26.01.1972
Efri deild: 40. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1364 í B-deild Alþingistíðinda. (1030)

11. mál, stöðugt verðlag

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Hér er vissulega til umræðu mál, sem er svo mikilvægt, að það er ástæða til að gefa því nokkru meiri gaum, og hér hafa verið gefnar yfirlýsingar og höfð frammi ummæli af hálfu hv. 6. þm. Norðurl. e., sem eru þess eðlis, að það verður ekki hjá því komizt að spyrja nánar um það, hvað hv. þm. meini með þeim ummælum sínum, þar sem hann ekki aðeins er hér þm. á Alþ., sem styður hæstv. ríkisstj., heldur ekki síður, að hann gegnir þeirri ábyrgðarstöðu að vera forseti Alþýðusambands Íslands.

Hann hefur að vísu verið töluvert tvístígandi í þeim orðum, sem hann hefur sagt hér í d. í dag. En hann hefur þó gefið ástæðu til þess að halda þessum umr. nokkuð áfram, og ég vildi leyfa mér að óska eftir frekari skýringum hans varðandi nokkur þau atriði, sem hann hefur hér nefnt. Hv. 2. þm. Reykv. vakti athygli á því í sinni ræðu áðan, að það væri með kerfisbreytingu hæstv. ríkisstj. verið að fara aftan að launþegum og svipta þá 3.7 vísitölustigum, sem er staðreynd, án þess að menn hefðu virzt hafa nokkuð við það að athuga af hálfu núv. stjórnarflokka, enda þótt það hafi verið talin óhæfa og árás á verkalýðshreyfinguna, þegar frestað var, aðeins frestað, tveimur vísítölustigum í sambandi við verðstöðvunarlögin og síðan framkvæmd skerðing, sem nam því, að tekin var út úr vísitölunni hækkun á iðgjöldum almannatrygginga og hækkun á tóbaki og áfengi, sem mun hafa numið 1.37 vísitölustigum. Með þeim hætti, sem þá var mjög fordæmt, var þó gengið mun skemmra til skerðingar á launauppbótum launþega heldur en ætlunin var að gera nú að því er virtist þegjandi og hljóðalaust í sambandi við brottfellingu nefskattanna og breytingu þeirra í sambandi við beina skatta.

Það var tvennt eftirtektarvert í ræðu hv. þm. Annars vegat það, að það kæmi að hans dómi ekki til neinna álita eða a.m.k. sagði hann, að það væri ósannað mál enn, og mér skildist, að hann væri þess sinnis, að það yrði að taka til athugunar, hvort þessi 3.7 vísitölustiga skerðing á kaupi ætti að koma til framkvæmda eða ekki. Og sýndist mér á ræðu hans, að hann væri því efnislega andvigur og teldi, að það væri samkynja skerðing, sem það vitanlega er, eins og hefði verið gerð með verðstöðvunarlögunum. Breytingin er aðeins sú, að samkv. vísitölukerfinu voru þar til greindir vöruflokkar inni í vísitölunni og þjónustugjöld, en beinir skattar eru það ekki, og af því leiðir, að beina kröfu eiga launþegar ekki samkv. vísitölukerfinu um neinar uppbætur fyrir þá miklu skerðingu, sem nú er gerð. Þetta taldi hv. þm., að væri enn þá óafgert mál. Þetta finnst mér næsta furðulegt, vegna þess að það hafa verið gerðar af ríkisstj. ráðstafanir, sem beinlínis sýna, að það á að framkvæma þessa skerðingu, með því að einn þátturinn í tekjuöflun ríkissjóðs er, ef ég man rétt, 400–500 millj. kr., sem eru taldar eiga að sparast í niðurgreiðslum, og búvörur hafa verið hækkaðar í verði sem nemur því, sem sparast við þessa vísitöluskerðingu, sem þessi kerfisbreyting hefur í för með sér, þannig að það er þegar búið að leggja þessa skerðingu á herðar launþega, vegna þess að vísitalan eða kaupið hækkar ekki, kaupgjaldsvísitalan, nema því aðeins að það sé ætlunin að ákveða það með lögum, og atvinnurekendur eru ekki skyldugir að greiða þessar prósentur í hækkuðu kaupi. Þessu veit ég, að hv. þm. gerir sér fulla grein fyrir, þar sem vísitölukerfið gerir alls ekki ráð fyrir því, eins og það er í dag. Það þarf þá að gera alveg heinar og ákveðnar ráðstafanir til þess, að þetta verði gert. Og ég vil leyfa mér að spyrja hv. þm. að því, hvort það er ætlun ríkisstj., eða hefur það verið ákveðið að bæta launþegum upp þessa skerðingu, 3.7 vísitölustig? En þá er mér einnig gersamlega ómögulegt að skilja, hvernig stendur á því, að niðurgreiðslur hafa verið minnkaðar sem þessu nemur og talið, að ríkissjóður geti sparað sér það fé, sem þar er gert ráð fyrir, þannig að þetta er a.m.k. dæmi, sem ég ekki skil.

