27.04.1972
Neðri deild: 67. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1389 í B-deild Alþingistíðinda. (1079)

169. mál, lagmetisiðja ríkisins í Siglufirði

Pétur Pétursson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs fyrst og fremst til þess að þakka hæstv. iðnrh. fyrir að flytja þetta frv. og lýsa ánægju minni yfir því, að það skuli vera komið fram, fyrst og fremst vegna þess að ég geri mér grein fyrir því, hvað þetta mál allt hefur mikla þýðingu fyrir Siglufjarðarkaupstað og það fólk, sem þar býr. Þetta er auðvitað stórmál fyrir Siglufjörð, en það er líka stórmál fyrir þennan iðnað og þessa atvinnugrein, og hér er tekið á þessu máli af þeim stórhug, sem ég felli mig vel við. Ég tel, að eitt af því merkasta í þessu frv. sé það, að tilraunastarfsemi á að fara fram í þessari verksmiðju undir leiðsögn Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins og síðan á að miðla reynslu og þekkingu til annarra framleiðenda. Þetta hlýtur að koma öllum framleiðendum til góða, sem að þessum málum vinna í landinu, og þess vegna er hér um stórmál að ræða fyrir atvinnugreinina.

Það er auðvitað öllum ljóst, að niðursuðuiðnaður er búinn að vera hér á ferðinni í landinu í nokkra áratugi, en hann hefur ekki náð þeim vexti, sem hefði mátt gera ráð fyrir, þegar við athugum það, hvaða hráefni hér er notað og hvað hráefni til niðurlagningar og niðursuðu hér á Íslandi hlýtur að vera langtum betra heldur en víða eða víðast annars staðar. Það er því full ástæða til þess að taka myndarlega á þessum málum öllum saman, og hér sýnist mér það vera gert.

Sum mál eru að vísu ekki nefnd í þessu frv., en hæstv. ráðh. gat um þá þróun, sem hefði orðið síðustu árin, og einnig liggur hér fyrir þessari hv. d. frv. um sölustofnun niðursuðuiðnaðarins, sem ég álít, að sé mjög merkilegt frv. En ég get ómögulega stillt mig um að geta þess í leiðinni, að þó að ég sé öldungis sammála því að leggja miklar fjárhæðir til sölustarfsemi niðursuðuiðnaðarins, þá er til annar iðnaður í landinu líka, sem mér hefur fundizt, að væri svona fremur hálfgert olnbogabarn hér á hv. Alþ., ef ég man rétt frá fjárlagaafgreiðslunni í haust. En ég vil vona, að það mál verði líka leyst á álíka myndarlegan hátt og hér er að unnið.

Það verður að hafa það í huga líka, að nú má ekki verða stöðvun á framleiðslu þessarar verksmiðju á Siglufirði. Það hefur stundum orðið stöðvun og hún mjög alvarleg og m.a. þess vegna hefur þetta sífellda atvinnuleysi, landlæga atvinnuleysi, verið á þessum stað eins og fleiri stöðum í Norðurl. v. En undirstaða þess, að þetta mál geti tekizt og svo fyrir önnur fyrirtæki af svipuðum uppruna, er auðvitað tvö grundvallaratriði, annars vegar, að hráefnið sé til staðar, og hins vegar, að markaðir séu til staðar. Það að hafa markaði til staðar hlýtur að vera stórmál fyrir okkur Íslendinga, þegar við erum að hefja útflutning á iðnaðarvörum, þar með niðursuðuvörum, og ég vil vona, að það takist vel. Mér finnst eðlilegt og sjálfsagt, að ríkið hafi forustu þessara mála, eins og það gerir samkv. þessu frv., og því fagna ég, að það er komið fram.