11.10.1971
Sameinað þing: 0. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í B-deild Alþingistíðinda. (1)

Þingsetning

Forseti Íslands (Kristján Eldjárn):

Hinn 17. f. m. var gefið út svofellt bréf:

„Forseti Íslands gerir kunnugt:

Ég hef ákveðið samkvæmt tillögu forsætisráðherra, að Alþingi skuli koma saman til fundar mánudaginn 11. október 1971.

Um leið og ég birti þetta, er öllum, sem setu eiga á Alþingi, boðið að koma nefndan dag til Reykjavíkur, og verður þá Alþingi sett að lokinni guðsþjónustu í dómkirkjunni, sem hefst kl. 13.30.

Gert í Reykjavík, 17. september 1971.

Kristján Eldjárn.

Ólafur Jóhannesson.

Forsetabréf um, að Alþingi skuli koma saman til fundar mánudaginn 11. október 1971.“

Samkv. bréfi því, sem ég nú hef lesið, lýsi ég því yfir, að Alþingi Íslendinga er sett. Ég býð yður alla heila til þings komna.

Á þessu ári eru talin 1041 ár síðan Íslendingar stofnuðu Alþingi á Þingvöllum við Öxará. Ég kom til Þingvalla fyrir nokkrum dögum í haustfegurð. Mér varð hugsað til hins forna þinghalds og um leið til þessarar setningar Alþingis, sem í vændum var. Fáum mun nú finnast annað en að rétt hafi verið ráðið, að endurreistu Alþingi var valinn staður í Reykjavík á sínum tíma. Og flestir munu telja sjálfsagt, að löggjafarsamkoman vinni störf sín í höfuðborg landsins. Sögulegir staðir, sem misst hafa lifandi hlutverk sitt vegna breyttra þjóðlífshátta, verða trauðlega kvaddir aftur til fyrra hlutverks vegna sögulegra minninga einna saman. Um Þingvelli má þó með sanni segja, að þeir hafi ekki með öllu rofnað úr tengslum við sitt forna hlutverk. Síðan þing fluttist þaðan, hefur margt gerzt þar, sem hátt ber í sögu landsins. Það gæti enn hæglega átt eftir að koma til umr., hvort Alþingi þjóðarinnar gæti ekki sér til ávinnings tengt starf sitt á einhvern hátt þessum stað svo skammt frá höfuðborginni. Jónas Hallgrímsson hugsaði sér í frægu kvæði til Jóns Sigurðssonar, að hann sækti þangað sálubót og aleflingu við hjarta landsins, áður en hann tæki til við þingstörfin. Sú hugsun er enn í góðu gildi.

En Alþingi á nú orðið langa söguhefð í þessari borg og raunar í þessu húsi. Það eru nú 126 ár síðan Alþingi var endurreist og kom saman hér í Reykjavík, eftir að hafa legið niðri um nærri hálfrar aldar skeið. Frá þeim tímamótum er þetta 107. samkoma þess og hin 92. síðan Alþingi fékk löggjafarvald árið 1874, þar af 74. aðalþing.

Þessi upprifjun örfárra minnisverðra ártala við setningu Alþingis minnir á straum tímans og samhengi sögunnar, á líf þjóðar vorrar og þátt Alþingis í sögu hennar á liðinni tíð. Þetta er elzta og mesta stofnun þjóðarinnar, gömul. en þó sífellt ný eins og þjóðin sjálf og barátta hennar fyrir lífi sínu og tilveru.

Í dag býð ég velkomna til starfa nýkjörna alþingismenn og nýlega skipaða ríkisstjórn og þakka um leið störf fyrra þings og fyrri ríkisstjórnar. Í þessum þingsölum sitja nú sem fyrr margir alþm. með langa þingreynslu að baki, menn, sem endurkjörnir hafa verið til sinna ábyrgðarstarfa, en við hlið þeirra óvenjulega margir nýir menn, sem nú koma hingað í fyrsta sinn. Maður kemur manns í stað, en stofnunin er hin sama. Íslenzka þjóðin mun nú sem ætíð fylgjast með störfum hennar. Það er óhætt að fullyrða, að hingað beinist athygli þjóðarinnar hvert sinn, sem þing er sett, og hún bíður með eftirvæntingu árangurs af störfum þess. Þjóðin hefur með almennri þátttöku kjörið yður til að fara með mikilvægustu málefni sin. Hún lítur til Alþingis og þeirrar ríkisstjórnar, sem ábyrgð ber fyrir því, til varðstöðu um það sem helgast er, frelsi landsins og virðingu meðal þjóða, og hún setur traust sitt á yður til giftusamlegra úrræða í hinum mörgu þjóðfélagsmálum, sem kenna má við líðandi stund og úrlausnar krefjast.

Oft er til þess vitnað, að sagt er um fornan höfðingja, að hann kvíði nálega engu nema Alþingi og imbrudögum. Með þeim orðum er meira verið að lýsa manni en stofnun, manni, sem kennir sín, þegar hann finnur hina mestu ábyrgð kalla að sér og hefur góðan vilja til að standa við hana. En það er engin tilviljun, að Alþingi er nefnt í þessu sambandi. Þar var það og þar er það enn, sem fáir verða að taka ákvarðanir fyrir marga, ákvarðanir, sem varða oss alla, oft um langa framtíð.

Þessa þings bíða nú eins og jafnan mörg og vandasöm úrlausnarefni. Það liggur í hlutarins eðli og enginn gengur að því gruflandi. Alþingismenn þekkja sína ábyrgð og því er fulltreystandi, að allir hafa þeir góðan vilja til að efla hag og hamingju þjóðarinnar og heiður og traust landsins. Sú er ósk mín og von, að sá góði vilji verði sigursæll.

Að svo mæltu bið ég alþingismenn að minnast fósturjarðarinnar með því að rísa úr sætum.

[Þingheimur stóð upp og forsætisráðherra, Ólafur Jóhannesson, mælti: „Heill forseta vorum og fósturjörð. Ísland lifi.“ Tóku þingmenn undir þau orð með ferföldu húrrahrópi.]

Samkvæmt 1. gr. þingskapa ber nú aldursforseta að stjórna fundi, þar til kosning forseta sameinaós þings hefur farið fram, og bið ég aldursforseta, Hannibal Valdimarsson, 3. þm. Vestf., að ganga til forsetastóls.