10.05.1972
Neðri deild: 74. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1434 í B-deild Alþingistíðinda. (1230)

222. mál, læknaskipunarlög

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Allir hv. þm. eru sammála um nauðsyn þess að hæta héraðslæknisþjónustuna eins og verða megi, ekki sízt þar sem sum héruð hafa verið læknislaus um lengri og skemmri tíma. Frv. til l. um breyt. á læknaskipunarlögum á þskj. 457 stefnir einmitt í þá átt að reyna að leysa þennan vanda, og það getur naumast verið ágreiningur um það, að þörf sé að taka á þessum málum. Það er því lofsvert af hálfu hæstv. heilbrmrh. að reyna með nokkurs konar skyndiráðstöfunum eða þar til heildarlöggjöf um heilbrigðisþjónustuna verður samþ., væntanlega á næsta þingi, að reyna að bæta læknisþjónustu strjálbýlisins. Fyrstu tvær gr. þessa frv. virðast eðlilegar og stefna í rétta átt. Hins vegar virðist mér og sumum öðrum þm., að það verði naumast sagt um 3. gr. þessa frv., en hún hljóðar svo:

„Heimilt skal, að fenginni umsögn landlæknis og læknadeildar Háskóla Íslands, að veita læknanemum ríkisstyrki til náms gegn skuldbindingum um læknisþjónustu í strjálbýli að loknu námi. Nánari ákvæði um styrki þessa skal setja í reglugerð.“

Í reglugerð er síðan sagt nánar frá því, hvernig með þessa styrki skuli farið, hvaða skilyrði fylgja þeim. upphæð þeirra o.s.frv. Þar kemur í ljós, að það er heimilt að veita árlega allt að 10 stúdentum í læknisfræði námsstyrki, hvern að fjárhæð allt að 200 þús. kr., gegn skuldbindingu um læknisþjónustu í héraði. Styrkþegi, segir í 4. gr. þessarar reglugerðar, skal skuldbinda sig til að gegna læknisþjónustu í héraði, þannig að hver styrkveiting jafngildi einu almanaksári í læknishéraði. Ég hygg, að þarna sé farið inn á ranga braut og þetta leiði ekki til neinnar lausnar á þeim vanda, sem hér er reynt að leysa. Þess vegna hef ég ásamt tveimur öðrum þm., þeim Stefáni Gunnlaugssyni og Jóni Skaftasyni, flutt brtt. á þskj. 711, þar sem lagt er til, að 3. gr. falli brott. Og nú vil ég reyna að rökstyðja þetta með nokkrum orðum.

Með því að taka út læknanema sérstaklega úr öðrum hópum námsmanna við Háskóla Íslands og annars staðar, þar sem námslán eru veitt, þá er strax komið upp misrétti námsmanna að mínu mati. Sumir verða að sætta sig við lán, sem þeir þurfa að endurgreiða. Öðrum eru veittir styrkir, sem eru óafturkræfir, ef þeir fara út á land. Ég vil benda á, að þetta veldur sjálfsagt óánægju meðal þeirra namsmanna, sem ekki stunda læknisfræði. Þarna er strax í upphafi verið að mismuna námsmönnum við námsstofnanir.

Í öðru lagi vil ég benda á, að þetta er misrétti gagnvart öðrum stéttum. í 2. gr. frv. er vikið að héraðshjúkrunarkonum, og þetta frv. var sent Hjúkrunarkvennafélagi Íslands til umsagnar og þar kom fram, að hjúkrunarkvennafélagið óskaði eftir því að fá styrki til þess að fara út á landsbyggðina eins og læknastúdentar, og ég get ekki séð betur en hjúkrunarkvennafélagið hafi þar að fullu jafngildan rétt til þess að fá styrk til þess að hjúkrunarkonur fari út á land eins og um lækna. En ég vil víkka þessa hugmynd og segja enn fremur, þetta varðar líka aðrar starfsstéttir. Hvað er að segja t.d. um prestana. Er ekki svo, að nánast allir Austfirðir eru prestslausir? (Gripið fram í: Það gerir nú minna til.) Og ég vil halda því fram, úr því að hér er um þjóðkirkju að ræða, að þá hvíli nokkur skylda á hinu opinbera að leysa úr þeim vanda, sem þar er fyrir hendi.

