26.01.1972
Efri deild: 40. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1368 í B-deild Alþingistíðinda. (1032)

11. mál, stöðugt verðlag

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það var nú kannske að vonum, að hv. 6. þm. Norðurl. e. reyndi að smeygja sér út úr þeirri snöru, sem hann var að setja um sinn háls með ræðu sinni hér áðan, vegna þess að óneitanlega horfir nokkuð illa varðandi veigamikil atriði, sem ég veit, að minn ágæti eftirmaður, hæstv. fjmrh., hefur reiknað með, þegar hann var að gera upp sitt fjárhagadæmi, því að þar var ákveðið gert ráð fyrir því, eins og ég gat um í ræðu minni áðan og hv. 2. þm. Reykv. einnig, að þessi 3.7 vísitölustig yrðu þegjandi og hljóðalaust látin hverfa burtu, þannig að það væri hægt að spara sér niðurgreiðslur, sem þeim svaraði. Þetta veit hv. 6. þm. Norðurl. e. mætavel, að það er búið að gera það dæmi upp án allrar könnunar.

Það er ekki spurning um kauplagsnefnd í þessu sambandi, vegna þess að kauplagsnefnd reiknar vísitöluna út samkv. þeim vísitölugrundvelli, sem í gildi er, og tekur ekki tillit til þess að öðru leyti, hvort um er að ræða kjaraskerðingu í því sambandi eða ekki. Beinir skattar eru ekki í vísitölunni, það veit hv. þm. vel. Og þess vegna er hægt að fara þá leið, sem ég segi hiklaust og tek undir með hv. 2. þm. Reykv., að er að fara aftan að launþegum, að fara þá leið, sem nú er farin, að fella niður nefskatta og taka í staðinn sömu upphæðir í beinum sköttum. Það er vissulega gert. Það eru teknar sömu upphæðir aftur og hefur enginn haldið því fram, að það væri verið að taka minni upphæðir í beinu sköttunum heldur en hafa verið í gildi áður. Í heild ætlar fjmrh. sér sannarlega ekki að fá lægri tölu út úr þeirri fjárhæð allri saman, þannig að þetta fær auðvitað með engu móti staðizt, og kauplagsnefnd verður að reikna sitt dæmi eftir þessum gildandi reglum. Þetta veit ég, að hv. þm. veit alveg eins vel og ég, og þess vegna þýðir ekkert að tala um það, að það verði beðið eftir því, hvað kauplagsnefnd geri í þessum efnum. Hún á engra annarra kosta völ, hvort sem það er kjaraskerðing eða ekki kjaraskerðing í þessu sambandi, og þess vegna var ekkert undarlegt, þó að að þessu væri spurt.

Hitt atriðið, að fara að hneykslast á því, að við hv. 2. þm. Reykv. værum að spyrja að þessu og tala um kjaraskerðingu hjá launþegum, það væri nánast ósæmilegt af okkur að vera að gera það, sem hefðum verið ósparir í slíkri kjaraskerðingu áður, það finnst mér nú ekki sæma hv. þm. að segja, enda var ekki í ræðum okkar um það að ræða, að við værum á einn eða annan hátt að hneykslast á þessu máli eða telja, að það kæmi aldrei til greina nein skerðing vísitölu. Meira að segja hv. 2, þm. Reykv. sagði hér réttilega, að í ýmsum tilfellum gæti það orðið launþegum til hagsbóta, ef komið væri í veg fyrir, að vísitala hækkaði. Og það var einu sinni til hér vinstri stjórn, sem byrjaði sinn feril með að taka 6 vísitölustig eða 7 af launþegum og ætlaði að enda sinn feril með að taka af þeim 17 stig, — það að vísu tókst nú ekki, — þannig að það er ekkert nýtt, að þetta sé gert, og ég skal ekki fara að rekja þá sögu. Við getum sleppt öllum hneykslunum hvor í annars garð um þetta. Hér var aðeins verið að biðja um upplýsingar um mjög mikilvægt atriði, sem hefur grundvallarþýðingu, hvernig á verður tekið, hvernig út verður reiknað. Ég veit ekki, hver er að reikna þetta dæmi. Það er nú svo erfitt að fá að vita það yfirleitt, eins og í sambandi við skattalögin og fleira, hver semur eitt og annað fyrir hæstv. ríkisstj. Það eru einhverjir huldumenn, sem eru þar alls staðar að verki, en aldrei hægt að fá að vita, hver raunverulega vinnur verkið. En ef einhverjir huldumenn eru að reikna hér þetta út, þá er það allt gott og blessað. En þá held ég, að það standi á að fá þessar 400–500 millj., sem hæstv. fjmrh. reiknar beinlínis með að fá í sinn kassa við það að geta lækkað niðurgreiðslurnar, einmitt vegna þessara tilfæringa að fella nefskattana niður. Það er beinlínis ætlað að taka öll þau hlunnindi, sem af því leiðir, í gegnum niðurfellingu á niðurgreiðslum. Með þessu móti er ég ekkert að hneykslast á þessu, eins og hv. þm. taldi, hvorki til né frá. Hér er aðeins verið að reyna að fá fram fyrir almenning í landinu staðreyndir. Og ég veit, að honum er það ákaflega ógeðfellt sem forseta Alþýðusambandsins, að eiga að hera ábyrgð á þeirri kjaraskerðingu og vísitöluskerðingu, sem hér mun eiga sér stað, svo að ég skil nú ósköp vel, að hann sé sár. En hann þarf ekki að vera að hneykslast á okkur hv. 2. þm. Reykv. fyrir því. Hann verður að una því, að vakin sé athygli á þessu máli. (BJ: Eigum við ekki að bíða eftir því, hver skerðingin verður?) Það er þegar vitað, hver skerðingin verður. Það eru 3.7 vísitölustig, og það er svo einfalt að reikna það út, og það getur hann fengið að vita með því að hringja upp í Hagstofu.