20.03.1972
Neðri deild: 54. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1430 í B-deild Alþingistíðinda. (1222)

222. mál, læknaskipunarlög

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Eins og hv. alþm. er kunnugt, hefur að undanförnu staðið yfir heildarendurskoðun á heilbrigðislöggjöfinni og frv. um breyt. á henni er svo langt komið, að það er í prentun nú og verður væntanlega lagt fyrir Alþ. mjög fljótlega.

Hins vegar er þar um svo veigamikið frv. að ræða, að ég tel ekki rétt, að það verði afgreitt á því þingi, sem ní situr. Ég tel, að bæði þm. og fulltrúar héraðanna verði að fjalla gaumgæfilega um það, og legg það því fram nú til að kynna það fyrst og fremst, en hef hugsað mér hins vegar að fara fram á það, að það yrði afgreitt mjög snemma á þinginu í haust, þannig að hægt verði að hafa mið af því við afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár.

En þar sem þessi vinnubrögð verða viðhöfð, þá hef ég leyft mér að bera hér fram frv. til I. um breyt. á læknaskipunarlögum, sem felur í sér takmarkaðri breytingar, en hins vegar breytingar, sem ég tel nauðsynlegt, að verði lögfestar á þessu þingi. Þar um að ræða fyrst og fremst breytingar, sem eiga að miða að því að bæta úr því vandræðaástandi, sem víða er í strjálbýlum héruðum með að fá þangað lækna. Þetta er mjög erfitt ástand, eins og menn vita, og þeir erfiðleikar hafa staðið lengi. Þeir voru einna erfiðastir á síðasta hausti, en sem betur fer hefur þar rætzt allvel úr, vegna þess að læknar hér á þéttbýlissvæðinu hafa tekið ákaflega vel beiðni heilbrigðisyfirvalda um að taka að sér störf úti í héruðunum og hafa þar tekið við verkefnum í skamman tíma, einn af öðrum.

Hins vegar þarf að tryggja það, að þetta ástand verði viðráðanlegra á næsta hausti, og það er tilgangurinn með þessu frv., sem hér liggur fyrir, að búa í haginn fyrir, að svo megi verða.

Fyrsta atriðið í þessu frv. er heimildarákvæði þess efnis, að heilbrmrh. sé heimilt í samráði við fjmrn. að stofna við ríkisspítalana allt að sex sérstakar læknisstöður, sem bundnar séu skilyrðum um ákveðna þjónustu í héraði. Hér er um að ræða till., sem upphaflega kom frá Læknafélagi Íslands og sem allmikið hefur verið rætt um. Þegar ég kynntist þessum till. fyrst á síðasta hausti, þá virtust mér þær ekki vera raunsæjar, miðað við ástandið, eins og það var hér heima, því að þannig hefur verið ástatt, að það hefur verið læknaskortur einnig hér og einnig við sjúkrahúsin, þannig að t.d. kandidatastöður hafa ekki verið fylltar og í þeim hafa víða verið stúdentar.

Hins vegar virðast mér stöður af þessu tagi geta hentað ákaflega vel í sambandi við íslenzka lækna, sem dveljast erlendis. Fjöldi þeirra er nú á annað hundrað, og við þurfum að kappkosta að fá sem flesta þessa lækna til að koma hingað heim og taka þátt í framkvæmd heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Og einmitt stöður af þessu tagi, eins og ég var að minnast á, við ríkisspítalana, geta hentað ákaflega vel sem eins konar millistig fyrir þessa lækna. Ég ræddi þessi mál sérstaklega við íslenzku læknana í Svíþjóð, þegar ég hafði tvo fundi með þeim í janúarmánuði, og kynnti þeim sérstaklega þessar hugmyndir, og mér virtist undirtektir þeirra þannig, að það mætti gera sér vonir um, að þeir tækju að sér einmitt störf af þessu tagi. Ekki sízt ungir læknar, sem eru að ljúka námi og þurfa að ljúka við að skrifa ritgerðir sínar, þá væri þarna um að ræða eins konar náms- og rannsóknarstöður við spítalana, en jafnframt með þeirri skuldbindingu, að þeir, sem í störfunum væru sinntu störfum úti í héruðunum, t.d. helminginn af ráðningartíma sínum.

