09.02.1972
Neðri deild: 39. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1401 í B-deild Alþingistíðinda. (1127)

159. mál, lífeyrissjóður bænda

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Lög um lífeyrissjóð bænda hafa nú verið í framkvæmd um rúmlega eins árs skeið. Þegar þessi lög voru undirbúin og frv. um lífeyrissjóð bænda samið, þá gerðu menn sér grein fyrir því, að það var mjög vandasamt verk, og rétt er það, sem hæstv. landbrh. sagði, að þessi lög eru sniðin að nokkru eftir lífeyrissjóðslögum bænda á Norðurlöndum, í Finnlandi og Noregi þó aðallega, og var reynt við samningu frv. að taka það bezta úr gildandi lögum á Norðurlöndum um þetta efni. Menn gerðu sér alltaf grein fyrir því, að í framkvæmdinni mundu koma fram ýmsir agnúar, sem þyrfti að sníða af, og reyndin hefur orðið sú. Stjórn lífeyrissjóðs bænda hefur þess vegna lagt til, að gera breytingar á lögunum til þess að gera þau auðveldari í framkvæmd og til þess að fá samræmi við það, sem gerzt hefur í sambandi við lífeyrissjóðsbætur til annarra stéttarfélaga. Ég tel, að þetta frv. sé mjög sanngjarnt, og tel það vei. að komið er til móts við óskir stjórnar lífeyrissjóðs bænda í þessu efni.

Hæstv. landbrh. hefur lýst þeim breytingum, sem þetta frv. hefur í för með sér, og er ástæðulaust að endurtaka það. Það er augljóst, að það er til bóta. Þegar lögin voru sett, var ákveðið, að þau skyldu endurskoðuð fyrir árslok 1972. Í sjálfu sér var það ákvæði óþarft, því að eðlilegt er, að stjórn lífeyrissjóðsins, sem hefur með framkvæmdina að gera, láti uppi óskir um eðlilegar og nauðsynlegar breytingar. Það hefur verið gert að þessu sinni og hæstv. ráðh. flutt þetta frv. og mælt með, að orðið verði við óskum sjóðsstjórnarinnar, og það tel ég vel farið.