12.05.1972
Efri deild: 79. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1425 í B-deild Alþingistíðinda. (1200)

9. mál, sameining Borgarfjarðarhrepps og Loðmundarfjarðarhrepps

Frsm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur haft frv. til umsagnar á þskj. 693, sameining Borgarfjarðarhrepps og Loðmundarfjarðarhrepps í Norður-Múlasýslu í einn hrepp. Málið er komið frá hv. Nd., og mælir hún einróma með samþykkt frv. í formi því, sem Nd. afgreiddi það í.

Það er óþarft að rekja hér nauðsyn þess að sameina Loðmundarfjarðarhrepp öðru sveitarfélagi á Austurlandi, því að það hefur þegar verið rætt í framsögu.

Það skal aðeins tekið skýrt fram, að ekki er annað vitað en að um þessa skipan mála séu viðkomandi aðilar ásáttir, jafnt Borgfirðingar sem burtfluttir Loðmfirðingar, sem þarna eiga nokkurra hagsmuna að gæta, og síðast en ekki sízt sá eini íbúi Loðmundarfjarðarhrepps, sem nú öðlast á ný þau sjálfsögðu mannréttindi að fá að neyta kosningarréttar síns, sem hann ekki náði á síðastliðnu vori.

Heilbr.- og félmn. mælir einróma með samþykkt frv.