10.05.1972
Neðri deild: 74. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1440 í B-deild Alþingistíðinda. (1234)

222. mál, læknaskipunarlög

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég hefði nú kannske getað sparað mér að tala nema vegna þess, sem hv. síðasti ræðumaður sagði. Ég kvaddi mér hljóðs til að benda mönnum á, að hér er um það að ræða að finna úrræði til þess að bæta úr neyðarástandi og það er ekki hægt að meta þau úrræði, sem hugsanlegt er að grípa til miðað við annað. Það verður að miða við það. Það getur vel verið, að margt af því, sem hv. fyrri flm. brtt. um að fella niður 3. gr. sagði, eigi við nokkur rök að styðjast og að sú lausn, sem hæstv. ráðh. vill reyna samkv. 3. gr., sé ekki sú æskilegasta, maður getur vel fallizt á það. En þau vandkvæði, sem hann benti á, eru algjör hégómi í augum þeirra manna, sem vita hvað það er að vera læknislaus í dreifðum byggðum, algjör hégómi og má ekki blanda þessu inn í, þegar verið er að tala um, hvort það eigi að reyna að bjarga fólki úr lífsháska, því það er í raun og veru það, sem hér er um að ræða, hvort það eru tiltæk ráð til, til þess að bjarga fólki úr lífsháska, því að auðvitað er það lífsháski fyriræðimarga að búa við það að vetrarlagi t. d. að vera læknislaus. Menn mega ekki horfa á þetta eins og einskisverðan hlut, þegar þeir meta það, hvaða úrræði eru hugsanleg, þegar svona stendur á. Þá verða að koma til úrræði, sem mönnum kannske annars ekki dytti í hug að nota. Þetta á við ævinlega, þegar út í svona er komið og um björgunarstörf er að ræða, þá er ekki lagt venjulegt mat á það, hvað menn leggja út í. Ég vil biðja menn að íhuga, að þannig er ástatt um þetta. Nú má vera, að okkur, sem erum þm. fyrir byggðarlög, sem verða að þola þessa nauð, sé þetta ljósara en öðrum mönnum, en ég hef nú þá trú á víðsýni hv. þm. og hæfileikum þeirra til þess að setja sig í annarra spor, að sé bent á þetta, þá muni hv. alþm. sjá, að það er ekki skynsamlegt að leggja stein í götu þess, að hæstv. heilbrmrh. fái að reyna þetta, sem stungið er upp á í 3. gr. Ef honum tækist að fá, þó ekki væri nema tvo eða þrjá læknanema til þess að vinna næsta vetur í tveimur eða þremur læknishéruðum, þá er stór sigur unninn og þessi vandkvæði, sem hv. fyrri flm. brtt. ræddi, gufa upp eins og dögg fyrir sólu, þegar borið er saman við þann ávinning, sem fæst af slíku. Það er auðvitað hégómi, þó að það þyrfti að borga ungum manni, sem er við nám, 200 þús. kr. aukalega sem styrk fyrir að taka að sér slíka þjónustu, þegar ekki eru aðrir fáanlegir.

Það er hægt að benda á ýmsar heppilegri leiðir, en þær eru allar seinvirkari. Það er nú orðið svona ástatt með læknana m. a. af því að háskólinn hefur vanrækt að útskrifa lækna, eins og ég og fleiri höfum bent á hér undanfarin ár, og er nú orðið neyðarástand meðfram fyrir það, hvernig að þessu hefur verið unnið. Þetta hefur verið fyrirsjáanlegt um æðilanga hríð og verið bent á það hér á þingi, en menn látið það margir eins og vind um eyrun þjóta. Það er breytt stefna nú að manni skilst, að það eigi að kenna fleirum lækningar í háskólanum, en árangurinn af þeirri breyttu stefnu kemur ekki í ljós fyrr en eftir nokkur ár, og eitthvað verður að gera á meðan. Ekki getur fólk beðið læknislaust þangað til nýju læknarnir koma í gagnið, og úrræðið, sem hv. 3. landsk. þm. benti á, að skylda nemendur til að vera sex mán. í héraði og hafa það hluta af náminu, fæst ekki samþykkt á þessu þingi, þó að það geti verið skynsamlegt og ég geti að mörgu leyti tekið undir það. Ég vil þess vegna fara fram á við hv. þm„ að þeir styðji ráðherrann í því að fá þessa heimild í gr., þó að þeir sjái á því ýmis vandkvæði, af því tagi, sem hv. 3. landsk. þm. benti á. Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri, en ég vildi taka undir þær raddir, sem heyrðust í þessa stefnu, og það má ekki minna vera en við, sem þekkjum þessi ósköp, leggjum fáein orð í belg, svo að þetta sjónarmið komi sem skýrast fram.