27.04.1972
Neðri deild: 67. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1388 í B-deild Alþingistíðinda. (1078)

169. mál, lagmetisiðja ríkisins í Siglufirði

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fylgja þessu frv. úr hlaði hér í Nd. með löngu máli. Þetta frv. hefur legið fyrir hv. Ed. um alllangt skeið, og ég geri ráð fyrir, að þm. þessarar d. hafi bæði kynnt sér málið og fylgzt með afgreiðslu þess í Ed. Þar voru gerðar á því nokkrar minni háttar breytingar, en það var að lokum samþ. þar einróma, og ég vænti þess, að einnig hér takist samstaða um þetta mál.

Meginefni frv. er það, að niðursuðuverksmiðja ríkisins í Siglufirði verði gerð að sjálfstæðu fyrirtæki og sett undir sérstaka stjórn. Þetta fyrirtæki hefur frá því 1947 verið undir Síldarverksmiðjum ríkisins, en ég hygg, að það sé samdóma álit allra, að sú tilhögun sé ekki lengur æskileg eða skynsamleg og sjálfsagt sé orðið, að þetta fyrirtæki hafi sérstaka stjórn. Og það er gert ráð fyrir því þarna í 3. gr., að ríkið taki við verksmiðjuhúsi Síldarniðursuðuverksmiðju ríkisins með skuldajöfnun milli ríkissjóðs og Síldarverksmiðja ríkisins. Þá er það nýmæli í frv., að gert er ráð fyrir, að ríkissjóður leggi fram 15 millj. kr. til að fullkomna vélakost verksmiðjunnar og til að tryggja eðlilegan rekstur hennar, og er þar um að ræða mjög nauðsynlegt ákvæði einnig, vegna þess að til þess er ætlazt, að verksmiðjan annist tilraunastarfsemi á þessu framleiðslusviði undir leiðsögn Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins og miðli reynslu og þekkingu til annarra framleiðenda.

Ég vil minnast á það, að síðustu árin hefur þessi verksmiðja stóraukið framleiðslu sína og er orðin næsta mikilvæg á okkar mælikvarða. Árið 1970 flutti hún út niðurlagðar vörur fyrir 38 millj. Á síðasta ári flutti hún út vörur fyrir nær 80 millj. og vonir standa til, að á þessu ári aukist þessi útflutningur allverulega, því að verksmiðjunni hefur verið tryggt hráefni í 12 þús. tunnur, sem er meira magn en hún hefur haft áður, og það er búið að selja verulegan meiri hluta þess magns.

Eins og ég sagði áðan, varð samstaða um þetta mál í Ed., og ég vil leyfa mér að vænta þess, að málið fái jafngreiða fyrirgreiðslu hér í hv. Nd.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. iðnn. og til 2. umr: