14.02.1972
Efri deild: 46. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1378 í B-deild Alþingistíðinda. (1066)

169. mál, lagmetisiðja ríkisins í Siglufirði

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Tilgangurinn með þessu frv. er sá, að niðursuðuverksmiðja ríkisins í Siglufirði verði gerð að sjálfstæðu fyrirtæki og sett undir sérstaka stjórn. Jafnframt verði tryggt nokkurt fjármagn til að fullkomna tækjabúnað verksmiðjunnar og tryggja eðlilegan rekstur hennar.

Það eru nú liðin 25 ár síðan sérstök lög voru sett um Síldarniðursuðuverksmiðju ríkisins í Siglufirði, og henni var þá ætlað allmikið hlutverk í þeirri iðngrein. Til þess var ætlazt, að verksmiðjan reisti og ræki í Siglufirði verksmiðju til þess að sjóða niður og leggja síld í dósir, og hún átti enn fremur að hafa forustu um niðursuðu og niðurlagningu síldar í dósir með það fyrir augum að miðla reynslu og þekkingu á þessu sviði til annarra slíkra verksmiðja. Henni var sem sé ætlað að lyfta þessari iðngrein. 1947 var Síldarverksmiðjum ríkisins svo falið að annast byggingu og rekstur verksmiðjunnar, en framkvæmdir drógust æðilengi og það var ekki fyrr en í byrjun 7. áratugsins, að bygging verksmiðjunnar var hafin, og stjórn Síldarverksmiðjanna hefur síðan haft rekstur hennar með höndum. Fyrstu árin var framleiðslan lítil vegna skorts á mörkuðum, og þau árin varð nokkurt tap á rekstrinum. En síðustu árin hefur framleiðslan stóraukizt og reksturinn gengið betur, og á þessu ári er útlit fyrir, að álitlegur hagnaður verði af rekstrinum eða 4–5 millj. kr., og hefur þá verið reiknað með þóknun til Síldarverksmiðja ríkisins, fyrir bókhald og skrifstofukostnað, um 1/2 millj. kr., og vegna leigu á húsnæði og tækjum 2.2 millj.. eins og verið hefur undanfarin ár.

Árið 1970 flutti niðurlagningarverksmiðjan í Siglufirði meiri framleiðsluverðmæti á erlendan markað en nokkur önnur íslenzk niðursuðu- og niðurlagningarverksmiðja eða fyrir 38.4 millj. kr. Á s.l. ári varð framleiðslan þó tvöfalt meiri eða fyrir 76 millj. kr. Hér er um að ræða fyrirtæki, sem skiptir Siglfirðinga mjög miklu máli, því að fjöldi starfsmanna í verksmiðjunni hefur verið 90-I10 manns. Og þess er vænzt, að þarna geti orðið áfram um framleiðsluaukningu að ræða og því hefur verksmiðjunni verið tryggt hráefni í ár, 12 þús. tunnur af síld, sem er mun meira magn en verið hefur á undanförnum árum.

Þetta frv. er samið af niðursuðunefnd, sem starfað hefur á vegum iðnrn. síðan í haust. Aðalverkefni þeirrar nefndar hefur hins vegar verið að semja frv. um sölustofnun niðursuðuiðnaðarins, og geri ég mér vonir um. að það verði lagt fram hér á þingi eftir nokkra daga.

Niðursuðuiðnaðurinn hefur lengi verið olnbogabarn hér á landi og þróun hans hefur orðið mjög skrykkjótt. Á undanförnum 5 árum hefur útflutningsmagn á niðursuðuvörum aðeins verið rúm 1000 tonn á ári, en það er aðeins örlitið hrot af því hráefni, sem til fellur, og langt innan við 1% af útflutningsmagni Íslendinga í heild. Við flytjum enn þá út meginhlutann af hráefninu handa öðrum keppinautum okkar, enda þótt fullvinnsla margfaldi verðmæti hráefnisins. Ástæðan fyrir erfiðleikum þessa iðnaðar er tvímælalaust sú, að markaðsöflun hefur verið ómarkviss og fálmandi, en til þess að tryggja næga markaði fyrir þessar og aðrar fullunnar iðnaðarvörur þarf mjög öfluga sölustarfsemi. Með hinu væntanlega frv. um sölustofnun niðursuðuiðnaðarins er til þess ætlazt, að til komi samvinna ríkisvaldsins og atvinnurekenda um þessa starfsemi og allverulegt fjármagn verði lagt fram í þessu skyni. Ætti aðstaða þá að gerbreytast og grundvöllur að skapast fyrir örri þróun þessarar iðngreinar, sem ætti að vera nærtækara verkefni fyrir okkur Íslendinga en nokkra þjóð aðra. Og innan þessa kerfis er til þess ætlazt, að verksmiðjan í Siglufirði hafi mjög verulegu hlutverki að gegna.

