10.05.1972
Neðri deild: 74. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1438 í B-deild Alþingistíðinda. (1232)

222. mál, læknaskipunarlög

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ég vil með örfáum orðum lýsa afstöðu minni til þessa máls. Það hefur komið fram hér í hv. Nd., að það ríkti engin sérstök eining um þetta frv. í heilbr.- og félmn., er málið var þar til umr. Það kom fram í ræðu hv. frsm. n., og það hefur einnig komið fram í þeim tillöguflutningi, sem hér er til umræðu.

Hver nm. af öðrum lýsti sig andvígan málinu, einkum 3. gr. frv., sem kveður á um heimild til handa heilbrmrh. að veita læknanemum styrki í þrjú ár, 200 þús. kr. á ári, gegn kvöð um þjónustu í héraði, og það er gert ráð fyrir, að styrkir þessir geti orðið allt að 10 á ári. Og nú er sem sagt komin fram brtt. frá tveimur hv. nm. og einum hv. þm. að auki um að þessi gr. falli brott. Ég dreg enga dul á það, að mér sýnist vafasamt, að þetta frv. leysi þann mikla vanda, sem öllum er kunnur, varðandi læknisþjónustu í hinum dreifðu byggðum. Ég held, að flestir viðurkenni, að hér sé frekar um félagslegt en fjárhagslegt vandamál að ræða og tek þar undir með hv. 3. landsk. þm. En engu að síður þá hef ég ákveðið að fylgja þessu frv. Ég geri það vegna þess, að mér þykir það vera ábyrgðarhluti að bregða fæti fyrir tilraun, sem kann að leiða til lausnar, án þess að við getum fullyrt það.

Mér þykir miður, að umsögn Félags læknanema skuli vera svo neikvæð sem raun ber vitni. Þeir vilja meta það sjálfir, hvort þeir endurgreiða styrkinn, og fari þá ekki til þjónustu í héraði, ef þeim sýnist svo. Þetta þykir sjálfsagt mörgum nálgast frekju, og ég tel fráleitt að fara eftir umsögn sem þessari. Hins vegar dreg ég í efa, að þetta sé skoðun allra læknanema, enda mun fyrri stjórn Félags læknanema hafa verið þessari leið samþykk, eins og kemur fram í grg. frv. Mér sýnist því ekki vera hægt að segja, að læknanemar, og þar sé enginn undanskilinn, séu andvígir frv., eins og hv. 3. landsk. þm. sagði hér áðan. Þess vegna tel ég, að hv. alþm. eigi ekki að láta þessa neikvæðu umsögn hafa áhrif á afstöðu sína. Hér er um stærra mál að ræða en svo, að slíkt megi henda. Nú, ef svo fer, að læknanemar vilja ekki þiggja þessa styrki vegna kvaðarinnar um þjónustu í héraði, þá verður að taka því, þá hefur í rauninni ekkert gerzt annað en það, að tilraun þessi hefur mistekizt. Ef þeir þiggja styrkina, en geta ekki af einhverjum ástæðum, sem upp kunna að koma, innt þessa þjónustu af hendi síðar í héraði, þá endurgreiða þeir styrkina með venjulegum víxilvöxtum, og ríkissjóður hefur þá engu tapað..Með hliðsjón af þessu, sem ég hef hér sagt, þá sýnist mér engu tapað með því að styðja frv., þvert á móti er allt að vinna, og þess vegna mun ég styðja þetta mál.