15.11.1971
Neðri deild: 13. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í B-deild Alþingistíðinda. (119)

19. mál, mat á sláturafurðum

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Frv. á þskj. 19 var flutt í hv. Ed., og er til staðfestingar á brbl. frá 19. maí 1971, sem er breyt. á l. nr. 30 frá 1966, um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum.

Ástæðan til þess, að þessi brbl. voru gefin út, var sú, að heimild til þess að veita undanþágu frá lögunum um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum var úr gildi fallin, en nauðsyn bar til að framlengja þetta ákvæði laganna, þar sem ljóst er, að nú eru um 60 sláturhús í notkun á landinu, sem starfa skv. undanþágu, en aðeins 5 sláturhús eru hér á landi, sem hafa leyfi skv. lögunum og uppfylla þau skilyrði, er lögin gera ráð fyrir.

Með þessu lagafrv., sem hér er lagt fyrir hv. Alþ., er gert ráð fyrir, að framlengja megi heimildina til 1973, en þó er gert ráð fyrir, að aðeins verði um framlengingu að ræða til eins árs. Þetta frv. fór í gegnum hv. Ed., án þess að deildin skiptist um það, og ég vona, að svo verði einnig hér í þessari hv. deild.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að umr. lokinni, vísað til 2. umr. og hv. landbn.