01.11.1971
Efri deild: 8. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1355 í B-deild Alþingistíðinda. (1024)

11. mál, stöðugt verðlag

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. kvaðst ekki hafa gert ráð fyrir miklum umr. um þetta mál. Ég tók það fram í þeim orðum, sem ég mælti áðan, að ætlun mín væri ekki heldur sú að fara að hefja almennar umr. hér um efnahagsmál, en ég held, að það geti naumast hafa komið neinum á óvart, þó að af hálfu Sjálfstfl. væri bent á það, sem ég hef hér gert í minni fyrri ræðu, að hér er verið að framkvæma þá ráðstöfun, sem við sjálfir lýstum yfir og fráfarandi ríkisstj., að hún teldi rétt, að horfið yrði að nú með haustdögum, ef nauðsyn bæri til í fyrsta lagi að framlengja verðstöðvunina til arsloka og í annan stað kæmi til álita einhver frekari framlenging hennar í sambandi við aðra þætti í lausn efnahagsvandamálsins í haust. Og í þessu felst vissulega það, að þó að það sé vitanlega rétt, sem hæstv. forsrh. sagði, að það hefur engum dottið í hug, að ekki væri við vanda að glíma í haust, þá hefði þó verðstöðvunin engan veginn leitt til þeirra vandræða, sem ýmsir spáðu, hvort sem því var valin nafngift úr hópi okkar þm. Sjálfstfl. eða annarra, það skiptir nú ekki meginmáli, heldur það, sem var talið kjarni málsins, að þetta safnaði saman vandamálunum í stíflu, sem hlyti svo að springa með haustdögum, og ríkisstj. væri aðeins að reyna að fela vandann fram yfir kosningar. Þetta tel ég, að hafi alveg afsannazt, og það hefur í rauninni verið staðfest og það ekki fyrir alllöngu í ritstjórnargrein, sem var birt í Tímanum og sem ég tel mjög eftirtektarverða, þar sem lögð var á það áherzla, að það, sem væri hrollvekjan nú, ef til kæmi, væri, ef óraunsætt væri staðið að þeim kjarasamningum, sem nú væri unnið að, og þess vegna væri þess að vænta, að menn skildu þann vanda, sem hér væri við að glíma. Hér erum við raunverulega farnir að tala um nákvæmlega það sama, sem var uppistaðan í því, sem var haldið fram af hálfu okkar sjálfstæðismanna fyrir kosningarnar, að það væri vitanlega rétt, eins og hæstv. forsrh. sagði, og engum datt í hug að halda öðru fram, að verðstöðvunin væri frestun, sem þó um leið hefði þann mikilvæga tilgang að tryggja verðgildi þeirra kjarabóta, sem menn öðluðust á s.l. ári, og afkomu og rekstur atvinnuveganna, halda honum í fullum gangi. En menn yrðu síðan að loknu þessu tímabili að gera upp dæmið að nýju og gera sér grein fyrir því, hvernig vandinn yrði bezt leystur á þann hátt, að afkoma alls almennings í landinu og atvinnurekstrarins, sem auðvitað fer saman, yrði treyst með nauðsynlega öruggum hætti til lengri tíma. Við vitum það vitanlega, að það hafði auðvitað sín áhrif á þetta vandamál, að það var ekki hægt að taka það jafnföstum tökum, að kosningar voru í nánd, og það vita jafnframt allir, að það hafði sín áhrif á kjarasamningana s.l. vor, að þá stóðu yfir kosningar. Það er aldrei ákaflega þægilegt að setjast í rólegheitum og meta vandamálin, þegar þannig ástand er. En það mátti gera ráð fyrir því, að nú með haustdögum, eftir að kosningahiti hefði lækkað í mönnum, þá væri hægt að taka þetta með raunsærra hætti og heilt kjörtímabil fram undan, hverjir sem þá kynnu að verða við völd. Það féll í hlut annarra heldur en okkar að taka við þeim vanda, og þeir hafa, eins og ég sagði, nákvæmlega gert það, sem við spáðum, að rétt væri að gera, framlengt verðstöðvunina til áramóta og að nokkru leyti fram á næsta ár.

