03.11.1971
Neðri deild: 9. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1392 í B-deild Alþingistíðinda. (1091)

38. mál, gjaldþrotaskipti

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Frv. þetta var lagt fyrir Alþ. á s.l. vori, en varð ekki útrætt, enda var þá orðið áliðið þingtímans. Svo sem grein var fyrir gerð í framsögu fyrir frv. þá, er frv. fram borið til þess að verða við ábendingum um, að þörf sé á að fá greiðari meðferð gjaldþrotamála, og er þeim breyt., sem frv. gerir ráð fyrir, að gerðar verði á réttarfarsreglum um meðferð gjaldþrotamáta, ætlað að stuðla að skjótari og markvissari vinnubrögðum að því er varðar rannsókn á hugsanlegu sakhæfu atferli þrotamanns. Hin breytta meðferð snertir fyrst og fremst í raun meðferð þessara mála í Reykjavík, þar sem aðgreind dómsmálaembætti fara með skiptamálefni og sakamál. En einnig getur sú áherzla, sem hinar breyttu reglur frv. leggja á rannsóknarþátt meðferðarinnar, stuðlað að því, að almennt verði skjótar tekin afstaða til þeirrar hliðar málsins en verið hefur. En þar hafa einmitt um þessi efni komið fram réttmætar aths. frá ýmsum aðilum, m.a. frá Verzlunarráði Íslands. Hinu er ekki að leyna, að vandamál um greiða afgreiðslu gjaldþrotamálefna eru ekki sízt spurning um mannafla við þau embætti, sem um þau mál fjalla. En mál þessarar tegundar krefjast oft umfangsmikilla bókhaldsathugana, sem embættin eiga erfitt með að anna. Starfsliðsaukning er hins vegar á öllum sviðum vandamál, sem nálgast verður með mikilli gát, og veit ég, að það þarf ekki að hafa mörg orð um það efni hér.

Auk áðurnefndrar skipulagsbreytingar á framkvæmd gjaldþrotarannsókna gerir frv. ráð fyrir þeirri grundvallarbreytingu, að afstaða sé tekin fyrr og í framhaldi af frumathugun skiptaréttar til þess af hálfu ákæruvalds, hvort ástæða sé til sakamálsmeðferðar og þar með afnumin sú regla núgildandi laga, að ávallt skuli fylgja gjaldþroti sakamálsrannsókn. Með þessu getur sparast óþörf tímaeyðsla og tímatöf í fjölmörgum tilfellum, þar sem staðreyndir liggja ljóst fyrir, en ekki verður tilefni til frekari aðgerða. En eins og lögin eru nú, þá skal hefja sakamálsrannsókn af því einu, að maður verður gjaldþrota. Oft er það að vísu svo, að það er um misferli að ræða í sambandi við slíkt, en þó engan veginn alltaf. Það er nú almenn regla í okkar rétti, að til sakamálsrannsóknar á ekki að koma, nema fyrir liggi rökstuddur grunur um misferli hverju sinni. Af þessum sökum, að þetta hefur nú verið í lögum eins og það er, þá hefur sumpart af því kannske sprottið tímatöf og kostnaður, en sumpart kannske leitt til þess, að þetta hefur orðið í sumum tilfellum æðimikið dauður bókstafur. En til sakamálsrannsóknar á að sjálfsögðu ekki að grípa, nema tilefni sé til hennar hverju sinni.

Í 4.–6. gr. þessa frv. eru gerðar nokkrar minni háttar breyt. með hliðsjón af fenginni reynslu. Í þessu frv. er nú ekki farið lengra í breyt. á gjaldþrotaskiptalögum, það er aðeins tekinn þarna einn þáttur og gerðar á honum vissar lagfæringar, en hinu er ekki að leyna, að það væri út af fyrir sig þörf á heildarendurskoðun á gjaldþrotalöggjöfinni og skiptalöggjöfinni, því að þótt gjaldþrotalögin séu að formi til frá 1929, er öll þessi löggjöf orðin æðigömul. eða frá því frá árunum milli 1880 og 1890, og þess vegna ekki að undra, þegar litið er til þeirra breytinga, sem átt hafa sér stað á sviðum þjóðlífsins síðan og ekki sízt á því sviði, sem þessi löggjöf snertir, að þörf væri orðin breytinga þar á. Og það er von mín, að það verði unnt að efna til slíkrar heildarendurskoðunar á þessari löggjöf, skiptalöggjöfinni, og þar með gjaldþrotalögunum.

Þessu frv. fylgja allítarlegar aths., m.a. við einstakar gr., þar sem gerð er grein fyrir efni þess og í hverju breyt. eru fólgnar, og ég tel nú þess vegna ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál á þessu stigi, en vil leggja til, herra forseti, að málinu verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. allshn.