27.04.1972
Neðri deild: 67. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1406 í B-deild Alþingistíðinda. (1132)

159. mál, lífeyrissjóður bænda

Frsm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur haft þetta frv. til meðferðar, og eins og nál. ber með sér, leggur n. til, að frv. verði samþ. óbreytt, þó þannig, að tveir nm., Ásberg Sigurðsson og Matthías Á. Mathiesen, áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt.

Ég vil aðeins rifja það upp, að ákvæði þau um sérstök lífeyrisréttindi aldraðra bænda, sem eru í 17. og 18. gr. laga um lífeyrissjóð bænda, voru samþ. með hliðsjón af ákvæðum laganna frá 1970 um eftirlaun til aldraðra félaga í stéttarfélögum. Með lögfestingu þessara lífeyrissjóðsréttinda til handa bændum var viðurkennt það sjónarmið fulltrúa samtaka bænda, að eðlilegt hlyti að vera, að bændur nytu í þessum efnum hliðstæðra framlaga af almannafé og launþegum innan ASÍ höfðu verið tryggð í sambandi við samkomulag launþega og vinnuveitenda 19. maí 1969.

Svo er það með lögum frá 1971, sem komu í stað laganna, sem ég nefndi áðan, 1970, að gerðar eru ýmsar breytingar á lögum um eftirlaun aldraðra félaga í stéttarfélögum. Og það er í tilefni af þeim breytingum, sem þetta frv. er flutt hér, til þess að samræma ákvæði laga um lífeyrissjóð bænda þessum breyttu ákvæðum um eftirlaun til aldraðra félaga í stéttarfélögum. Það kom til tals í fjhn., hvort ástæða væri til að taka inn í þessar breytingar ákvæði um sérstakar örorkubætur.

En það er af tveimur ástæðum, að meiri hl. n. gat ekki á það fallizt. Annars vegar er nú það, að þessi lög um lífeyrissjóð bænda ber að endurskoða þegar á þessu ári. Þeirri endurskoðun á að vera lokið fyrir árslok 1972, og ef hún þykir gefa tilefni til breytinga, þá á hún að liggja fyrir næsta Alþ. Það er þess vegna að dómi meiri hl. nm., þ.e. annarra en þeirra, sem ég tilgreindi, ekki ástæða til þess að gera nú aðrar breytingar heldur en þær, sem eru beint til samræmingar við þær breytingar, sem gerðar hafa verið á lögum um eftirlaun til aldraðra félaga í stéttarfélögum. En svo er einnig vert að benda á það, að þessar breytingar, sem hér eru ráðgerðar á lögum um lífeyrissjóð bænda, eru eingöngu við II. kafla laganna, sem samsvarar lögum um eftirlaun aldraðra félaga í stéttarfélögum. En í þeim lögum eru alls engin ákvæði um örorku, alls engin. Og eins og hv. alþm. er ljóst, þá eru þessi sérstöku tilvik, sem fjallað er um í II. kafla laganna um lífeyrissjóð bænda og í lögum um eftirlaun til aldraðra félaga í stéttarfélögum, þá er þar um sérstök ákvæði að ræða, sem m.a. skera sig frá almennri starfsemi lífeyrissjóðanna á þann hátt, að fjár er ekki aflað með iðgjöldum heldur með beinum framlögum, þ.e. hjá bændum frá ríki og stofnlánadeild og hjá öldruðum félögum í stéttarfélögum frá Atvinnuleysistryggingasjóði og ríkissjóði, svo að þarna er um algera sérstöðu að ræða.

Ég skal ekki orðlengja þetta frekar, herra forseti, en við leggjum til, að frv. verði samþ. óbreytt.