Varðandi hitt atriðið, sem er einnig mikilvægt að gera sér grein fyrir og kom fram í ræðu hv. þm., að það væri þó til efs, að þetta yrði gert, ef skattalagabreytingarnar sýndu aukin hlunnindi fyrir launþega, — og reikna ég þá með, að hann eigi við sem forseti Alþýðusambandsins þann fjölda fólks, sem er innan samtaka Alþýðusambands Íslands eða í launþegasamtökunum. Þetta hefur aldrei komið fram áður, að væri meiningin, að það ætti að skerða þau hlunnindi, sem hafa verið reiknuð út af hæstv. fjmrh. t.d. í sambandi við skattalagabreytingarnar, að þar ætti að koma til frádráttar skerðingin, sem verður á kaupgjaldinu í sambandi við þessi tæplega fjögur vísitölustig, þannig að þá er ég hræddur um, að það verði að fara að reikna öll þessi dæmi upp aftur. Og er það virkilega skoðun forseta Alþýðusambands Íslands, að þau hlunnindi, sem kunna að vera til staðar í þessum kerfisbreytingum, sem gerðar eru með niðurfellingu nefskattanna, það sé allt í lagi, að það étist upp til þess að bæta úr þessari 3.7 vísitölustiga kaupgjaldsskerðingu, sem hér á sér stað með kerfisbreytingum? Þetta er líka mjög nýstárleg yfirlýsing, ef það á að heita svo. Þá verður að taka þetta dæmi upp á allt annan hátt, og ég held að reikna þurfi þessi dæmi öll upp að nýju. En þetta er svo mikið atriði efnislega og hlýtur að hafa það veigamikla þýðingu, að ég tel það mjög æskilegt, ef hv. þm. sæi sér fært að gera ljósari grein fyrir því, hvað hann á við með þessu tali, sem hann hóf hér áðan. Og mér finnst, eins og ég segi, mjög eftirtektarvert, ef það er rétt skilið, að hann telji, að það sé allt í lagi að skerða vísitöluna, ef það sé hægt með einhverjum reikningskúnstum að sýna fram á, að skattalagabreytingarnar hafi einhver hlunnindi í för með sér, sem ég leyfi mér nú miklu meira en að draga í efa, eða hvort það sé nóg, að það sé fyrir einhvern tiltekinn hóp launþega, — það er að sjálfsögðu ljóst, að fyrir stóran fjölda í launþegasamtökunum verður þar um verulegan skattþunga að ræða, — hvort þá sé allt í lagi að falla frá þeim kröfum, sem Alþýðusamband Íslands heldur uppi í sambandi við samþykkt þá, sem nýlega var þar gerð í sambandi við þessa skerðingu, sem yrði á vísitölunni við þessa formbreytingu, hvort það er í lagi, hvort það er rétt skilið, að þá sé niður fallin þessi krafa Alþýðusambands Íslands, ef með einhverjum reikningskúnstum sé hægt að sýna þessar svokölluðu kjarabætur, sem eigi að felast í skattalagabreytingunni, þá falli þeir frá kröfu sinni um þessi 3.7 vísitölustig, eða ef svo er, að það er misskilningur hjá mér og ekki ætlunin, sem ég trúi í rauninni ekki, að sé ætlun hv. þm., enda brýtur það í bága við, eins og hv. 2. þm. Reykv. sagði, allan málflutning í sambandi við skattalögin, að þetta dæmi eigi að taka þar inn, eða hvort það er þá ætlunin að gera einhverjar lagabreytingar í sambandi við vísitöluna og þá með hvaða hætti. Ég fæ ekki séð, hvernig það má verða til þess, að launþegar fái bætt þau 3.7 vísitölustig, sem af þeim eru tvímælalaust tekin með þessari kerfisbreytingu, sem nú er gerð. Þetta er svo þýðingarmikið mál fyrir þjóðina alla að gera sér grem fyrir, að ég tel, að æskilegt sé að fá um þetta nánari upplýsingar, ekki sízt frá þessum hv. þm., sem hefur jafnþýðingarmiklu lykilhlutverki að gegna fyrir launþega í landinu eins og öllum er kunnugt.