03.05.1972
Neðri deild: 68. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1412 í B-deild Alþingistíðinda. (1139)

159. mál, lífeyrissjóður bænda

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Þegar ég gerði grein fyrir þessu frv. hér í hv. d., þá skýrði ég frá því, að hér væri um að ræða að gera þær breytingar á lögum um lífeyrissjóð bænda, að fellt verði til samræmis við það, sem hefði verið gert á lífeyrissjóðum stéttarfélaganna. Þetta frv. var samið á vegum þeirra, sem stjórna sjóðnum og samtökum bænda, og engin breyting á því gerð í rn. og það flutt að öllu leyti eins og þeir óskuðu eftir því. Ég hafði því vonazt til þess, að þetta mál færi hér í gegnum þessa hv. d. og gegnum báðar þd., án þess að væri farið að gera á því breytingar eða blanda inn í það nýjum atriðum.

Það er alveg ljóst, eins og fram kom hjá hv. 1. flm. till., hv. 5. þm. Norðurl. v., að það eru uppi margar óskir, sem menn gætu bætt hag sinn með, og svo má vera með þetta, sem hér er lagt til. En ýmislegt af því verðum við að geyma til betri tíma eða seinni tíma, og ég taldi, að þær óskir, sem væru uppi og réttmætar væru, væru teknar inn í frv., enda ekki óskað eftir meiru af þeirra hendi, sem fyrir málinu standa. Ég vil líka benda á, að það er gert ráð fyrir því að endurskoða þessi lög. Það átti að gera það á þessu ári, en þar sem það var ekki talið tímabært af þeim, sem bezt þekktu, þá biður það næsta árs eða þar næsta og þess vegna finnst mér óþarfi að vera að koma með brtt. inn í þetta frv., enda þótt það mætti færa að því rök, að það gæti orðið þeim í hag, sem þarna er verið að fjalla um. Ég mundi því eindregið óska eftir því við hv. d., að hún afgreiddi frv. alveg óbreytt. Það er í samræmi við það, sem um var beðið með flutningi málsins, og ég sé ekki ástæðu til, að lengra verði gengið.

Ég vil líka minna á það, og ég vil mjög brýna það fyrir hv. þm. þessarar d. að fara að koma málinu til hv. Ed., vegna þess að það þarf að fara að hraða afgreiðslu þess. En ef ætti að fara að gera á því breytingu, sem ég t.d. hef ekki haft tíma til að athuga og bera undir aðra aðila, hvernig fellur að lífeyrissjóðakerfinu almennt, þá held ég, að það væri sízt til bóta fyrir þá löggjöf, sem hér er verið að fjalla um. Þess vegna endurtek ég það, að ég treysti hv. d. til þess að afgreiða frv. óbreytt.