03.05.1972
Neðri deild: 68. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1411 í B-deild Alþingistíðinda. (1138)

159. mál, lífeyrissjóður bænda

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég hef ekki skipt mér af þessu máli hingað til. Þessir hv. þm., sem hér eru nú að deila, voru baráttubræður fyrir þessu fræga frv. í fyrra og stóðu þá eins og veggur saman. Ég talaði nú á móti þessum lífeyrissjóðslögum bænda þá og er satt að segja ekkert hissa, þótt eitthvað þurfi að laga, því að þetta var eitthvert það aumasta frv., sem ég hef séð. Það var ómögulegt að skilja það. Ég er því ekkert hissa, þótt þeir fari nú að deila um það, þessir ágætu menn.

Ég flutti þáltill. um að endurskoða allt þetta kerfi. Sannleikurinn er sá um lífeyrissjóð bænda, að hann er ekkert vitlausari en lífeyrissjóðir launamanna almennt, það eru eitthvað um 36 þús. meðlimir í Alþýðusambandinu og þeir verða allir að borga 10% af launum sínum í svo kallaðan lífeyrissjóð og bændur líka, þannig að þarna eru alls yfir 40 þús., og þetta er tvöfalt kerfi. Það á að taka 10 eða í 1% af kaupi þessara manna og leggja í sjóð. Þar að auki borga þeir í gegnum almannatryggingarnar, sem ríkið er nú búið að taka að sér í bili, hversu lengi sem það verður, og það er varið til trygginga um 51/2 milljarði nú, og af því er gert ráð fyrir að fari til lífeyristrygginganna rúmir 3 milljarðar. Það sjá allir menn, að þarna er komið yfir 20%, og það er allt að því tvöfalt hærra en gerist í nágrannalöndum okkar. Ef þessu fé væri ekki á einhvern hátt náð af öðrum aðilum, þá ætti lífeyrir að verða svona 30–40% hærri en venjuleg vinnulaun eru meðan menn hafa fullt starfsþrek.

Nú eru þessir hv, þm. að deila um það, hvort menn eigi að fá örorkustyrk, ef þeir hafa misst 40% af vinnuþreki sínu, og eftir hvað marga mánuði þeir eiga að fá hann eftir að þeir byrjuðu að greiða þessi iðgjöld. Ég held, að þetta verði nú dálítið erfitt í framkvæmd allt saman. Ég hygg, að flestir bændur, sem eru komnir yfir sextugt, séu ekki meira en hálfir menn til verka og efast ég um, hversu mikið réttlæti verður í þessu. við vitum um þessar örorkutryggingar hjá hinum almennu tryggingum, að það er víst langt frá því, að þar sé alls staðar fullkomið réttlæti. Það eru ýmsir, sem fá ekki örorkubætur, sem ættu þær frekar skilið heldur en einstakir aðilar, sem fá þær. Það er eftir því, hvernig róið er á miðunum, hvernig það tekst að fá þessar örorkubætur.

Ég ætla að leiða þessa deilu hjá mér, en eðlilegast er að endurskoða allt þetta kerfi og gera þetta allt einfalt. Í Noregi t.d. þurfa bændur að borga 7.8% af nettótekjum sínum til trygginganna og einstaklingarnir borga eiginlega allar tryggingarnar þar, ríkið ekkert, sveitarfélögin sama og ekki neitt af þessum almenna lífeyri, og ætli það væri ekki hagstæðara fyrir íslenzka bændur, ef þeir þyrftu ekki að borga nema 7.8% af nettótekjum sínum og ekkert í gegnum ríkiskerfið. Ég er hræddur um, að það yrði ólíkt eða nú er, því að þeir þurfa að borga 11%, og þó er engin sönnun fyrir því, að þeir hafi þetta kaup, sem reiknað er. Þeir þurfa að borga 4% af brúttótekjum, því að þó að sagt sé, að neytendur eigi að borga hluta af því, þá er það ekkert nema vitleysa, því að við seljum yfirleitt vörurnar eins hátt og við getum selt þær og hagkvæmt er að selja þær fyrir, enda ekki nokkurt réttlæti, að neytendur fari að borga bæði í lífeyrissjóði fyrir sig og þar að auki fyrir bændur, enda þekkist slíkt hvergi. Finnar eru þeir einu, sem hafa lífeyrissjóð fyrir bændur sérstaklega, og þar er lagt á fasteignir að hálfu leyti og ríkið borgar helming.

Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta. Ég sé ekki annað en það sé verið að deila um keisarans skegg. Það á að endurskoða lögin að ári og ég vona, að þetta tryggingakerfi verði allt endurskoðað. Ég held nú, að sá ráðh„ sem hefur með þessi tryggingamál að gera, sé það víðsýnn, að hann muni sjá það, að það er hagkvæmara að hafa þetta kerfi einfalt, bæði hagkvæmast og sanngjarnast. En að hafa tvöfalt kerfi fyrir örorkubætur og lífeyri fyrir svo að segja alla landsmenn, og í sumum tilfellum eru sjúkratryggingarnar þrefaldar, — ýmis félög hafa sérstaka sjúkratryggingasjóði, - það held ég, að sé ákaflega spaugilegt. Sannleikurinn er sá, að ég hef ekki trú á, að vel verði farið með þetta fé. Mér er t.d. sagt, að sumir menn, sem sjá um þessa lífeyrissjóði nú, séu farnir að kaupa hlutabréf og séu í vandræðum með, hvernig eigi að tryggja þessa peninga. Svo mun nú koma upp mesta deila um það, hverjir eigi að ráða endanlega yfir þessum sjóðum. Ríkisvaldið vill ná í sem mest af þessum sjóðum til að geta lánað það í ýmsar framkvæmdir, og þeir, sem sjá um rekstur á þessum sjóðum, eru stjórnarformenn og annað slíkt, þeir vilja ráða yfir þessu fé. Sumt af þessu týnist sjálfsagt og það verður eitthvað skrýtið, þegar þetta fer að safnast saman og verða fleiri tugir milljarða. Ég held, að það verði eitthvað skrýtið, ef þetta kerfi verður látið vara lengi. Ég hef talað við tryggingafræðing um þessi mál, og hann undrast alveg, hvernig frá þessum lögum er gengið með lífeyrissjóði launþega eða félaga Alþýðusambands Íslands og eins lífeyrissjóði bændasamtakanna, þannig að ég held, að það hljóti að því að reka fyrr eða síðar, að þessu verði breytt og þetta verði gert einfaldara og heilbrigðara heldur en nú er.