03.05.1972
Neðri deild: 68. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1414 í B-deild Alþingistíðinda. (1141)

159. mál, lífeyrissjóður bænda

Frsm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umr. mikið. Ég vil þó segja það, að ég saknaði þess, að hv. 1. flm. brtt. skyldi ekki árétta það hér, til þess að taka af öll tvímæli um það, hvort það vakir fyrir honum eða ekki, að menn skuli hafa öðlazt réttindi til örorkubóta úr lífeyrissjóði bænda, þó að þeir hafi orðið fyrir orkutapinu, áður en lögin öðluðust gildi, því að þannig var að skilja ummælin við 2. umr. Mér finnst, að það væri ástæða til þess, að þetta kæmi alveg skýrt fram hér, hvað fyrir flm. vakir um það, því að ef það væri ætlunin, þá væri það enn til viðbótar því, sem ég hef bent á, í æpandi ósamræmi við það, sem er í hinum lífeyrissjóðunum. Ég er nú ekki alveg viss um, hvort hv. flm. hefur gert sér alveg ákveðna grein fyrir þessu atriði, þó að hann talaði þannig við 2. umr. Og mér heyrðist á honum áðan, að hann væri heldur ekki alveg viss um, hvort menn öðlast rétt til örorkubóta, ef þeir missa örorku á þeim vikum eða mánuðum, sem ákvæði laganna nú og ákvæði t.d. reglugerðarinnar um lífeyrissjóð Dagsbrúnar telja biðtíma. Mér finnst þetta hvort tveggja benda til þess, að við þurfum að athuga þennan þátt örlítið nánar, áður en farið er af stað með breytingu á þessu ákvæði í þá stefnu, sem fer alveg þvert á hliðstæð ákvæði í hliðstæðum lögum og reglum.

Það má vera, að ég hafi ekki gert alveg nákvæma grein fyrir þeim mismun, sem er á biðtíma í lögum um lífeyrissjóð bænda nú, og þeirri reglugerð og því frv., sem ég vitnaði til, því að þar er ekki alveg nákvæmlega sami biðtími. En það er hliðstætt að því leyti, að biðtíminn skiptir mánuðum í öllum þessum tilvikum. Og með þeirri breytingu, sem hér er verið að gera, er síður en svo verið að færa til samræmis, því að þá ætti að lengja biðtímann, heldur til enn þá meira ósamræmis. Ég get að því leyti tekið undir með hv. 3. þm. Norðurl. v., að það er vissulega margháttað ósamræmi í okkar lífeyrismálum, sem þyrfti að leiðrétta. En svona breytingar eru ekki til þess fallnar að leiðrétta ósamræmi, heldur til þess að auka það.

Það er ekki ástæða til þess að ræða um einstök hugsanleg tilvik í sambandi við ákvæði eins og felst í þessari brtt. En það má benda á það, að ef hún væri samþ. og í þeim skilningi, sem ég gat ekki annað en lesið út úr ummælum hv. 1. flm. við 2. umr. málsins, að menn ættu að öðlast réttindi, þó að þeir yrðu fyrir orkutapinu, áður en sjóðurinn yrði stofnaður, ef samþykkt er ákvæði, sem felur það í sér, þá er vissulega sá möguleiki fyrir hendi fyrir mann, sem orðið hefur fyrir orkutapi, að berast bóndi og öðlast þá um leið réttindi til fullra örorkubóta frá þeim tíma, sem hann sem bóndi byrjaði að greiða til sjóðsins. Þessi möguleiki er fyrir hendi, ef ætti að skilja ákvæðið þannig.

Ég vil svo bara árétta það, sem ég sagði áðan, að mér finnst það alveg fráleitt, að fara að rjúka til þess núna, um það bil hálfu ári áður en endurskoðun laganna á að ljúka, að breyta ákvæði sem þessu, þegar breytingin þar að auki gengur í þá átt að auka á misræmi á milli skyldra lífeyrissjóða.