En þetta er þó ekki aðalatriðið. Ég er aðeins að benda á, að hér skapast visst misrétti gagnvart öðrum námsmönnum og öðrum starfsstéttum, en aðalatriðið er þó það, að ég tel, að það sé engin lausn fólgin í þessu, og það er sjálfsagt meginkjarni málsins. Fyrst er að athuga það, hvernig læknanemar sjálfir hafa tekið þeirri breytingu, sem hér um ræðir, því að þeir eru auðvitað aðilar að málinu. Þá segir í grg. með frv., að þetta hafi verið gert í samráði við læknanema við háskólann. Nú má segja, að í „samráði við“ sé orðalag, sem getur haft dálítið misjafna merkingu. Að gera eitthvað í samráði við gæti merkt það, að sá aðili, sem við er átt, hafi haft hugboð um það, sem rætt hefði verið við hann. En í öðru lagi gæti þetta merkt, að þetta væri gert í fullri samstöðu við þann aðila, sem við er átt. Hér merkir þetta sjálfsagt í grg., að þetta sé gert á þann hátt, að höfð hafi verið samskipti eða samráð við læknanema við háskólann, en það merkir ekki, að þetta hafi verið gert með fullum stuðningi læknanema. Ég vil benda hér á, að í bréfi frá Félagi læknanema segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er augljóst af bréfaskiptum Félags læknanema við heilbrmrn., að læknanemar líta á frelsi styrkþega til að endurgreiða styrkinn að eigin mati algera forsendu þeirra breytinga, sem Félag læknanema leggur til, að verði gerðar á eldri lögum og reglugerðum um þetta efni.“

Þeir vilja fá að endurgreiða þessar 200 þús. kr. að eigin mati við þær aðstæður, sem þeir sjálfir meta eðlilegar. En í reglugerð er sagt í 6. gr., að geti styrkþegi ekki uppfyllt skyldur sínar af ástæðum, sem landlæknir metur gildar, skal hann þá þegar hefja endurgreiðslu o.s.frv. Af þessu verður ekki annað ráðið en að læknanemar eru andvígir þessu fyrirkomulagi. Ég vil enn leyfa mér að lesa, með leyfi forseta, upp úr ummælum úr þessu bréfi. Þar segir í 2. gr.:

„Í aths. við 3. gr. bls. 2 stendur:

Með greininni er lánum læknastúdenta með kvöð um starf í héraði breytt í styrki og gert ráð fyrir, að með reglugerð verði sett strangari ákvæði en nú eru um uppfyllingu þessara kvaða. Þessi breyting er gerð í samráði við Félag læknanema við Háskóla Íslands.“

Síðan segir í bréfinu: „Þetta getum við alls ekki fallizt á.“

Af orðalagi þessarar aths. má ráða, að setning strangari ákvæða er í samráði við Félag læknanema, en er hins vegar sett þvert gegn ítrekuðum tilmælum Félags læknanema. Í framhaldi af þessu segir í bréfinu:

Leggjum við ákveðið til, að eftirfarandi breytingar verði gerðar á reglugerðinni: Í fyrsta lagi er það, að veita má sama styrk í allt að þrjú ár. Það er tekið upp eins og segir í reglugerð í 2. gr., en niður á að falla, „þó aldrei fyrr en hann hefur staðizt fyrsta hluta embættisprófs.“ Og í 6. gr. er einnig vikið að því, að það er talið óeðlilegt, að landlæknir meti þessar aðstæður. Síðan segir í bréfinu:

„Hér koma fram margítrekuð sjónarmið læknanema um valfrelsi styrkþega til endurgreiðslu styrks eða uppfyllingu kvaðar um læknaþjónustu í héraði. Hér er um að ræða skuldbindingar um vinnu á fjarlægum stað í eitt ár og meðfylgjandi búferlaflutninga, sem gerðar eru 3–4 ár fram í tímann. Á 3–4 árum getur orðið sú röskun á högum manna, að þeir telja sér ekki fært að uppfylla þessa kvöð og hefðu ekki sótt um styrk, ef þeir hefðu séð fram í tímann. Það er ekki þar með sagt, að landlæknir meti þessa röskun gilda. Auk þess er þetta ákvæði bein móðgun við væntanlega umsækjendur, þar sem það lætur að því liggja, að þeir sæki um styrkinn á föstum forsendum.“ — Það á væntanlega að vera fölskum forsendum.

Af þessu verður ekki annað séð en eins og frv. liggur fyrir, þá er það í andstöðu við Félag læknanema, og ef svo er, hver getur þá orðið í raun og veru árangurinn af þessu? Læknanemar voru boðaðir á fund heilbr.- og félmn. til þess að ræða þessi mál, en það má geta þess, að þeir komu ekki.

