04.05.1972
Efri deild: 76. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1424 í B-deild Alþingistíðinda. (1197)

9. mál, sameining Borgarfjarðarhrepps og Loðmundarfjarðarhrepps

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Í Loðmundarfjarðarhreppi í Norður-Múlasýslu mun nú ekki vera nema einn íbúi. Það liggur í augum uppi, að ekki er auðið að halda uppi starfsemi sveitarfélags, þegar íbúafjöldi er ekki meiri en þetta. Þetta hefur mönnum verið ljóst um nokkurt árabil og hafa því verið gerðar till. um að sameina Loðmundarfjarðarhrepp öðru sveitarfélagi á Austurlandi.

Fyrir eitthvað tveimur árum var hér á þingi fjallað um frv., þar sem gert var ráð fyrir að sameina Loðmundarfjörð Seyðisfjarðarkaupstað. Nokkuð voru skiptar skoðanir þá um það, hvort það væri eðlileg skipan að leggja Loðmundarfjörð undir Seyðisfjarðarkaupstað, og því máli lyktaði þannig hér á þingi, að óskað var fyllri umsagnar sýslunefndar Norður-Múlasýslu um málið, áður en það yrði endanlega afgr. Svo fór þá, að þessi umsögn barst ekki í tæka tíð, og varð málið því ekki útrætt að því sinni.

Nú hefur hreppsnefnd Borgarfjarðarhrepps fallizt á og farið þess á leit, að með lögum verði ákveðið að sameina Borgarfjarðarhrepp og Loðmundarfjarðarhrepp í Norður-Múlasýslu, og er ekki annað kunnugt en sýslunefnd muni fyrir sitt leyti vera því meðmælt. Af þessu tilefni er þetta frv. fram borið. Það var flutt í hv. Nd. snemma á þessu þingi, en það hefur tekið mjög langan tíma að fá það endanlega afgr. frá hv. Nd. En þrátt fyrir það, þó að nú líði bráðum að þinglokum, þá vil ég vænta þess, að þessi hv. d. hraði þannig afgreiðslu þessa frv., að það geti fengið fullnaðarafgreiðslu á þessu þingi, og vil ég sérstaklega beina þeim tilmælum til þeirrar n., er tekur málið til athugunar, að hún hafi þetta í huga.

Að svo mæltu legg ég til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.