Ég vil aðeins leiðrétta það, sem margoft hefur verið haldið fram og síðast nú af hæstv. forsrh., að það hafi vakið grunsemdir nú með verðstöðvunina, eins og það hafði gert 1967, þegar verðstöðvun var sett á, að hún hafi verið sett á fyrir kosningar og síðan hafi verið gripið til allt annarra úrræða eða gengisbreytingar eftir kosningar og mönnum hafi þá verið sagt, að allur vandinn væri leystur með verðstöðvuninni í það skipti. Þetta er reginmisskilningur, sem ég er hissa á að jafnmætur maður og hæstv. forsrh. skuli halda fram. Það hélt því enginn fram 1967, að allur vandinn væri leystur með verðstöðvuninni, nema því aðeins, að það yrði breyting til batnaðar á verðlagi íslenzkra útflutningsvara. Við vitum það öll, að tilgangurinn með verðstöðvuninni þá var að reyna að koma í veg fyrir kjararýrnun alls almennings í von um það, að það verðhrun, sem var á útflutningsvörunum, mundi aftur lagast á skömmum tíma og verðið aftur vera upp á við. Það varð þó ekki, og ég veit a.m.k., af því að ég sagði það fyrir þær kosningar, að þá var það skýrt tekið fram, að ef svo færi, að þessi von brygðist, yrði að sjálfsögðu að grípa til annarra aðgerða. En í lengstu lög væri nauðsynlegt að koma í veg fyrir kjaraskerðingu almennings. Nú hefur aftur á móti gerzt alveg þveröfugt, að verðlag hefur haldið áfram að fara stórhækkandi og viðskiptakjör hafa hvarvetna batnað í sambandi við útflutningsatvinnuvegina, og þess vegna er auðvitað hægt að taka á þessu máli nú með allt öðrum hætti. Ástæðan til að verðstöðvunin var miðuð við 1. sept. vitum við auðvitað öll, að var sú, að gert var ráð fyrir, að nýir kjarasamningar yrðu þá gerðir, og það var ekki óeðlilegt að miða við þann tíma, því að þá áttu þeir samkv. eldri kjarasamningum að vera tilbúnir. Ég er ekki með þessu að halda neinu fram um það, að óeðlilegt sé, að á því verði einhver dráttur. Þetta er vandasamt mál, og ég skal ekkert vera að halda fram neinni kenningu í því efni. En þetta var tímabilið, sem eðlilegt var að miða við, og vitanlega var það engum vanda bundið, eins og við bentum á, að framlengja verðstöðvunina eitthvað, ef þessi tími yrði of naumur. Og verðstöðvun hefur verið sett á í allmörgum nálægum löndum, flestum Norðurlandanna einmitt í sambandi við kjarasamninga, til þess að fresta því, að fram kæmu óeðlilegar verðsveiflur, sem gætu haft óheppileg áhrif á atvinnulífið, og einmitt til þess að gera það mögulegt að meta slíkt ástand efnahagsmálanna í sambandi við kjarasamningana.

Út í vísitölumálið skal ég ekki fara. Ég tel, að það hafi ekki verið neitt af sér brotið, vegna þess að kjarninn með vísitöluákvæðinu er ekki sá, að hanga fast í því, að það eigi að borga fulla vísitölu, hvaða afleiðingu sem það hefur, heldur er hún fyrst og fremst hugsuð til þess að tryggja verðgildi launanna. Og því hefur enn þá ekki verið mótmælt með neinum rökum af neinum, að verðstöðvunin hafi tryggt mun betur verðgildi launa alls almennings og þær launahækkanir, sem urðu á árinu 1970, heldur en orðið hefði, ef ekki hefði verið gripið til þeirra ráðstafana, sem í verðstöðvuninni felast. Verðstöðvunin getur auðvitað haft sína miklu þýðingu einmitt, ef viðskiptakjör batna. Það hefur þegar komið í ljós t.d., að verðstöðvunin hefur haft þau miklu áhrif, að sú víxlhækkun, sem ella hefði getað orðið mjög stórkostleg og illviðráðanleg milli launa og landbúnaðarvöruverðs, hefur ekki komið til á þessu hausti, vegna þess að búvörur þurftu ekki að hækka nema sáralítið einmitt vegna verðstöðvunarinnar, þannig að þarna hefur verðstöðvunin þegar að einu leyti haft þýðingarmikil áhrif, sem skapar auðvitað miklum mun betri aðstöðu fyrir ríkisstj. til að taka á efnahagsvandanum.

