.03.1971
Efri deild: 62. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 925 í B-deild Alþingistíðinda. (979)

249. mál, aukatekjur ríkissjóðs

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að segja nema örfá orð um þetta frv. Það er nánast fylgifrv. með frv. um stimpilgjald og flutt af sömu ástæðu, þ. e. a. s. vegna gildistöku hins nýja fasteignamats. Og það er gert ráð fyrir því, að þinglýsingargjöldin breytist þannig varðandi fasteignir, að prósentuupphæðin lækki úr 0.5% í 0.15%. Engar breytingar eru gerðar á aukatekjulögunum nema þetta varðandi fasteignirnar, enda gefur nýja fasteignamatið ekki tilefni til þess.

Það er sama um þetta frv. að segja eins og um stimpilgjaldsfrv., að það ber brýna nauðsyn til, að það geti orðið afgreitt á þessu Alþ. vegna gildistöku nýja fasteignamatsins, og vænti ég þess, að hv. þdm. muni reyna að greiða fyrir því, að svo geti orðið.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.