26.01.1972
Efri deild: 40. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1359 í B-deild Alþingistíðinda. (1026)

11. mál, stöðugt verðlag

Frsm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér er til umr., er stjfrv. og er flutt til staðfestingar á brbl., sem gefin voru út 21. júlí s.l. Efni frv. er hv. þdm. vafalaust harla vel kunnugt, en í því felast fyrst og fremst tvær breytingar á þeim lögum. sem sett voru í okt. eða nóv. 1970 um ráðstafanir til stöðugs verðlags og atvinnuöryggis. Þessar breytingar eru í fyrsta lagi sú, að verðstöðvunarlögin, verðstöðvunin, sem kveðið var á um í þessum lögum, er framlengd til áramóta í stað þess að lögin gerðu ráð fyrir, að verðstöðvunartímanum yrði lokið 1. sept. Í öðru lagi er svo um að ræða þá breytingu í samræmi við sáttmála núv. stjórnarflokka, að þá þegar eftir stjórnarmyndunina kæmu til greiðslu þær vangreiðslur á vísitölunni, sem ákveðnar voru með verðstöðvunarlögunum, þ.e. að inn í vísitöluna kæmi aftur sú lækkun, sem varð á vísitölunni, vegna þess að út voru tekin hækkunaráhrif af verðlagi á tóbaki og áfengi og tryggingariðgjöldum til almannatrygginganna, og í öðru lagi tvö vísitölustig, sem heimilt var í sömu lögum, að niður féllu við greiðslu verðlagsbóta á laun. Hvort tveggja þetta átti að koma inn 1. sept., en með brbl. var ákveðið. að þessar leiðréttingar kæmu inn 1. ágúst eða þegar eftir að ríkisstj. hafði tekið við völdum, en eins og kunnugt er, höfðu núv. stjórnarflokkar uppi nokkra gagnrýni á fyrrv. ríkisstj. fyrir þær skerðingar á kaupgjaldsvísitölunni samkv. áður gerðum samningum. sem lögin fólu í sér.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að fara að rekja þetta mál öllu meira. Ég held, að mönnum sé fullkomlega ljóst, hvað hér er um að ræða, og enn síður er ástæða til að fjölyrða um málið, þar sem það virðist ekki vera deilumál. Það kom strax fram hér við 1. umr. málsins og sú varð einnig raunin á í n., sem um þetta fjallaði, fjhn., að þar varð samkomulag um að mæla með samþykkt frv., eftir að n. hafði athugað það, en tveir nm. skrifuðu þó undir nál. á þskj. 215 með fyrirvara.