26.01.1972
Efri deild: 40. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1361 í B-deild Alþingistíðinda. (1028)

11. mál, stöðugt verðlag

Frsm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af því, sem fram kom í ræðu hv. síðasta ræðumanns, sem ég ætla þó ekki að hafa ýkjamörg. Ég ætla ekki að fara í neina deilu við hann um það, hversu óeðlilega hafi verið staðið að þeirri lagasetningu, sem ákveðin var hér fyrir jólin í sambandi við launaskatt og áframhald sumra verðstöðvunarákvæða þeirra laga, sem hér er um að ræða. Við erum nú ýmsu vanir hér á hv. Alþ., líka frá tíð stjórnar þess flokks, sem þessi hv. ræðumaður fylgir, og ég hygg, að megi finna margar hliðstæður við þetta. Á hinn bóginn skal ég ekki vera að taka neina vörn upp fyrir það, að ég tel, að það hafi verið ákaflega óeðlilegt að stinga ákvæðinu um launaskattinn inn í tryggingamálafrv., og hefði verið þinglegra og skemmtilegra, ef öðruvísi hefði verið að því staðið, en það er nú ekki óvenjulegt, að til slíkra ráða sé gripið, þegar tíminn er orðinn naumur á hv. Alþ., og ég held, að það mundi ekki gagna neinum að fara að karpa eða deila um það, hverjir hafa að þessu leytinu unnið sér meira til óhelgi.

En það var sérstaklega í sambandi við það, sem hv. þm. sagði um vísitöluna, sem mig langaði til að segja hér örfá orð, og þá í fyrsta lagi það, að hann telur auðsætt, að það sé um eintóma sýndarmennsku að ræða, þegar vísitöluskerðing fyrrverandi ríkisstj. er leiðrétt með brbl., m.a. vegna þess að þessu átti að breyta eftir einn mánuð. Tel ég alveg óvíst, að það hefði verið gert, ef sú stjórn hefði verið áfram. Miklu líklegra þykir mér, að ef verðstöðvunarlögin í heild hefðu verið framlengd til áramóta, þá hefði þessi skerðing fylgt þar með. Það þykir mér miklu sennilegra, en um það liggur auðvitað ekkert fyrir og ekki hægt að sanna til eða frá í því efni. Hitt var auðvitað alveg rökrétt og í samræmi við þá afstöðu, sem núv. stjórnarflokkar höfðu á síðasta Alþ„ að þeir breyttu þessu. Þeir átöldu það þá, að gerðum samningum væri rift með þeim hætti, sem hér var óumdeilanlega gert. Það skiptir ekki máli í því sambandi, hvort hér væri um meiri eða minni kjaraskerðingu að ræða. Um það má sjálfsagt deila, og því er jafnvel haldið fram af hv. stuðningsmönnum fyrrv. ríkisstj., að hér hafi um enga kjaraskerðingu verið að ræða, en það breytir ekki sjálfri aðferðinni, sem hér var viðhöfð, að sjálfum grundvelli samninganna frá því í júní 1970 var breytt. Það var það, sem bæði við í þáv. stjórnarandstöðu átöldum og verkalýðshreyfingin átaldi, en nú taldi hv. ræðumaður, að það væri alveg auðsætt, að hér hefði ekki verið um sýndarmennsku að ræða og þá af annarri ástæðu, þ.e.a.s. núv. hæstv. ríkisstj. ráðgerði að ræna launþega fjórum vísitölustigum, vegna þess að þeir ættu ekki að hafa neinn rétt til þeirrar útgjaldaaukningar, sem yrði vegna kerfisbreytingar í sambandi við skattalögin, þ.e. að nefskattar væru lagðir niður, en menn borguðu sömu útgjöld á annan hátt, eins og hann sagði, með heinum sköttum. Hér væri um gróft svindl að ræða eða eitthvað í þá áttina og það sannaði auðvitað, að núv. stjórnarflokkum hefði ekki verið nein alvara, þegar þeir voru að leiðrétta þá vangreiðslu á vísitölunni, sem hvíldi á herðum fyrrv. ríkisstj. Mér er nú spurn, hvaðan hefur hv. þm. þær upplýsingar, að það sé meiningin að ræna launamenn fjórum vísitölustigum í sambandi við þessa breytingu, sem nú er verið að gera á almannatryggingum, og skattabreytingarnar? Mér er ekki kunnugt, að neinar yfirlýsingar liggi fyrir eða það liggi neitt fyrir um það, að þannig verði farið með þetta mál. Hitt er mönnum augljóst, að lögin um verðlagsbætur á laun eru nokkuð ótvíræð í því efni, að inni í þeim eru ekki beinir skattar, en hins vegar eru nefskattarnir, tryggingagjöldin, sjúkrasamlagsgjöldin og fasteignaskatturinn inni í vísitölunni, þannig að vegna breytinga á fasteignaskattinum þarf ekki að hafa áhyggjur í þessu sambandi, hann er inni í vísitölunni og hækkun hans mun leiða til þeirrar vísitöluhækkunar, sem til stendur að hann geri og alveg er lögum samkvæmt. Það, sem hér er um að ræða, er það, að ef farið væri eftir bókstaf núgildandi laga, þá væri þetta að verulegu leyti rétt, sem hv. þm. sagði, þá mundu geta verið möguleikar á því, að launþegar sköðuðust um sennilega á fjórða vísitölustig, — fjögur vísitölustig eru nú fráleit í þessu sambandi. því að öll kerfisbreytingin gæti aldrei valdið slíkri hækkun, en það er engu að síður þarna um mjög mikilsvert atriði að ræða, hér þarf engra lagabreytinga við til þess, að allir fái sitt, bæði siðferðilega og lagalega, ef kerfisbreytingin hefur það í för með sér, hver eru raunveruleg útgjöld þeirra fjölskyldna, sem miðað er við í vísitölugrundvellinum, þeirra 100 fjölskyldna, sem þar er miðað við. Ef raunveruleg útgjöld þeirra vaxa ekki vegna kerfisbreytingarinnar, þá er hér auðvitað allt með felldu, menn fá sem hreina hagsbót niðurfellinguna á gjöldunum til almannatrygginganna og sjúkratrygginganna, þá er ekki yfir neinu að kvarta, hvorki lagalega né siðferðilega, að mínu viti.