Einstaka gr. frv. skýra sig að mestu leyti sjálfar. Eins og menn sjá, er hér stungið upp á því, að tekið verði upp nýyrðið „lagmeti“ um iðnað af þessu tagi. Það hefur ævinlega verið öfugmæli að tala um niðursuðuiðnað í sambandi við verksmiðjuna í Siglufirði, því að hún hefur fengizt við niðurlagningu. Auk þess hefur þetta orðafar, niðursuðu- og niðurlagningariðnaður, verið ákaflega óþjált og því er hér lagt til, að tekið verði upp orðið „lagmeti“ og „lagmetisiðja“.

Í 2. gr. er ekki aðeins til þess ætlazt, að verksmiðjan vinni sjálf að niðurlagningu; niðursuðu og hvers konar fullvinnslu matarrétta úr sjávarafurðum, heldur á hún einnig að hafa forustu um tilraunastarfsemi á þessu framleiðslusviði undir leiðsögn Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins og miðla reynslu og þekkingu til annarra framleiðenda. Hér er sem sé til þess ætlazt, að hún ræki enn það verkefni, sem henni var upphaflega ætlað, að verða lyftistöng fyrir þessar iðngreinar í heild með tilraunastarfsemi.

Í 3. gr. er ráð fyrir því gert, að ríkið taki við verksmiðjuhúsi Síldarniðursuðuverksmiðju ríkisins ásamt lóðarréttindum, vélum, áhöldum og öðru því, sem nú er notað við rekstur niðurlagningarverksmiðjunnar, og verðið verði greitt með skuldajöfnun milli ríkissjóðs og Síldarverksmiðja ríkisins. Í þessu skyni er lagt til, að skipuð verði þriggja manna nefnd, en náist ekki samkomulag, skeri ríkisstj. úr.

Í 4. gr. er svo lagt til, að ríkissjóður leggi fram í 5 millj. kr. til þess að fullkomna vélakost verksmiðjunnar og tryggja eðlilegan rekstur hennar.

Í 5. gr. er lagt til, að sá háttur verði á hafður um stjórn lagmetisiðjunnar, að fjmrn. tilnefni einn mann í stjórn, bæjarstjórn Siglufjarðar tilnefni mann, en eins og ég sagði áðan, er hér um fyrirtæki að ræða, sem skiptir mjög miklu máli fyrir atvinnulifið í Siglufirði, og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins tilnefni enn fremur mann einmitt til þess að hafa forustu um tilraunastarfsemi þá, sem ég minntist á hér áðan. Þá er og lagt til, að starfsfólk verksmiðjunnar tilnefni einn mann samkv. nánari reglum, og er hér um að ræða nokkurt nýmæli og í samræmi við hugmyndir núv. ríkisstj. um aukna þátttöku starfsfólks í stjórn fyrirtækja. Síðan á iðnrh. að skipa formann stjórnar án tilnefningar líkt og verið hefur.

Ég vil vænta þess, að um þetta frv. verði ekki neinn meiri háttar ágreiningur hér á þingi. Það hefur verið almenn skoðun hér í þinginu síðustu árin, að nauðsynlegt væri, að verksmiðjan fengi sjálfstæða stjórn. Á síðasta þingi var t.d. flutt um það stjfrv., áð niðursuðuverksmiðjan í Siglufirði yrði gerð að hlutafélagi, m.a. með aðild Siglufjarðarkaupstaðar. Sú hugmynd strandaði hins vegar á því, að hluthafar virtust ekki vera tiltækir, og m.a. taldi bæjarstjórn Siglufjarðar sig ekki hafa neitt fjármagn til þess að standa að slíkri starfsemi. því verður það að teljast eðlilegt, að þetta fyrirtæki verði áfram starfrækt á vegum ríkisins, eins og verið hefur frá upphafi vega, og að það hafi þá með höndum það sérstaka verkefni. sem ég hef rætt um, að hafa jafnframt forustu um tilraunastarfsemi á þessu sviði.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni umr. vísað til 2. umr. og hv. iðnn.