Nú vík ég að öðru atriði. Það er gert ráð fyrir því, að þessi styrkur nemi 200 þús. kr. á ári, 200 þús. kr. fyrir hvert ár úti í héraði, þ.e. geti numið alls 600 þús. kr. Eins og nú hagar, þá hafa námsmenn lán, sem veitt eru alveg með sérstökum vildarkjörum. Læknanemar, eins og aðrir stúdentar, hafa lán, sem á að endurgreiða með jöfnum ársgreiðslum á allt að 15 árum með 5% ársvöxtum, og skulu endurgreiðslur hefjast 5 árum eftir að námi lýkur, en vextir reiknast frá námslokum. Og nú er spurningin: Ef þessir nemendur fá 200 þús. kr., þá felur það að sjálfsögðu í sér, að það kemur til frádráttar í sambandi við veitingu úr lánasjóði, það liggur í hlutarins eðli. Og þá er spurningin: Hvaða læknanemi lætur sér til hugar koma að sleppa svona góðu láni úr lánasjóði til þess að taka við 200 þús. kr. styrk, sem hann jafnvel þarf að endurgreiða aftur með fullum víxilvöxtum, ef hann fer ekki út í hérað? Ég er alveg sannfærður um það, að ef þessi 200 þús. kr. styrkur á að leiða það af sér, að viðkomandi læknanemi missi af láni úr lánasjóði, þá lítur hann ekki við styrknum. Ég vil enn bæta því við, að það kemur hvergi fram beinlínis, að læknanemar eigi að missa af þessum 200 þús. kr., en ég tel, að það liggi í hlutarins eðli, því að læknanemar mundu aldrei ljá máls á því, að verða af þeim hlunnindum að fá góð lán úr lánasjóði á þessum litlu vöxtum, ef þeir tækju við þessum 200 þús. kr. Þeir mundu, ef svo væri, missa þau miklu réttindi, sem fólgin eru í þessu, ef þeir tækju við styrknum.

Hæstv. heilbrmrh. sagði í framsöguræðu sinni, að þessi styrkur mundi væntanlega stytta nám læknanema í læknadeild. Þetta er á misskilningi byggt, vegna þess að þessar 200 þús. kr. byggjast á því, að læknanemar fái þetta eftir fyrsta hluta embættisprófs. En fjárþörfin fyrir læknanema er einmitt mest áður en þeir hafa lokið fyrsta hluta. Eftir að þeir hafa lokið fyrsta hluta hafa þeir það góð námslán, að þar verða engar óeðlilegar tafir vegna fjárskorts, þannig að þetta hefur ekki áhrif á lengd námstíma læknanema, nema þessi styrkur kæmi til greina um leið og þeir hæfu nám í læknisfræði.

Ég vil leyfa mér í sambandi við þetta mál að lesa umsögn frá Háskóla Íslands um þetta mál. ekki af því að þessi umsögn sé svo merkileg, heldur sýnir hún þann furðulega anda, sem ríkir í þessum málum. (Gripið fram í.) Já, þú getur lesið hana aftur, ef þú vilt. Hún hljóðar þannig: Deildarráð leggur til, að reglugerð um námsstyrki til læknanema gegn skuldbindingu læknisþjónustu í héraði orðist svo: Hver styrkveiting felur í sér skuldbindingu styrkþega um sex mánaða starf í læknishéraði, — m.ö.o. að læknadeild vill láta 200 þús. kr. gegn sex mán. starfi í læknishéraði — og í þriðja lagi: Deildarráð telur, að styrkveitingar þessar eigi að vera óháðar þeim lánum, sem stúdentar við Háskóla Íslands eiga kost á að fá frá opinber um aðilum. Hér eru sem sagt kröfurnar auknar, hér er sá andi, sem yfirleitt virðist ríkja í þessum málum og stjórnvöld virðast furðanlega sveigja sig að.

Það sem fyrir mér vakir, er fyrst og fremst það, að það er ekki aðeins misrétti gagnvart öðrum námsmönnum, ekki aðeins misrétti gagnvart öðrum starfsstéttum, heldur er þetta engin raunsæ lausn á vandamálunum og þá er spurningin: Hver er lausnin? Og ég skal reyna að koma að henni. Það á auðvitað að hafa þann háttinn á, að í læknisnáminu felist það, að læknar fari í sex mán. út í hérað, það sé bara hluti af læknanáminu, það sé ekki talin óeðlileg kvöð, heldur sé þetta þáttur í sjálfu náminu, og það er lausnin, að þeir fari sex mán. út í hérað. Eldri læknar telja þetta fullkomlega eðlilegt, og það á að hætta að moka þessum peningum út af tómum sóðaskap, heldur reyna að taka á málunum eðlilega, og ég tel, að svona lausn sé ekki nein á þessum málum, vandamálum læknisþjónustunnar úti á landi. Þó að ég viti það, að við allir höfum einlægan áhuga á að leysa þessi vandamál. þá verður að reyna að taka raunsætt á þessu en ekki bara strá peningum og halda það leysa allt saman. Og ég vil bæta einu við. Eru ekki allir sammála um það, að það sé ekki hægt að fá lækna út á land vegna hinna félagslegu aðstæðna? Læknamiðstöðvar og heilsugæzlustöðvar eiga að leysa félagslegan vanda. Menn hafa strandað á því, að moka peningum, og þetta er alveg sami hátturinn á. Það er hið félagslega, sem á að leysa málin, en hið peningalega leysir ekki lengur þessi mál.