Hæstv. forsrh. sagði, að stefnuna í efnahagsmálum væri að finna í málefnasamningi ríkisstj. Ég held, að það séu nú sárafáir, sem taka þennan málefnasamning ákaflega hátíðlega, því að þar er margt milli himins og jarðar að finna, en sleppum því. Ég skal heldur ekki fara að ræða hann hér. En hann gat þess, að þar væri stefnan mörkuð þannig, að ríkisstj. vildi hafa hemil á verðbólguþróuninni. Ja, hamingjan sanna, hver vill ekki hafa hemil á verðbólguþróuninni? Auðvitað segir það ekki nokkurn skapaðan hlut. Það segir um stefnumið alveg eins og hann var að vitna í stefnumið viðreisnarstjórnarinnar, sem vissulega tókst ekki, að ráða algerlega við verðbólguþróunina, og raunverulega má segja kannske, að það sé sízt betra nú að fást við það, vegna þess að eins og hann réttilega gat um, þá er verðlag hækkandi í okkar viðskiptalöndum mjög mikið og miklu meira heldur en áður hefur verið. Og það dettur engum í hug að ætlast til þess af ríkisstj., að hún ráði algerlega við verðbólguþróunina. En menn hljóta að hafa haft meira fyrir sér heldur en þessa almennu setningu, sem segir nánast ekki nokkurn skapaðan hlut, þegar þeir setja það niður á blað, að það eigi á tveimur árum að bæta kjör hinna lægst launuðu, eins og það er orðað, um 20%. Ég hygg, að þeir lægst launuðu séu flestir þeir, sem vinna við undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar, ef ég skil það rétt, bæði við sjávarútveg, landbúnað og iðnað, þannig að það er ekki lítill hluti þjóðarinnar, sem þessi 20% kjarabót á að ná til. Síður en svo skal ég harma það, heldur gleðjast yfir því, ef þetta er hægt. En ég trúi því ekki, að ríkisstj. setji á blað loforð um 20% kjarabót, raunhæfa kjarabót á vissu tímabili, án þess að hafa gert sér nokkra grein fyrir því, hvernig hún ætli sér að tryggja þessa kjarabót í reynd, með öðru en almennu hugtaki um að vilja hafa hemil á verðbólguþróuninni. Það er alveg rétt, sem hæstv. forsrh. sagði, að við búum við mjög alvarlegt þensluástand. Og það ástand held ég, að sé að verða svo alvarlegt, bæði í peningamálum og á vinnumarkaði, að ríkisstj. verði að gefa því mun meiri gaum heldur en virðist hafa verið gert. Og ég er hræddur um, að það sé meira að segja í ýmsum greinum komið á það stig, að kjarasamningar hafi sáralitla þýðingu, og það sé því miður ekki í sambandi við þá launalægstu, heldur ýmsa hópa, sem eru vel launaðir í þjóðfélaginu, þannig að það sé farið að bera á því, að það eigi sér stað yfirborganir umfram gildandi kauptaxta, sem við höfum áður þekkt, að hefur komið fyrir. Þetta hefur komið fyrir í okkar landi, og það er þess vegna mikil nauðsyn, — þó að ég sé sammála hæstv. forsrh. um, að það þurfi að neyta allra bragða til að koma í veg fyrir atvinnuleysi, og hófleg verðbólga, eins og hann orðaði það, sé betri en atvinnuleysi, — þá þurfi þó að gera sér mjög mikla grein fyrir því, hvernig þróunin nú er í þessum efnum, og spyrna við fótum á vissum sviðum, því að eins og ég sagði, þá er ég ekki viss um, að þetta séu endilega þeir launalægstu í þjóðfélaginu, sem fái kjarabætur í gegnum þetta þensluástand, heldur þvert á móti.

Ég skal svo alveg taka undir það með honum að lokum, að það eru áreiðanlega ekki allir í þessu landi á móti verðbólgu. Þó að menn segi það með vörunum, þá eru geysilega margir og það ótrúlega mikill fjöldi þjóðfélagsborgara, sem hagnast á verðbólgu, og vissulega hefur orðið jafnvel miklu meiri dreifing en ella á verðmætum í þjóðfélaginu vegna verðbólgu, þó að hún valdi sínum mikla vanda fyrir atvinnulífið. Út í það skal ég ekki að öðru leyti fara nú. En ástæðan til þess, svo aðeins að lokum, að mér fannst vera ástæða til að spyrja hæstv. forsrh. um niðurgreiðslukerfið, er þessi setning, sem er að finna í grg. fjárlagafrv., að ákveðin hafi verið endurskoðun á öllu niðurgreiðslukerfinu, og er hún nú þegar hafin. Það liggur því ekki fyrir nú endanlega ákvörðun ríkisstj. um það, hvort svo hárri fjárhæð á fjárlögum 1977 verður varið til niðurgreiðslanna eins og gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. Það er auðvitað ekki nema tvennt til í þessu sambandi. Annaðhvort er það ætlunin að láta verðlagið hækka og þá vísitöluna með, sem hlýtur auðvitað samhliða allsherjar kauphækkunum, sem boðaðar eru, að hafa sín alvarlegu áhrif fyrir atvinnuvegina, eða þá, eins og ég gat um, án þess að ég væri nokkuð að fullyrða í því efni, að það hljóti að vera ætlunin að spara á einhvern hátt í niðurgreiðslum með einhvers konar tilfærslum og einhvers konar annarri framkvæmd niðurgreiðslna heldur en nú er. Ég vænti þess, að hæstv. forsrh. geti fallizt á, að það sé eðlilegt, að setning sem þessi vekji hugleiðingar í þessa átt, vegna þess að hér er nánast um véfrétt að ræða, eins og fleira í inngangi að fjárlagafrv., þannig að mann langar óneitanlega til að vita, hvað hér er að haki. Ég hef auðvitað enga möguleika til að krefja hæstv. forsrh. meira svara um það en hann þegar hefur gefið, og þau eru nánast þau að vitna í, að véfréttin sé eins og hún þarna standi og um hana sé ekki meira að segja, og það verður þá að bíða eftir því, að reynslan sýni okkur það, hvað það er, sem raunverulega þessi setning merki.