26.01.1972
Efri deild: 40. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1363 í B-deild Alþingistíðinda. (1029)

11. mál, stöðugt verðlag

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Að sumu leyti vil ég fagna þeirri ræðu, sem hv. 6. þm. Norðurl. e. flutti hér áðan, en ég vil taka það fram, að ég hafði þær yfirlýsingar í huga, sem fluttar hafa verið hér á Alþ., bæði af hæstv. fjmrh. og hæstv. félmrh., sem gáfu það fyllilega til kynna, að það væri ætlun ríkisstj., að afnám persónuskattanna kæmi fram í vísitölunni, og það væri ekkert óeðlilegt, þótt það kæmi fram í kaupgreiðsluvísitölu, vegna þess að það væri verið að létta af launþegum ákveðnum útgjöldum. Þetta kom fram hjá báðum þessum hæstv. ráðh. Ég held, að þeim hafi í báðum tilvikum verið bent á það, að hér var ekki verið að létta af útgjöldum, heldur bara verið að breyta útgjaldabyrði fjölskyldnanna og gjaldþegnanna í þjóðfélaginu frá einu formi til annars, frá persónusköttum eða nefsköttum í annað form skattlagningar. Bezt held ég, að komi nú fram, að hér er um raunverulega útgjaldaaukningu að ræða, að sjálft Alþ. og sjálf ríkisstj. gerir ráð fyrir því, að niðurgreiðslur á landbúnaðarvörum lækki sem svarar þeim möguleika, sem lækkun vísitölunnar að þessu leyti leiðir til. Ég held, að það fari þess vegna ekki á milli mála, að hér sé um útgjöld að ræða eftir sem áður fyrir allan þorra launafólks í landinu.

Ég sagðist fagna að sumu leyti ræðu hv. síðasta ræðumanns, og það geri ég að því leyti til, að hann hefur heitið því, að þetta yrði tekið til endurskoðunar og endanleg ákvörðun um þetta hafi ekki verið tekin. Ég verð þá að telja það til tekna þeim gagnrýnisröddum, sem hér hafa heyrzt varðandi þessa fyrirætlun hæstv. ríkisstj., sem engum vafa er bundið, að var þessi, að fara aftan að launþegum í þessum málum, þótt sem betur fer hafi verið horfið frá þessari fyrirætlun, ef marka má orð síðasta hv. ræðumanns. Það er út af fyrir sig ávallt álitamál, að hve miklu leyti unnt er á hverjum tíma að fylgja þeirri verðhækkunarskrúfu, sem vísitölubinding verðlags og kaupgjalds hefur í för með sér, og það kann að vera ástæða til þess á stundum að gera þær ráðstafanir, sem taka þessa sjálfvirku skrúfu úr sambandi, og þá er það ekki gert af vondum hug gagnvart launþegum í landinu, heldur einmitt í þágu þeirra, í þágu alls almennings í landinu. Þetta lá fyrir, þegar verðstöðvunarlögin voru sett í nóvember 1970, og á þessum forsendum var frestað greiðslu kaupgjaldshækkunar, er nam tveimur vísitölustigum, um tiltekinn takmarkaðan tíma, og ég víl mótmæla því algjörlega, að hefði fyrrv. stjórn setið að völdum áfram eða sömu flokkar farið með völd, þá hefði þessi skerðing verið framlengd, þvert á móti lágu fyrir beinar og hreinar yfirlýsingar fyrrv. ríkisstj. og ráðh. um það, að þessi skerðing ætti ekki að gilda nema til 1. sept. s.l. En aðalatriðið er það, að þegar þessi verðstöðvunarlög voru sett í upphafi í tíð fyrrv. ríkisstj., þá var gengið beint framan að mönnum og þeim sagt, hvað í lögunum fólst, en nú var gerð tilraun, og við skulum vona, að það verði ekki nema tilraun, en það var gerð tilraun til þess að læðast aftan að fólki og telja því trú um, að lífskjaraskerðing, sem það yrði í raun og veru fyrir af þessum sökum, væri engin.

Það hefur verið sagt hér, að verðstöðvunarlögin og þau ákvæði, sem í þeim voru um frestun á vísitöluuppbótum, hefði verið röskun á kaup- og kjarasamningum. Að vissu leyti má það til sanns vegar færa, en á sama hátt er ekki um að ræða minni röskun á kaup- og kjarasamningum, sem felast í greinum frv. ríkisstj., sem gera ráð fyrir afnámi persónuskatta og greiðslu þeirra í öðru gjaldformi. Hafi hið fyrra verið röskun á samningsgrundvelli, þá er hið síðara það engu síður. Ég geri mér grein fyrir því, að stjórn ASÍ hefur vakið athygli á, að þetta atriði þarfnist nánari rannsóknar. Það er út af fyrir sig eðlileg og sjálfsögð afstaða, en ég minni hv. 6. þm. Norðurl. e. á þær umr., sem urðu um tekjustofnafrv. sveitarfélaga hér í d. í desembermánuði s.l. fyrir jólaleyfi, þar sem ég vakti athygli á einmitt þessu sama atriði um áhrif afnáms nef- og persónuskattanna á kaupgjaldsvísitöluna og þar af leiðandi á kjör meðlima ASÍ. Þá tók hæstv. félmrh. að engu leyti undir þá ábendingu mína og aðrir tóku ekki til máls, m.a. ekki hv. 6. þm. Norðurl. e.