24.04.1972
Efri deild: 71. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1387 í B-deild Alþingistíðinda. (1073)

169. mál, lagmetisiðja ríkisins í Siglufirði

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég hef ekki miklu við það að bæta, sem hv. frsm. sagði hér á undan mér. Ég hef skrifað undir nál. ásamt honum og öðrum nm„ sem mælir með samþykkt þessa frv. En ég hef gert fyrirvara og enn fremur hefur 2. þm. Reykv. skrifað undir með fyrirvara. Ég vildi með nokkrum orðum lýsa því, í hverju þessi fyrirvari felst.

Hann felst ekki í því, að við teljum ekki frv. vera til bóta frá því ástandi. sem verið hefur. En Síldarverksmiðjur ríkisins hafa verið með niðursuðuverksmiðju í Siglufirði eða Síldarniðursuðuverksmiðja ríkisins í Siglufirði hefur verið í samkrulli við Síldarverksmiðjur ríkisins allt frá því að lög um það voru sett 1946. Við teljum, að það sé sjálfsögð ráðstöfun að skilja þarna á milli. En við teljum, að það hefði átt að gera með öðrum hætti. Eðlilegra hefði verið, að það hefði verið stofnað hlutafélag til þess að annast þann rekstur, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, að lagmetisiðja ríkisins í Siglufirði hafi með höndum.

Ég skal ekki hér hefja almennar umr. um gildi og yfirburði einkareksturs fram yfir ríkisrekstur. En við getum ekki lokað augum fyrir staðreyndum. Og þær staðreyndir, sem liggur næst að vekja athygli á í þessu máli, eru þær, að þó að lög væru sett um Síldarniðursuðuverksmiðju ríkisins árið 1946, var það ekki fyrr en um það bil 11/2 áratug síðar, sem lögin komu til framkvæmda, eins og segir í grg. með þessu frv. Í grg. segir enn fremur, með leyfi hæstv. forseta:

„Með breytingu á lögum í maímánuði 1947 var stjórn Síldarverksmiðja ríkisins falið að annast byggingu og rekstur verksmiðjunnar.“ — Þ.e. niðursuðuverksmiðjunnar. — „Í byrjun sjöunda áratugsins var starfsemi verksmiðjunnar loks hafin og hefur stjórn Síldarverksmiðja ríkisins haft rekstur hennar með höndum.“

Þetta sýnir betur og frekar en orð fá lýst, hvílíkur seinagangur hefur verið á þessum málum undir forsjá ríkisins. Þetta er gott dæmi um það, hve óheppilegt það er venjulega, að ríkisvaldið og ríkið hafi með höndum atvinnurekstur, þar sem á þarf að halda áhuga og framtaki og krafti til þess að koma hlutum í framkvæmd. Það er því ekki að ófyrirsynju, að við hv. 2. þm. Reykv. skrifum undir þetta nál. með fyrirvara, með því að við teljum, að það hefði verið eðlilegra og betra að stofna hlutafélag. Með því móti hefði verið betur hægt að virkja almennan áhuga almennings á Siglufirði fyrir framgangi þessa máls, og það hefði gengið frekar til móts við vilja og óskir starfsmanna verksmiðjunnar að gefa þessu fólki kost á því að gerast eignaraðilar að verksmiðjunni, en í 5. gr. frv. er þó kveðið svo á, að starfsfólk verksmiðjunnar tilnefni einn mann í stjórn verksmiðjunnar.

En þó að við hv. 2. þm. Reykv. höfum ekki lagt fram brtt. nú við þetta frv., þá væntum við þess, að það gefist síðar betra tækifæri til að betrumbæta mál þetta.