Spurningin er þess vegna um það, hvort kerfisbreytingin sjálf veldur hér óeðlilegri kjararýrnun, og ég er sannfærður um það fyrir mitt leyti, að núv. hæstv. ríkisstj. hefur fullan hug á að leysa þetta með fullkomlega eðlilegum hætti, a.m.k. liggur ekkert annað fyrir í því málí. ASÍ hefur tekið þetta mál til sérstakrar meðferðar og bent á það, að ef lögunum er ekki breytt í þessu efni, þá geti þessi hætta verið fyrir hendi, og auðvitað er núv. hæstv. ríkisstj. fullkunnugt um þessa afstöðu ASÍ og verkalýðshreyfingarinnar, og ég hef nú a.m.k. enga trú á því fyrr en það kemur þá á daginn, að hæstv. ríkisstj. hafi neinn þann hátt á meðferð þessa máls, sem ekki fullnægir fyllilega kröfum verkalýðshreyfingarinnar. Hún hefur sett fram alveg ákveðnar skoðanir í þessu efni, sem ég ætla, að mönnum sé kunnugt um og verði að telja fullkomlega eðlilegar, þ.e. að kerfisbreytingin sjálf út af fyrir sig valdi engri kjararýrnun, heldur breyti það eitt hér um, hver hin raunverulega þynging eða léttir af kerfisbreytingunni verður og það ráði síðan meðferð vísitölumálsins. Þetta er ekkert ákaflega flókið mál og ég held, að menn geti alveg sparað sér allar fullyrðingar í sambandi við þetta mál, þangað til hið rétta kemur í ljós um meðferð þess.