Í 2. gr. frv. er felld niður hámarkstala héraðshjúkrunarkvenna. Í gildandi lögum er það bundið við sex hjúkrunarkonur. Ég verð að viðurkenna, að ég hef brotið þessi lög allharkalega. Héraðshjúkrunarkonur eru nú 14 talsins, þar af tvær ljósmæður, og eins og ástandið hefur verið tel ég, að það sé algjörlega óhjákvæmilegt að fjölga þeim eða hafa ekki þak á þessari tölu yfir héraðshjúkrunarkonur. Störf þeirra eru ákaflega mikilvæg. Ekki aðeins hér á landi, heldur einnig t.d. í strjálbýlum löndum í nágrenni okkar, þá hafa héraðshjúkrunarkonur gegnt ákaflega mikilvægu hlutverki, og mér er kunnugt um það, að bæði í Noregi og Svíþjóð eru þær taldar hreinlega læknis ígildi á ýmsum stöðum. Og þarna er einnig ákvæði um það, að laun þeirra verði greidd að fullu úr ríkissjóði, ef ekki er um lækni að ræða í héraði, en það hefur hingað til átt að vera þannig, að sveitarstjórnirnar eða heimamenn greiddu 1/3 af launum þeirra, en þeir hafa eðlilega sagt, að það væri verið að bæta gráu ofan á svart, ef þeir ættu að greiða aukakostnað af því að hafa ekki lækni. Þetta hefur verið framkvæmt á þann hátt að undanförnu, sem er í þessum lögum, en að sjálfsögðu er rétt að þessi ákvæði yrðu í lögunum sjálfum.

Þriðja atriðið er heimild til þess að veita læknanemum ríkisstyrki til náms gegn skuldbindingum um læknisþjónustu í strjálbýli að loknu námi. Nú um skeið hefur verið það ákvæði í lögum, að heimilt hefur verið að veita læknanemum sérstök lán með skuldbindingum um læknisþjónustu í héraði. Þessi ákvæði hafa verið næsta haldlítil nú um skeið, hér hefur verið um lág lán að ræða, um 80 þús. kr., og það hefur færzt mjög í vöxt að undanförnu, að menn hafa hreinlega endurgreitt þessi lán og alls ekki gegnt þeirri þjónustu, sem til var ætlazt.

Ég hef haft samband við Félag læknanema um breytingu á þessu atriði og spurt þá hreinlega, hvaða fyrirkomulag þeir gætu hugsað sér til að stuðla að því, að þeir tækju að sér meiri störf í héruðunum að loknu námi. Og það fyrirkomulag, sem hér er gert ráð fyrir, er ákveðið í fullu samráði við Félag læknanema. Eins og menn sjá af reglugerð, sem prentuð er hér sem fskj., er gert ráð fyrir því, að hægt sé að veita læknanemum námsstyrki, sem nemi allt að 200 þús. kr. á ári, og gegn hverjum slíkum styrk eru menn skuldbundnir til að starfa eitt ár í héraði.

Þetta getur verið býsna mikilvægt fyrir læknanemana sjálfa einnig. Kunnugt er, að á síðasta hluta námsins hafa þeir möguleika á að taka að sér allmikil störf. Það er sótzt eftir þeim til starfa, en stundum leiðir það til þess, að námstími þeirra verður lengri en þyrfti að vera. Með því að eiga kost. á styrk af þessu tagi, mundi námstími þeirra geta stytzt að sama skapi, þeir gætu einbeitt sér að náminu og af því mundi hljótast þjóðfélagslegur sparnaður, auk þess sem til kæmi þessi aukna þjónusta í héruðum, sem ráð er fyrir gert.

Mér hefur verið það mikið ánægjuefni, að læknanemar hafa tekið þessum hugmyndum á ákaflega jákvæðan hátt og látið í ljósi vaxandi áhuga á því að starfa þannig í strjálbýlinu, og raunar hefur mér virzt, að það sé að verða hugarfarsbreyting núna, bæði hjá læknanemum og hjá ungum læknum. Þeir gera sér grein fyrir því, að heimilislækningar eru ákaflega veigamikill hluti læknisþjónustunnar, og vonandi er, að þetta viðhorf verði í sókn eftirleiðis, því að við þurfum mjög á því að halda á okkar landi, að menn átti sig á því, að læknisþjónusta utan sjúkrahúsa er ákaflega mikilvæg og að henni er auk þess mjög mikill þjóðfélagslegur sparnaður.

Ég vil vænta þess, að hv. alþm. taki þessum till. vel, og legg til, að frv. verði að lokinni umr. vísað til hv. heilbr.- og félmn.